Miðstöðin

2022

Miðstöðin
– í meistarahöndum í yfir 70 ár

Margt hefur breyst frá árinu 1950 og þó ekki ef marka má hausinn á reikningi frá Miðstöðinni í Vestmannaeyjum það ár. Þar stendur: Miðstöðvarofnar, útlendir, innlendir, vatnsleiðslur, hreinlætistæki, miðstöðvarkatlar, kola- og olíukyntir. Upphæðin hljóðar upp á 450 krónur og 24 aura. Miðstöðvarkatlar heyra að vísu sögunni til og umsvifin hafa aukist en í grunninn eru viðfangsefnin ekki ólík. Ævintýrið byrjaði í bílskúr við Faxastíg árið 1940 en í dag er Miðstöðin í 800 fm húsi á tveimur hæðum á besta stað við Strandveginn. Starfsmenn eru 22, í lagnavinnu, á lager og verslun sem eru ásamt trausti sem fyrirtækið hefur byggt upp, lykill að vexti og velgengninni ásamt því að fylgst er vel með nýjungum í greininni. Miðstöðin er fjölskyldufyrirtæki og hefur sonur tekið við af föður. Sigurvin Marinó Jónsson, pípulagningameistari stofnaði fyrirtækið árið 1940 og rak í eigin nafni til 1950 þegar það fékk Miðstöðvarnafnið. Sonurinn Sigursteinn tók við af honum, þá Marinó, allir pípulagningarmeistarar. Fjórði ættliðurinn, Bjarni Ólafur Marinósson sneri heim eftir tíu ár í Danmörku árið 2012 og er í dag framkvæmdastjóri Miðstöðvarinnar. Hann er með víðtæka menntun sem gæti útvíkkað starfsemina.

Aukin umsvif
Fyrstu árin var fyrirtækið til húsa að Faxastíg 25 þar sem var verkstæði fyrir pípulagnir og baðhús með fjórum sturtum. Aukin umsvif kölluðu á stærra húsnæði og árið 1959 flutti fyrirtækið yfir götuna að Faxastíg 26 í 100 fermetra nýtt húsnæði. Með auknu vöruúrvali hófst verslun með hreinlætistæki og flísar sem er önnur stoðin í rekstrinum sem enn stækkaði. Fríða, eiginkona Sigursteins, stóð vaktina í versluninni. Seinna meir tekur Marý Ólöf, eiginkona Marinós, við versluninni og bókhaldi. Tímamót urðu 20. maí 2005 þegar Miðstöðin flutti í núverndi húsnæði að Strandvegi 30. Húsið er um 800 fm á tveimur hæðum og er verslunin, andlit fyrirtækisins á 350 fm. Nú er verið að innrétta aðra hæðina þar sem eru lager og verkstæði, skrifstofur, fundarsalur og aðstaða fyrir starfsfólk. Umsvif Miðstöðvarinnar hafa aukist og er Miðstöðin með um 70% af öllum pípulögnum í Vestmannaeyjum auk þess að vera leiðandi í sölu á flísum og hreinlætistækjum. Hefur veltan verið svipuð síðustu ár og er nú heldur á uppleið. Miðstöðin er umboðsaðili á flísum fyrir Álfaborg hf. í Reykjavík og til marks um stöðuna á þeim markaði er að um þriðji hluti af allri sölu Álfaborgar á landsbyggðinni er í Vestmannaeyjum. Miðstöðin er líka með umboð fyrir Málningu hf. Í Kópavogi, Tengi ehf. í Kópavogi, Byko og SET ehf. svo fátt eitt sé nefnt.

Gott gengi í sjávarútvegi skilar sér
Feðgarnir Marinó og Bjarni Ólafur eru sammála um að gangurinn í sjávarútvegi ráði stöðu atvinnumála í Vestmannaeyjum, þar séu allir í sama skipsplássinu þó ekki rói allir til fiskjar. „Eftir erfiðleika í sjávarútvegi fram að hruni 2008 urðu mikil umskipti í sjávarútvegi þegar gengi íslensku krónunnar varð hagstæðara útflutningsgreinunum. Þess höfum við notið hér í Vestmannaeyjum og sér ekki fyrir endann á því,“ segir Marinó og bendir á milljarða fjárfestingu hjá Ísfélagi, Vinnslustöð (VSV) og Leo Seafood síðustu ár. Þar hefur Miðstöðin komið að verki og sem dæmi má nefna að einn starfsmaðurinn hefur verið fastur í VSV í átján ár. Fyrir utan hefðbundnar pípulagnir hafa þeir unnið að uppsetningu á tækjum og búnaði til vinnslu loðnuhrogna sem er dýrmæt afurð sem loðnan gefur. „Þetta þarf að tengja saman og svo hefur VSV byggt upp nýtt frystihús fyrir uppsjávarvinnsluna sem er mikil framkvæmd. Ísfélagið er að flytja hrognavinnsluna úr frystihúsinu í nýtt hús við loðnubræðslu félagsins. Það er mikil framkvæmd. Núna erum við að senda mannskap austur á Þórshöfn þar sem Ísfélagið er með fiskvinnslu og bræðslu. Þar setjum við upp sjálfvirkt slökkvikerfi í bræðsluna,“ segir Marinó.

Eyjamenn gera miklar kröfur
Frá því Miðstöðin var stofnuð hefur bygging íbúðarhúsnæðis gengið í bylgjum í Eyjum. Mikið var byggt á árunum eftir gos en svo kom lægð fram til 2010 að rofaði til og aldrei hefur verið byggt meira en síðustu ár. „Allt helst þetta í hendur við sjávarútveginn, þegar vel gengur á sjónum er meira að gera hjá okkur, öðrum iðnaðarmönnum og almennt hjá fyrirtækjum í þjónustu. Eyjamenn gera kröfur sem sést á því að þeir vilja bara það besta. Það sjáum við þegar sala á flísum er borin saman við aðra staði á landinu,“ sagði Marinó. Bjarni Ólafur tók undir þetta og sagði: „að Miðstöðin hefði náð því að vera önnur eða þriðja söluhæsta fyrirtækið hjá Álfaborg. Við á lítilli eyju. Það sama á við um önnur fyrirtæki sem við seljum fyrir,“ sagði Bjarni Ólafur. Aldrei hafa aldrei verið fleiri lærlingar, samtals sjö. Er það dæmi um aukinn áhuga á iðnnámi almennt. „Meistarar eru fjórir með okkur og tveir sveinar. Svo erum við með mjög góða verkamenn sem við treystum hundrað prósent til að gera hvað sem er,“ segja þeir.

Framtíðin björt
Framtíðin er björt í Vestmannaeyjum að þeirra mati og þá gildi það sama fyrir Miðstöðina sem er tilbúin að taka að sér ný og stærri verkefni. „Það er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn á það sem framundan er. Frá því við fjölskyldan komum heim eftir tíu ár í Danmörku hefur viðkvæðið verið, – þetta hlýtur að fara róast. Það hefur ekki gerst ennþá og ekkert sem bendir til að einhver breyting verði,“ segir Bjarni Ólafur sem er byggingafræðingur, pípulagningameistari, löggiltur byggingarstjóri, mannvirkjahönnuður og eftirlitsaðili fyrir Sprinkler og með einingu frá Energi Styrelsen frá Danmörku. „Við getum því boðið upp á byggingastjórnun og allt sem henni fylgir. Ég hef líka sökkt mér ofan í orkusparnað, ekki síst á heimilum sem er mjög spennandi framtíðarverkefni.“ Þeir leggja áherslu á að starfsfólkið sé undirstaðan og hrósa happi að hafa frábæran verkstjóra, Bjarka Ómarsson, sem stýrir mannskapnum ásamt því að leggja pípulagnir eins og herforingi, og öflugan fjármálastjóra, Björgvin Hallgrímsson, sem heldur vel utan um allan rekstur. Sigursteinn, sem er annar í röðinni var árið 2006 heiðraður af Lagnafélagi Íslands fyrir einstakt ævistarf. Fimm ár í röð hefur Miðstöðin verið í hópi framúrskarandi fyrirtækja að mati CreditInfo og meðal þeirra tveggja prósenta fyrirtækja í landinu sem standast strangar kröfur Viðskiptablaðsins og Keldunnar um frábæran rekstur. Lokaorðin á Marinó: „Ég er og hef alltaf verið bjartsýnn, kann ekki annað og horfi bara fram á veginn. Kannski háir það mér að vera svona bjartsýnn en það hefur skilað árangri hingað til.“

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd