IKEA

2022

Sænskar rætur í íslensku umhverfi
Svíinn Ingvar Kamprad stofnaði IKEA árið 1943 í Smálöndum Suður-Svíþjóðar. IKEA á Íslandi hóf starfsemi 1981 og hefur tekið miklum breytingum síðan verslunin opnaði á efri hæð Hagkaupa í Skeifunni. Eftir viðkomu í Húsi verslunarinnar og Holtagörðum flutti IKEA árið 2006 í nýtt húsnæði í Kauptúni í Garðabæ sem er rúmir 22.000 fermetrar að stærð. Þar að auki starfrækir fyrirtækið tvö lagerhúsnæði, samtals um 8.000 fermetra. Starfsmönnum hefur fjölgað ört undanfarin ár og eru þeir nú um 450. Eigendur IKEA á Íslandi reka einnig IKEA í Litháen, Eistlandi og Lettlandi.

Samfélagsábyrgð í IKEA
Kjarnastarfsemi IKEA er sala á húsbúnaði og í þeim rekstri hefur fyrirtækið ávallt lagt áherslu á sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Það á rætur að rekja allt aftur til upprunans í Suður-Svíþjóð þar sem hefð er fyrir elju og ekki síst nýtni. Þannig eru þessir málaflokkar hluti af erfðaefni fyrirtækisins og sjálfbærni er ein fimm grunnstoða við hönnun á vörum IKEA. Það þýðir að við hönnun hverrar vöru er horft til sjálfbærra eiginleika hennar, hvort sem það á við um notkun, hráefni eða framleiðsluaðferð. Auk sjálfbærni eru grunnstoðirnar hönnun, gæði, notagildi og lágt verð. Lága verðið er stór þáttur í samfélagsábyrgð fyrirtækisins, sem má glögglega sjá í grunnhugmyndafræði IKEA; „Að gera daglegt líf þægilegra fyrir sem flesta“.
Það eru um 440 IKEA verslanir í heiminum og í krafti stærðarinnar getur fyrirtækið haft mikil áhrif á umhverfi sitt á hverjum markaði. Allir birgjar IKEA þurfa að uppfylla kröfur IWAY, siðareglur birgja, og reksturinn þarf að uppfylla kröfur IConduct siðareglnanna. IKEA á Íslandi var til að mynda fyrsta íslenska fyrirtækið til að fá svokallaða AEO vottun, en það var gert til að standast kröfur IConduct. Eins hefur IKEA haft mikil áhrif á hrávörumarkaði þar sem aðferðir við ræktun og öflun hráefnis verður sífellt skilvirkari og sjálfbærari.

Innlend verkefni
IKEA á Íslandi hefur um árabil sinnt samfélagsábyrgð af krafti og skilgreint nokkuð vítt hvað fellur undir þann hatt. Dæmi um staðbundin verkefni á því sviði er stuðningur við slysavarnir barna, styrkveitingar til innlendra málefna er snerta börn og eins hefur IKEA verið í fararbroddi í að bjóða upp á hleðslustöðvar fyrir rafbíla við verslunina þar sem gestir hafa getað hlaðið frítt síðan árið 2016.

Stafræn og sjálfbær framtíð
IKEA á Íslandi hefur mælt kolefnisspor starfseminnar frá árinu 2015 með aðstoð hugbúnaðar frá fyrirtækinu Klöppum. Öll losun fyrirtækisins var kolefnisjöfnuð í gegnum Kolvið og Votlendissjóð árin 2017-2019. Frá 2020 er öll losun fyrir utan vöruflutning, kolefnisjöfnuð í gegnum Kolvið. Lögð er áhersla á að finna leiðir til að draga úr losun og sett hafa verið markmið um það til framtíðar. IKEA á Íslandi hefur, líkt og önnur fyrirtæki, orðið fyrir áhrifum af Covid-19 heimsfaraldrinum og nánasta framtíð snýst um að jafna sig á þeim aðstæðum á sama tíma og siglt er inn í nýja tíma; stafrænni framtíð þar sem veita þarf öfluga þjónustu á mörgum snertiflötum með sjálfbærni að leiðarljósi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd