Míla

2022

Míla er undirstaða fjarskipta á Íslandi
Míla ehf. er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem á og rekur víðtækasta fjarskiptakerfi landsins. Kjarnastarfsemi Mílu felst í uppbyggingu og rekstri fjarskiptainnviða á landsvísu. Fjarskiptakerfi Mílu samanstendur af ljósleiðurum, koparstrengjum, og örbylgjusamböndum sem liggja hringinn um landið, til allra þéttbýlisstaða og til heimila, fyrirtækja og stofnana um land allt. Míla sér viðskiptavinum sínum fyrir dreifileiðum fyrir fjarskiptaþjónustu sína og aðstöðu fyrir fjarskiptabúnað, og er þannig mikilvægur hlekkur í öryggisfjarskiptum landsins á sjó, landi og í lofti. Fjarskipti eru ein af grunnþjónustum samfélagsins og það er mikilvægt fyrir öryggi fjarskipta að til staðar sé eitt heildstætt kerfi fjarskiptainnviða sem þjónar öllu landinu. Það kerfi er Míla.
Fyrirtækið Míla var stofnað árið 2007 og er í eigu Símans. Fyrirtækið var stofnað þegar grunnkerfi fjarskipta voru skilin frá starfsemi Símans. Stjórn Mílu er skipuð þremur aðilum. Stjórnarformaður Mílu er Óskar Jósefsson og stjórnarmenn eru Sigríður Dís Guðjónsdóttir og Sylvía Kristín Ólafsdóttir. Framkvæmdastjóri Mílu er Jón Ríkharð Kristjánsson. Höfuðstöðvar Mílu eru á Stórhöfða 22-30, 110 Reykjavík.
Starfsemi Mílu byggir á gömlum grunni, en upphaf rekstursins má rekja til ársins 1906 þegar fyrsti sæstrengurinn kom á land á Seyðisfirði. Þegar Landsími Íslands var stofnaður var hafist handa við lagningu koparstrengja um landið og til höfuðborgarinnar. Lagningu kopars í dreifðari byggðum var lokið um 1960 og voru þá flest heimili á landinu komin með símatengingu.
Upphaf ljósleiðaravæðingar má rekja til ársins 1985 þegar fyrsti ljósleiðarinn var lagður innan borgarmarkanna og 1986 var fyrsti ljósleiðarinn lagður utan borgarinnar með streng frá Reykjavík til Selfoss. Í upphafi báru strengirnir 1920 símarásir (140 Mb/s) sem var mikil bylting á sínum tíma. Nákvæmlega sömu strengir flytja í dag margfalt meira gagnamagn enda hefur tækninni fleygt fram hvað varðar endabúnað sem tengist ljósleiðara. Þróun í bandvíddarþörf er hröð og vinnur Míla stöðugt að því að mæta auknum þörfum.

Vinnulag og framleiðsluferli
Fjarskiptakerfi Mílu – Míla veitir viðskiptavinum sínum aðgengi að fjarskiptakerfi sínu og sér þeim fyrir aðstöðu og dreifileiðum fyrir sína þjónustu. Míla leggur áherslu á að veita viðskiptavinum örugga þjónustu og ráðgjöf til að hámarka öryggi fjarskipta.
Fjarskiptakerfi Mílu byggist upp á tveimur meginkerfum, stofnneti og aðgangsneti.
Stofnnet Mílu byggir að mestu á ljósleiðurum, en einnig á örbylgjum. Ljósleiðarakerfi Mílu nær til allra þéttbýlisstaða á landinu og liggur hringinn í kringum landið. Kerfið er þannig uppbyggt að ávallt er reynt að tryggja hringtengingu eða tvítengingu til að auka öryggi fjarskipta. Þau svæði sem ekki tengjast ljósleiðaranum eru tengd með stafrænum örbylgjusamböndum. Auk þess býður Míla aðstöðuleigu fyrir viðskiptavini sína í tækjarýmum á um 600 stöðum um allt land.
Aðgangsnet Mílu sér um flutning frá símstöð til endanotanda og er opið aðgangsnet sem þýðir að kerfi Mílu er opið öllum fjarskiptafyrirtækjum sem bjóða fjarskiptaþjónustu til notenda. Kerfið byggist upp á ljósleiðara og kopar og nær til allra heimila, fyrirtækja og stofnana í landinu.
Meirihluti heimila og fyrirtækja hefur nú aðgang að ljósleiðara Mílu og öll heimili í þéttbýli á landinu hafa aðgang að Ljósneti Mílu, sem er blanda af ljósleiðara og kopar. Míla leggur eingöngu ljósleiðara til heimila í nýjum hverfum og hefur gert það allt frá stofnun fyrirtækisins. Þá hefur Míla unnið síðustu ár að endurnýjun aðgangsnets í þéttbýli á landinu með því að leggja ljósleiðara alla leið til heimila. Alls hafa nú yfir 95 þúsund heimili á landinu öllu möguleika á að tengjast ljósleiðara Mílu þar af eru 75 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Kerfi Mílu er landsdekkandi kerfi og skiptir það miklu máli að endurnýjun kerfa nái til landsins alls. Því er fókusinn ekki síður á þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að lagningu ljósleiðara til heimila. Míla hefur einnig komið að mörgum ljósleiðaraverkefnum í dreifbýli um land allt í gegnum verkefni ríkisins, Ísland ljóstengt. Aðkoma Mílu að þeim verkefnum hefur verið allt frá ráðgjöf og hönnun til lagningar og reksturs kerfa.
Míla leggur mikla áherslu á stöðuga uppbyggingu fjarskiptainnviða, auk þess að setja á markað nýjar lausnir til að mæta þörfum markaðarins. Kerfi Mílu eru grunnur að fjölþættri fjarskiptaþjónustu um allt land og til útlanda hvort sem það eru fjarskipti fyrir almenning, fyrirtæki eða öryggisfjarskipti.

Skipulag og mannauður
Starfsemi Mílu er skipt upp í 7 svið og eru aðalsviðin fimm: Stofnkerfi, Aðgangskerfi, Sala og þjónusta, Grunn-kerfi og Framkvæmdir. Stoðsviðin eru tvö: Fjármál og greining og Tæknistoð. Í framkvæmdastjórn Mílu sitja framkvæmdastjóri, lögfræðingur og sviðsstjórar allra sviða. Hjá Mílu starfa 137 manns auk fjölda samstarfsaðila og verktaka um land allt sem vinna með starfsmönnum Mílu að uppbyggingu og viðhaldi fjarskiptakerfa landsins. Um 88% starfsfólks Mílu eru karlar. Starfsmannavelta er lítil hjá fyrirtækinu og meðal starfsaldur er rúm 18 ár. Það helgast m.a. af því að störfin eru sérhæfð og um leið samfélagslega mikilvæg. Starfsfólk Mílu starfar eftir gildum Mílu. Þau eru áreiðanleg, framsækin og traust. Starfsfólk Mílu býr yfir fjölþættri menntun, þekkingu og reynslu, sem nýtist vel í starfi við að tryggja örugg samskipti, öfluga þjónustu og ráðgjöf.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd