Minjasafn Austurlands

2022

Minjasafn Austurlands var formlega stofnað árið 1943 eftir að hópur fólks á Austurlandi hafði árið áður vakið athygli á mikilvægi söfnunar menningarminja og hvatt til stofnunar minjasafns í fjórðungnum. Fyrst um sinn var safnið í geymslum á Hallormsstað en var síðar flutt í hús Gunnars Gunnarssonar rithöfundar að Skriðuklaustri þar sem það var til sýnis um árabil. Síðar var ákveðið að byggja yfir safnið á Egilsstöðum þar sem það var opnað að nýju í Safnahúsinu að Laufskógum 1, árið 1996. Þar er safnið til húsa enn í dag ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga og Bókasafni Héraðsbúa. Minjasafn Austurlands er rekið sem byggðasamlag Múlaþings og Fljótsdalshrepps.

Stjórnendur og starfsfólk
Safnstjóri safnsins er Elsa Guðný Björgvinsdóttir, fjölmiðla- og þjóðfræðingur en hún tók við starfinu haustið 2015. Auk hennar starfa á safninu þær Beata Brodowska fornleifafræðingur og Eyrún Hrefna Helgadóttir þjóðfræðingur og menningarmiðlari. Auk umsýslu um safnkost safnsins, gestamóttöku, uppsetningu sýninga og viðburðahalds sinna starfskonur safnsins safnfræðslu og móttöku skólahópa af metnaði.

Starfsemin
Minjasafn Austurlands er almennt byggðasafn sem hefur það að markmiði að safna, skrásetja og varðveita minjar um búshætti, atvinnulíf og daglegt líf á Austurlandi og miðla menningararfinum m.a. með sýningum og fræðslu. Safnið varðveitir yfir 12.000 muni sem skráðir eru í menningarsögulega gagnasafnið Sarp og eru upplýsingar um stóran hluta gripanna aðgengilegar almenningi á vefsíðunni sarpur.is.
Grunnsýningar safnsins eru tvær og hafa verið í núverandi mynd frá árinu 2015. Annars vegar er þar um að ræða sýninguna Sjálfbær eining en yfirskrift hennar vísar til þess að áður fyrr þurfti hvert íslenskt sveitaheimili að vera sjálfu sér nægt um brýnustu lífsnauðsynjar. Til sýnis eru ýmsir gripir sem tilheyra sögu gamla sveitasamfélagsins á Austurlandi eins og það var fram undir miðja 20. öld. Meðal gripa á sýningunni er baðstofa frá bænum Brekku í Hróarstungu.
Hin sýningin ber heitið Hreindýrin á Austurlandi og fjallar hún eins og nafnið bendir til, um þessi einkennisdýr Austurlands. Fjallað er á fjölbreyttan hátt um lífshætti og lífsbaráttu hreindýranna, hætturnar sem þau búa við af völdum náttúru og mannsins, um rannsóknir á þeim, um sögu hreindýraveiða og hvernig afurðir dýranna hafa verið nýttar til matar og í handverki og hönnun.
Auk grunnsýninga safnsins er leitast við að bjóða upp á fjölbreyttar örsýningar og viðburði allt árið um kring.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd