Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012 (minjalög). Með þeim lögum voru tvær stofnanir sameinaðar, Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd ríkisins. Minjastofnun heyrði undir mennta- og menningarmálaráðuneytið þar til 1. febrúar 2022 er hún var færð undir umhverfis, loftslags og auðlindaráðuneyti.
Hlutverk
Hlutverk Minjastofnunar Íslands er að tryggja vernd og varðveislu jarðfastra menningarminja, þ.e.a.s. byggingararfs (hús og mannvirki) og fornleifa í eigin umhverfi, auðvelda aðgang að minjunum og miðla upplýsingum um þær. Stofnunin hefur umsjón með skráningu menningarminja og gefur umsagnir vegna skipulagsvinnu, umhverfismats og breytinga á friðuðum og friðlýstum húsum. Minjastofnun sér einnig um leyfisveitingar vegna útflutnings menningarverðmæta sem teljast til menningarminja sbr. upptalningu í 45. gr. minjalaga.
Í skipulagsvinnu sveitarfélaga þarf að gera ráð fyrir menningarminjum og hvernig mætti nýta þær til góðs fyrir sveitarfélagið, íbúa þess og gesti. Skrá þarf allar minjar og senda skýrslu til Minjastofnunar til samþykkis áður en skipulagið tekur gildi.
Á Íslandi eru allar fornleifar 100 ára og eldri friðaðar, auk þess sem rúmlega 800 fornleifar eru sérstaklega friðlýstar. Umgengni um friðaðar og friðlýstar fornleifar er háð ákveðnum reglum og óheimilt er að raska þeim á nokkurn hátt án leyfis Minjastofnunar.
Til byggingararfs teljast hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Öll hús og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru friðuð. Friðun felur í sér sjálfkrafa verndun húsa og mannvirkja á grundvelli aldurs þeirra. Auk þess eru um 500 byggingar á Íslandi friðlýstar. Óheimilt er að raska friðuðum eða friðlýstum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Framkvæmdir við hús og mannvirki sem byggð voru árið 1925 eða fyrr og kirkjur sem reistar voru 1940 eða fyrr eru umsagnarskyldar. Hafa skal samband við Minjastofnun með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en framkvæmdir hefjast.
Friðlýsing fornleifa, húsa og mannvirkja getur falið í sér kvöð sem þinglýst er á eignina og hefur þann tilgang að tryggja sem best varðveislu menningarminja.
Minjastofnun heldur utan um umsýslu og úthlutun úr tveimur sjóðum, fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði.
HÚSAFRIÐUNARSJÓÐUR veitir styrki til viðhalds og endurbóta á friðlýstum og friðuðum húsum og mannvirkjum og sérstökum verndarsvæðum í byggð. Einnig er heimilt að veita styrki til viðhalds annarra mannvirkja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Sjóðnum ber að stuðla að byggingarsögulegum rannsóknum, þar með talið skráningu húsa og mannvirkja og miðlun upplýsinga um þær.
FORNMINJASJÓÐI ber að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornminjum. Úthlutað er styrkjum til fornleifauppgrafta og -skráningar, varðveislu, viðhalds og miðlunar upplýsinga um fornminjar og rannsókna á forngripum. Einnig er heimilt að veita styrkjum til viðhalds annarra menningarminja sem teljast hafa varðveislugildi, þótt þær njóti ekki friðunar á grundvelli aldurs.
Minjastofnun Íslands er jafnframt falið að annast framkvæmd laga um skil menningarverðmæta til annarra landa nr. 57/2011 og framkvæmd laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Stofnunin leggur tillögur fyrir ráðherra um heildarstefnu og langtímaáætlun um verndun og varðveislu menningarminja í samráði við söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja.
Minjastofnun Íslands nýtur ráðgjafar fornminja- og húsafriðunarnefnda vegna friðlýsingarmála og úthlutunar styrkja. Tillögur að friðlýsingu og afnámi friðlýsingar fornleifa og byggingararfs sem og breytingar á þegar friðlýstum byggingum og mannvirkjum eru jafnframt kynntar nefndunum og óskað eftir umsögnum þeirra. Sé um að ræða nýja friðlýsingu gerir stofnunin tillögu til ráðherra um friðlýsinguna og tekur hann endanlega ákvörðun. Umsóknir um styrki úr fornminja- og húsafriðunarsjóðum eru lagðar fyrir nefndirnar og óskað eftir mati þeirra og umsögnum, en endanlegar ákvarðanir um styrkúthlutanir eru teknar af stofnuninni.
Starfsmenn og starfsstöðvar
Á Minjastofnun starfa 23 starfsmenn á sex starfsstöðvum, Reykjavík, Stykkishólmi, Sauðárkróki, Akureyri, Djúpavogi og Selfossi.
Minjaverðir eru starfsmenn Minjastofnunar Íslands og fulltrúar stofnunarinnar í héraði. Þeir sinna margþættum verkefnum og stýra m.a. fundum og starfsemi minjaráða.
Landinu er skipt upp í átta minjasvæði og starfar minjaráð á hverju svæði fyrir sig sem skipað er sex aðilum auk minjavarðar, sem stýrir starfi ráðsins.
Minjaráðin eru samráðsvettvangur um varðveislu og nýtingu menningarminja á hverju minjasvæði. Þau beita sér fyrir uppbyggilegum verkefnum á sviði minjavörslu til eflingar byggðar og atvinnusköpunar, meðal annars með ályktunum sem beint er til sveitarstjórna eða annarra stjórnvalda. Minjaráðin eru vettvangur fyrir íbúa til að hafa áhrif á þróun minjaverndar í heimabyggð.
Framtíðarsýn Minjastofnunar Íslands
Verndun menningarminja er órjúfanlegur hluti af íslensku samfélagi. Minjarnar eru uppspretta innblásturs og upplifunar og viðfangsefni rannsókna. Íbúar landsins eru virkir þátttakendur í minjavernd, menningarminjar eru nýttar á sjálfbæran hátt og þekkingu um þær er miðlað á fjölbreyttan máta til allra landsmanna.
Vefsíða: www.minjastofnun.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd