Mítra ehf.

2022

Mítra var stofnað sem samvinnufélag (sf.) af Magnúsi Arnarsyni og Hjördísi Þórhallsdóttur og hóf starfsemi sína í byrjun árs 1996. Nafnið var fundið í alfræðiorðabók og skýringin á nafninu eftirfarandi: „Míþras Mítra, Míthras: ævaforn íransk-arískur guð, vinsæll í Róma-veldi hjá Aríum ljós- og himinguð, velviljaður verndari réttvísi og samninga“.

Aðsetur
Fyrstu árin var aðsetur Mítra á heimili Magnúsar og Hjördísar og í Tollvörugeymslunni. Fyrirtækið flutti síðan í Suðurhraun 2 í Garðabæ og var þar til síðla árs 2011 þegar flutt var í Súðavog í Reykjavík. Á þessum árum stækkaði fyrirtækið ört og í mars 2014 flutti fyrirtækið á Tunguháls 15 í Reykjavík. Hluthafar og fleiri keyptu þá eign sem er samtals um 1650 fm.
Í upphafi á Tunguhálsinum var rætt um hvort hægt væri að leigja út hluta af húsnæðinu en þegar þetta er skrifað í febrúar 2020 þá er húsnæðið að verða of lítið.

Starfsemin
Í upphafi stóð til að flytja inn og selja alls konar hluti sem hjólbarðaverkstæði nota eins og t.d. viðgerðarefni, verkfæri, ventla, slöngur, jafnvægisstillingarlóð o.fl. Fljótlega kom í ljós að það var ekki nóg og var því byrjað á að flytja inn hjólbarða. Fyrst var byrjað á Colway, sóluðum hjólbörðum frá Englandi og fljótlega bættust við nýir hjólbarðar.
Eftir nokkur ár var ákveðið að fá inn nýja hluthafa því mikið fjármagn þarf til að byggja upp lager af hjólbörðum. Árið 1999 var farið í að fá inn hluthafa. Þá komu inn sem hluthafar með þeim Magnúsi og Hjördísi; Þjónustustöðin ehf. Þorlákshöfn (Þórður Guðni Sigurvinsson og Hildur Þ. Sæmundsdóttir), Smur- og hjólbarðaþjónusta Björns og Þórðar Keflavík (Björn Marteinsson og Þórður Ingimarsson), Hjólbarðaverkstæði Grindavíkur, (Hallgrímur Bogason). Í dag eru enn hluthafar, Magnús og Hjördís, Þjónustustöðin ehf., (Þórður G. Sigurvinsson og Hildur Þ. Sæmundsdóttir), Björn Marteinsson og Þórður Ingimarsson.
Í upphafi var lögð mikil áhersla á að heimsækja hjólbarðaverkstæðin á sendibíl með alla smávöruna og selt úr bílnum. Einnig var farið um landið en í dag er mun minna um þetta, en þó farið um landið af og til. Á fyrsta áratug þessarar aldar flutti Mítra inn Milestone hjólbarða og seldi þá til hjólbarðaverkstæðanna. Í byrjun árs 2005 byrjaði svo Mítra að flytja inn hjólbarða frá Hercules USA og þá aðallega jepplinga og jeppahjólbarða.
Svo kom hrunið fræga 2008. Sem betur fer gekk vel með flesta birgja erlendis en þó lokaðist fyrir einstaka fyrirtæki því tryggingafélög neituðu sum að selja til Íslands. Mítra er að flytja inn frá um 15 fyrirtækjum í 7 löndum.
Vegna takmarka tryggingafélaga þurfti Mítra að fara á stúfana og finna önnur fyrirtæki varðandi hjólbarða og í framhaldi á því var byrjað að flytja inn Sailun hjólbarða sem eru kínverskir. Núna þegar þetta er skrifað árið 2020 er Mítra enn að selja Sailun með góðum árangri. Margir hafa verið á móti kínverskum vörum og þar á meðal hjólbörðum en metnaðurinn hjá Sailun er gríðarlegur og má segja að hann hafi komið fram í gæðunum hjá þeim.
Mannauður
Undanfarin ár hafa stöðugildin hjá Mítra verið fjögur til fimm. Fyrirtækið hefur verið mjög heppið með starfsmenn og flestir starfað lengi hjá fyrirtækinu. Sem dæmi þá má nefna að af fjórum starfsmönnum núna eru þrír með yfir 10 ára starfsaldur. Ekki nóg með það þá eru þessir þrír starfsmenn með yfir 100 ára starfsreynslu við hjólbarða. Magnús Arnarson sem hefur verið framkvæmdastjóri frá upphafi og Gunnar Vagnsson hafa starfað við hjólbarða síðan á áttunda áratugnum.

Afkoma
Afkoman hefur verið þokkaleg og Mítra ehf. verið Framúrskarandi fyrirtæki hjá Creditinfo síðan 2016. Hin síðari ár hefur vöxturinn í ferðaþjónustunni aukið viðskiptin með hjólbarða. Þetta kemur til þar sem bílaleiguflotinn hefur stækkað ört. Samkeppnin í sölu hjólbarða hefur alltaf verið mikil sem sést kannski best í sameiningum í greininni og fyrirtæki hafa komið og farið. Mítra er eitt af mjög fáum fyrirtækjum í hjólbarðageiranum á Íslandi sem ekki rekur sjálft hjólbarðaverkstæði. Þróunin á Íslandi eins og víða annars staðar eru keðjur, þ.e.a.s. að hjólbarðafyrirtæki reka mörg verkstæði og sölustaði.

Framtíðarsýn
Framtíðin er björt fyrir Mítra. Viðskiptavinirnir er mjög margir bæði litlir og stórir. Það er ótrúlegt hvað margir eru í því að umfelga og gera við hjólbarða. Rútufyrirtæki lítil og stór, verktakar, golfklúbbar, bílaleigur og mjög margir einstaklingar eru í viðskiptum og versla smáhlutina, þ.e.a.s. annað en hjólbarða. Um 15% af veltu Mítra eru annað en hjólbarðar.
Óteljandi möguleikar eru á stækkun, t.d. hefur Sailun verið að þrýsta á Mítra að hefja sölu á vörubílahjólbörðum en það hefur ekki verið gert. Hingað til hefur fjármagnið ráðið hversu hratt félagið hefur stækkað og útlit fyrir að það ráði áfram för.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd