Mjólkursamsalan

2022

Mjólkursamsalan (MS) er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi. Fyrirtækið er í eigu Auðhumlu (85%) og Kaupfélags Skagfirðinga (15%). Auðhumla er samvinnufélag 550 kúabænda og fjölskyldna þeirra víðs vegar um landið. Mjólkursamsalan í núverandi mynd hefur starfað frá 2007. Höfuðstöðvar félagsins eru á Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Fyrirtækið rekur fimm framleiðslustöðvar; í Reykjavík, Búðardal, á Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Um 400 manns vinna hjá Mjólkursamsölunni í fjölbreyttum störfum en starfsmenn koma frá um tuttugu þjóðríkjum. Mjólkursamsalan er eitt stærsta dreifingarfyrirtæki landsins og fer í 80.000 heimsóknir til bænda árlega. Framleitt er úr 150 milljón lítrum af mjólk, rúmlega 500 vörunúmer. Öflug vöruþróun á sér stað árlega innan fyrirtækisins sem setur um 30 nýjar vörur á markað á hverju ári.

Tilurð Mjólkursamsölunnar
Mjólkursamsalan í núverandi mynd hefur starfað frá 2007. Fyrirtækið varð til við hagræðingu í mjólkuriðnaðinum sem hófst skipulega um miðjan tíunda áratuginn þegar stjórnvöld ákváðu að lækka þyrfti kostnað við vinnslu á mjólk. Sameinaðist rúmur tugur félaga í mjólkur-
iðnaði í færri einingar næsta áratuginn. Sem dæmi sameinaðist Mjólkursamsalan í Reykjavík, Mjólkurbúi Flóamanna árið 2005 undir nafninu MS eftir samstarf árin á undan. Mjólkursamlag Ísfirðinga var selt til MS árið 2006. Árið 2000 runnu Mjólkursamlög KEA og Húsavíkur saman við Grana, sem var einkahlutafélag í eigu bænda, undir nafni Norðurmjólkur. Þessar sameinuðu mjólkurvinnslur runnu síðar saman og mynduðu Mjólkursamsöluna, sem einnig tók yfir starfsemi sem verið hafði í Osta- og smjörsölunni. Elsta fyrirtækið í sameinaðu félagi, Mjólkursamlag KEA, var stofnað á sérstökum fulltrúafundi Kaupfélagsins 4. september 1927.

Starfsemi
Starfsstöðvar Mjólkursamsölunnar eru sérhæfðar en auk framleiðslunnar eru teymi að störfum við fjölbreytt verkefni meðal annars rannsóknarstörf og gæðaeftirlit, vöru- og mjólkurflutninga og að sinna viðhaldi á tæknibúnaði og bílum.

Staðsetningar stöðva Mjólkursamsölunnar

MS Reykjavík: höfuðstöðvar og aðalskrifstofur, vörulager og ostapökkun.
MS Selfoss: stærsta einstaka starfsstöðin innan MS. Helstu verkefni eru pökkun á neyslumjólk og framleiðsla á margvíslegum sýrðum og ferskum vörum. Á Selfossi fer jafnframt fram framleiðsla á skyri, G-vörum, smjöri, viðbiti og mjólkurdufti.
MS Akureyri: sinnir mjólkurátöppun, smjörgerð, jógúrt- og súrmjólkurframleiðslu. Ostagerð (brauðostar, sérostar, mysuostar, rjómaostar, kotasæla og bræddir ostar). Auk þess er framleidd ýmis smávara á Akureyri, s.s. Hrísmjólk, grjónagrautur, ostakökur, óhrært skyr og Smámál.
MS Búðardal: sinnir allri mygluostaframleiðslu fyrirtækisins. Einnig eru framleiddir þar sérostar, s.s. Cheddar, Havarti og Fetaostur auk framleiðslu á LGG+ og Benecol.
MS Egilsstaðir: Helsta framleiðsluvaran er Mozzarellaostur, en einnig er framleiddur Ricotta-ostur og kryddsmjör.

Dótturfélög og hlutdeildarfélög
Mjólkursamsalan á hlut í fjórum félögum með sjálfstæðar stjórnir. Þau eru:
Ísey útflutningur ehf. sem er í eigu Mjólkursamsölunnar. Ísey útflutningur hefur umsjón með allri erlendri starfsemi MS. Fyrirtækið starfar í dag með samstarfsaðilum í 17 ríkjum. Aðal vörumerki Ísey útflutnings er Ísey skyr. Framleiðsla á Ísey skyr er áætlað að verði á níu stöðum í heiminum eftir árið 2020.
Íslenskar mysuafurðir ehf. í helmings eign á móti Kaupfélagi Skagfirðinga. Fyrirtækið tekur á móti meira en 50 milljón lítrum af ostamysu sem fellur til við framleiðslu á ostum hjá félögunum og vinnur úr því próteinduft og bráðum einnig etanól og væntanlega dýrafóður.
Ísey Skyr Bar sem leigir rekstrarleyfi fyrir Ísey Skyr Bar veitingastaði.
Icelandic Provisions, félag í Bandaríkjunum sem framleiðir skyr með íslenskri aðferð og íslenskum skyrgerlum fyrir þarlendan markað.

Vöruþróun
Mjólkursamsalan hefur ávallt lagt áherslu á framsækna nýsköpun og vöruþróun. Vöruþróunarstefna Mjólkursamsölunnar er margþætt og lýtur að hollustu þeirra matvæla sem MS framleiðir og kröfum markaðarins þar um. Árlega koma um 30 nýjar vörur á markað hjá fyrirtækinu sem hafa margar hverjar gegnum árin hlotið viðurkenningu á matvælasýningum erlendis.

Ríkari áhersla á umhverfismál
Mjólkursamsalan leggur áherslu á gæðaframleiðslu í sátt við náttúruna og umhverfið, enda eru umhverfismál meðal forgangsmála fyrirtækisins. Mjólkursamsalan setti sér markmið árið 2015 í loftlagsmálum, vatnsverndar- og frárennslismálum sem og markmið í umbúðum, aðfanganotkun og fasts úrgangs. Starfsfólk fyrirtækisins horfir í sífellt ríkari mæli á það hvar hægt er að hnika til og breyta í starfseminni svo umhverfisspor þess séu mörkuð af ábyrgð.

Minni sóun og betri hráefnisnýting
Árið 2017 var í samstarfi við Kaupfélag Skagfirðinga opnuð ný verksmiðja í eigu fyrirtækjanna sem staðsett er í Skagafirði. Íslenskar mysuafurðir á Sauðárkróki framleiðir hágæða próteinduft úr mysunni sem fellur til við framleiðslu osts. Þar er nú framleitt úr um 50 milljón lítrum af mysu sem áður fóru til spillis og auk próteinduftsins er stefnt að framleiðslu etanóls á árinu 2020. Sóun nýtanlegra hráefna minnkaði þannig í framleiðslu fyrirtækjanna og eftir að framleiðsla á etanóli hefst mun nást fullkomin nýting á mysu sem áður var hellt niður og í framhaldi rennur aðeins vatn til sjávar eða um 42,4 milljón lítrar. Þessi verksmiðja nýtir eingöngu hráefni sem áður var hellt niður og tekst á við vandamál sem áður skapaðist við förgun á mysu, áhrif þess á frárennslisrör og umhverfisáhrif á lífríki. Er þarna um að ræða eitt stærsta skref í umhverfismálum sem matvælaframleiðsla hér á landi hefur tekið í langan tíma.

Vistvæn orka
Á síðastliðnum árum hefur Mjólkursamsalan lagt áherslu á að draga úr orkunotkun í framleiðslu og annarri starfsemi. Fjárfest hefur verið í nýjum tækjum sem nota minna af orku eða umhverfisvænni orku. Mjólkursamsalan kaupir vottaða raforku frá Fallorku. Árið 2015 var lokið við að endurnýja hluta búnaðar við duftframleiðslu svo nú nýtir hann rafmagn en ekki olíu eins og áður. Árið 2020 tekur Mjólkursamsalan lokaskref svo að öll gufuframleiðsla sem er svo mikilvæg í mjólkurvöruframleiðslu verður framleidd úr vistvænni orku.

Innlend endurvinnsla á plasti sem fellur til
Mjólkursamsalan tekur þátt í verkefninu Þjóðþrif. Fyrirtækið safnar plasti sem til fellur í framleiðslu sinni til þess að senda í innlenda plastendurvinnslu í Hveragerði. Í vinnslunni er aðeins notast við umhverfisvæna orkugjafa í endurvinnslunni, jarðvarma og orku frá affallsvirkjun en engin kemísk efni. Plastið er svo mótað í vörur sem hægt er að nota endurunnið plast í eins og vörubretti. Endurvinnsla á plasti með þessum hætti skapar kolefnismótvægi.

Jafnlaunavottun
Mjólkursamsalan hefur öðlast jafnlaunavottun sem gildir 2020-2023. Úttekt í fyrirtækinu gekk vel og sýndi að launarmunur heildartekna var mjög lítill eða 1,5% konum í vil.

Nýsköpun og samfélagsleg þátttaka
Mjólkursamsalan og forverar hennar hafa lengi stutt við nærsamfélagið gegnum margvísleg verkefni eins og að beita sér fyrir eflingu móðurmálsins í yfir aldarfjórðung. Þá veitir fyrirtækið árlega stuðning til félagasamtaka á borð við Landsbjörgu og mæðrastyrksnefndir en Mjólkursamsalan hefur líka styrkt Kokkalandslið Íslands þar sem fyrirtækið sér að matarmenning gegnir sífellt stærra hlutverki í ímynd landsins. Skyr sem dæmi er orðið þáttur í þeirri ímynd líkt og ostur er fyrir Sviss og hluti af því sem gerir Ísland áhugavert ásamt íslenskri náttúru.
Mjólkursamsalan styður einnig við nýsköpun í landbúnaði og matvælaiðnaði. Það tekur á sér ýmsar myndir svo sem með samstarfi við stofnanir en einnig með þátttöku í Landbúnaðarklasanum og aðstoð við frumkvöðla beint. Sjálfbærni hefur þar verið leiðarstef.

Neysla Íslendinga á mjólkurvörum
Íslendingar neyta mikið af mjólkurvörum en neyslumynstur hefur breyst nokkuð á liðnum árum. Landsmenn neyta minna magns af drykkjarmjólk en þeim mun meira af ostum og smjöri. Þessi breyting kallar á aukna mjólkurframleiðslu, en um 10 lítra af mjólk þarf til að framleiða eitt kíló af osti og rúma 20 lítra af mjólk þarf til að framleiða eitt kíló af smjöri. Í heildina hefur mjólkurframleiðsla því aukist á Íslandi sem var rúmlega 100 milljón lítrar um 1990 en er í dag um 150 milljón lítrar.

Íslensk kúabú
Um 550 kúabú eru á Íslandi sem eru staðsett hringinn í kringum landið. Meirihluti þeirra er á Suðurlandi og Norðurlandi. Þau eru flest lítil fjölskyldubú á alþjóðlegan mælikvarða og hafa að meðaltali um 50 kýr. Ísland á heimsmet í hlutfalli mjólkur sem kemur frá mjaltaþjónum en meira en þriðja hvert fjós er með mjaltaþjón. Rúmlega 26 þúsund kýr eru á Íslandi og mjólkar hver þeirra að meðaltali um 6.400 kíló af mjólk á ári. Mikil vinna hefur átt sér stað hjá íslenskum bændum í uppbyggingu og tæknivæðingu til þess að auka framleiðslugetu. Þeir þættir sem hafa skipt mestu eru fóðrun, aðbúnaður og árangur í kynbótastarfi. Íslenskum kúm hefur því fækkað undanfarna áratugi en nyt þeirra aukist um tugi prósenta.

Íslenska kýrin
Uppruni íslensku kýrinnar hefur verið rakinn aftur til landnáms um 874 en hún er skyld norsku kyni. Öll mjólkurframleiðsla í landinu byggist á þessu landnámskyni. Íslenska mjólkurkýrin er smávaxin og meðalkýrin vegur aðeins um 470 kg. Kýrnar eru marglitar og hafa fjölbreyttari liti en nokkur annar nautgripastofn í Evrópu. Stofninn hefur sex viðurkennda grunnliti: rauðan, svartan, bröndóttan, kolóttan, gráan og sægráan sem allir hafa sín blæbrigði. Íslenska kýrin getur haft horn en í dag er lítið um hyrndar kýr vegna markviss úrvals síðustu áratugi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd