Mjöll – Frigg hf

2022

Eigandi Mjallar Friggjar eru Olíuverzlun Íslands ehf. sem keypti fyrirtækið 29. apríl 2019. Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins er Sigrún Guðmundsdóttir Ph.D. í matvæla örverufræði.
Mjöll varð til árið 2001 við sameiningu þriggja fyrirtækja, hreinlætisvörudeildar Sjafnar á Akureyri, Sáms í Kópavogi og Mjallar í Reykjavík, en öll eiga fyrirtækin sér langa sögu, Sjöfn var stofnuð 1932, Mjöll árið 1942 og Sámur 1969. Áður hafði Sámur keypt annað fyrirtæki á hreinlætisvörumarkaði, Hrein. Mjöll var með starfsstöðvar á Akureyri og í Reykjavík, starfsfólk var á bilinu 20 til 30 talsins. Heimasíða mjollfrigg.is.

Eigendur
Mjöll hf. á Akureyri og Sápugerðin Frigg í Garðabæ sameinuðust 21. maí 2003 og fékk nafnið Mjöll-Frigg hf. Mjöll-Frigg var með starfsstöðvar á Akureyri þar sem höfuðstöðvar þess voru og á höfuðborgarsvæðinu þar sem áhersla var einkum lögð á sölu- og markaðsstarf. Starfsstöðvarnar voru þá á fjórum stöðum, þ.e. hvort fyrirtæki er með rekstur á tveimur stöðum. Starfsmenn fyrirtækisins voru á bilinu 40 til 50 talsins.
Eignarhaldsfélag í eigu Hinriks Mortens keypti allan rekstur árið 2004, Kristján Grétarsson og co. keypti fyrirtækið svo um áramótin 2006-2007. Í ágúst 2008 er öll framleiðsla og starfsemi flutt í Norðurhellu 10 í Hafnarfirði og er öll starfsemi þar í dag. Ölgerðin Egill Skallagrímsson festi kaup á 51% hlut í framleiðslufyrirtækinu Mjöll-Frigg árið 2011. Tveimur árum síðar eykur ÖES hlut sinn í fyrirtækinu, og er þá alfarið í eigu ÖES og stjórnenda MF. Framleiðsla hreinlætisvara og sala til stórnotenda varð með óbreyttu sniði í verksmiðjunni í Hafnarfirði. Mikil breyting varð á rekstri fyrirtækisins árið 2019 þegar ákveðið var að kaupa áfyllingalínu fyrir smærri umbúðir 0,2 – 5L. Breyttist þá til muna framleiðslugeta fyrirtækisins en á sama tíma náðum við umtalsverðri hagræðingu með fækkun unninna stunda bak við hvern líter. Í bígerð er að koma upp fullbúinni línu fyrir áfyllingu á 20 lítra umbúðir sem eykur enn á hagræði og framleiðslugetu fyrirtækisins. Olíuverzlun Íslands ehf. undirritaði 29. apríl 2019 samning um kaup á öllu hlutafé í Mjöll Frigg ehf., en seljendur voru Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. og stjórnendur Mjallar Friggjar.

Starfsemin
Mjöll Frigg er þjónustudrifið hreinlætisfyrirtæki. Við veitum faglega ráðgjöf og bjóðum hreinlætislausnir til okkar viðskiptavina með langtíma viðskiptasamband að leiðarljósi. Mjöll Frigg er stærsti framleiðandi á hreinlætisvörum á Íslandi en flytur einnig inn önnur hreinsiefni og hreinlætistæki. Mjöll Frigg hefur framleitt hreinsiefni síðan 1929 og ávallt haft þarfir íslenskra neytenda og fyrirtækja að leiðarljósi. Sendum til fyrirtækja út um allt land í endursölu. Einnig er Mjöll Frigg að selja beint til stórnotenda út um allt land.
Mjöll Frigg er sjálfstætt félag á eigin kennitölu. Við flytjum inn flest öll hráefni sem notuð eru til sápugerðar þó er eitthvað keypt af birgjum innanlands. Innkaup stjórnast af gæðum efna og hagstæðu verði.
Við erum einnig að flytja inn tilbúnar sápur og sótthreinsiefni til sölu bæði beint á viðskiptavini og til endursöluaðila. Það er þó í litlum mæli, áhersla er lögð á eigin framleiðslu. Mjöll Frigg framleiðir mikið úrval af hreinlætisvörum fyrir matvælaiðnað, s.s fiskeldi, sjávarútveg, kjötvinnslur, sláturhús, landbúnað, heilbrigðisþjónustu, hótel, veitingastaði og verkstæði. Einnig framleiðum við línu af bílavörum og þrifavörum fyrir heimili og skrifstofur.
Eins og áður kom fram er MF í fullri eigu Olíuverslunar íslands sem er að miklu leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða í gegnum Haga. MF er því alíslenskt fyrirtæki í eigu Íslendinga.
MF er sérstakt á fyrirtækjamarkaði vegna þess að þetta er að verða eina fyrirtækið á Íslandi sem framleiðir fulla vörulínu til heimilisþrifa. MF hefur einnig sérstöðu af því leyti að við framleiðum vörur sem eru sérmerktar öðrum (Private Label). Fyllum á neytendavöru fyrir ýmis fyrirtæki þar sem blöndunin fer fram í því fyrirtæki en við fáum vöruna í 1000L IBC tönkum.
Mjöll Frigg hefur í dag 12 starfsmenn.

Framtíðarsýn
Okkar sýn er að halda áfram að framleiða vörur fyrir Íslendinga, við trúum því að Íslendingar velji íslenskar vörur fram yfir innfluttar vörur. MF er langstærsti framleiðandi á rúðuvökva fyrir íslenska neytendur. MF er lítið fyrirtæki og er aðili að SA í gegnum eigenda okkar, Olís.
Eftir miklar sameiningar á liðnum árum teljum við að rekstrargrundvöllur fyrirtækisins sé tryggður. MF flytur inn mikið magn af etanóli sem er notað m.a. í framleiðslu á rúðuvökva og handsótthreinsi.
Í upphafi (Covid) faraldursins var hringt frá Lyfjastofnun og MF var beðið um að nota allt etanól sem var flutt inn í handsótthreinsa. Að sjálfsögðu var farið eftir þeim tilmælum, en um tíma vorum við eina fyrirtækið sem átti etanól til framleiðslu handsótthreinsis. Það má segja að starfsemi fyrirtækisins hafi umturnast þar sem markmiðið var að framleiða eins mikinn handsótthreinsi og hægt var en einnig var mikilvægt að framleiða aðrar þrifavörur sem voru á markaði. Í kjölfarið settum við á markað annarskonar sótthreinsi, þ.e. án etanóls, til þrifa á yfirborði en etanól skemmir yfirborð ef það er ofnotað. Þetta tókst allt saman að okkur finnst mjög vel og um tíma var MF í miðpunkti sóttvarna á Íslandi. Þetta sýnir kannski best hvað íslensk framleiðsla er mikilvæg fyrir okkur á þessari litlu eyju. Í faraldrinum var lögð mikil áhersla á smitvarnir hjá starfsmönnum fyrirtækisins þar sem framleiðsla þess var mjög mikilvæg og allt kapp lagt á að tryggja að starfsmenn veiktust ekki þannig að loka hefði þurft verksmiðjunni. Þeir starfsmenn sem gátu unnu heiman frá sér en í dag hafa allir komið aftur til sinnar starfsstöðvar.
MF er ekki stórt nafn á auglýsingamarkaði, en við tökum þátt í sýningum tengdum sjávarútvegi og matvælavinnslu. Undanfarið höfum við lagt áherslu á að sölumenn okkar séu mjög öflugir að fara og heimsækja endursöluaðila og stórviðskiptavini þar sem það er mikilvægt að hver viðskiptavinur fái upplýsingar um þau efni sem honum hentar best. Við leggjum mikla áherslu á að fyrirtæki fái þá þjónustu sem þau þurfa, við aðstoðum þau m.a. við gerð hreinlætisáætlana og gerum hreinlætisúttektir þannig að það sé hægt að gera þær umbætur sem þarf. Einnig förum í fyrirtæki og höldum erindi fyrir starfsfólk um mikilvægi hreinlætis í matvælavinnslu og þær örverur sem geta valdið skaða. MF býr einnig að því að Íslendingar þekkja vörumerkið nokkuð vel. Við höfum tekið þátt í samfélagsverkefnum af ýmsu tagi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd