Molta ehf

2022

Félagið Molta ehf var stofnað í mars 2007. Að stofnun Moltu komu öll sveitarfélög í Eyjafirði, allir stærstu matvælaframleiðendur á Eyjafjarðarsvæðinu ásamt fleiri aðilum. Stærstu eigendur 2019 eru Akureyrarbær og Byggðastofnun. Hjá Moltu ehf. eru að jafnaði þrír fastráðnir starfsmenn ásamt framkvæmdarstjóra sem er Kristján Ólafsson.
Framkvæmdir við byggingu jarðgerðarstöðvar Moltu hófust í ágúst 2008 og tilraunavinnsla hófst í júní 2009. Jarðgerðarstöðin var síðan opnuð formlega 21. ágúst 2009.

Starfsemin
Verksmiðja Moltu er eina sinnar tegundar á Íslandi og þegar starfsemin hófst var hún stærsta verksmiðjan í Evrópu sem byggði á svokallaðri „tromlutækni“ (e. rotary drum technique). Ferlið er loftháð ferli sem saman stendur af, móttöku, brjót, hakkavél, 6 stk. 170 rúmmetra tromlum og þroskunarplönum. Hráefnið sem tekið er á móti er fyrst og fremst sláturúrgangur, lífrænn heimilsúrgangur, timbur- og trjákurl og pappír, sem er allt jarðgert í stöðinni.
Molta verður til með niðurbroti lífræns úrgangs við loftháðar aðstæður, þar sem hitakærar örverur melta úrganginn þannig að úr verður verðmætur jarðvegsbætir. Í jarðgerðastöð Moltu ehf. fer hiti í jarðgerðarblöndunni yfir 70°C sem gerir það að verkum að skaðlegar bakteríur sem kunna að vera í úrganginum drepast.
Tæp þrjú þúsund tonn voru unnin fyrsta árið en vinnslan hefur aukist stöðugt og árið 2018 var tekið á móti rúmum sjö þústund tonnum af lífrænum úrgangi/hráefni sem gefur um sjö þústund rúmetra af moltu. Sveitarfélögin sjö við Eyjafjörð hafa verið með þar til gerða moltuhauga hjá sér sem íbúar geta gengið í notað, t.d. í garðrækt, þetta hefur mælst afar vel fyrir. Einnig nota sveitarfélögin, bændur, landgræðslan, skógræktin og fleiri moltuna til ræktunar og landgræðslu.

Umhverfisáhrif
Ávinningurinn fyrir samfélagið og umhverfið er ótvíræður. Meðhöndlun lífræns úrgangs líkt og gert er í Moltu skilar miklum umhverfisávinningi. Losun gróðurhúsalofttegunda minnkar og þegar moltan er notuð í stað tilbúins innflutts áburðar verður til enn meiri umhverfisávinningur enda er kolefnisspor tilbúins áburðar verulegt. Áhrif moltuferlisins á kolefnisbókhald Íslands felst í því að í stað þess að urða lífrænan úrgang þar sem myndast metan (CH4) þá verður til koltvísýringur (CO2) en metan er 25-30 sinnum öflugri GHL en koltvísýringur og því ávinningurinn gríðarlegur.

Framtíðarsýn
Molta ehf. stendur nú eftir tíu ára starf á tímamótum þar sem þegar er hafinn undirbúningur að uppbygginu á starfseminni þar sem afkastageta verður aukin og opnað fyrir möguleika á að vinna fleiri og fjölbreyttari verðmæti úr úrganginum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd