Hjá Íbúðum 60+ í Mörkinni eru 152 íbúðir í sjö fjölbýlishúsum. Íbúðirnar eru í eigu Grundar og íbúa sjálfra.
Vesturhús
Grund, elsta hjúkrunarheimili landsins, stofnað 1922, festi snemma árs 2010 kaup á 78 íbúðum við Suðurlandsbraut 58 til 62 og falaðist um leið eftir rekstri hjúkrunarheimilisins með það í huga að tengja hvort tveggja saman. Eftir útboð á rekstri hjúkrunarheimilisins fékk Grund hann í hendur og var skrifað undir samning þess efnis í júní 2010. Rekstur hjúkrunarheimilisins hófst síðan 16. ágúst sama ár.
Fyrstu íbúar á vegum nýrra eigenda fluttust í húsin vorið 2010. Í lok árs 2012 hafði nær öllum íbúðum verið ráðstafað og langur biðlisti orðið til.
Vesturhús eru fjórar hæðir auk jarðhæðar. Við norðausturhorn hvers húss er tveggja hæða útbygging. Undir húsunum er bílageymsla. Í húsunum eru 78 íbúðir. Þær eru ólíkar að stærð, 2ja, 3ja og 4ra herbergja, allt frá 80 fm upp í 140 fm og eru af sjö mismunandi grunngerðum. Húsin eru byggð eftir teikningum frá Yrki arkitektum, Ásdísi H. Ágústsdóttur og Sólveigu Berg Björnsdóttur.
Austurhús
Þegar sýnt var hver eftirspurn var eftir íbúðum og þjónustu eins og þeirri sem bauðst í Vesturhúsum var tekið að huga að því hvort unnt væri að bæta við hliðstæðum húsakosti austan hjúkrunarheimilisins..
Markmið var að efla samfélagið í Markarbyggð og nýta sem best alla þá þjónustu- og félagsaðstöðu sem þar var fyrir. Nýju íbúðirnar skyldu um efnislegan frágang standast samanburð við eldri húsin. Árið 2013 var arkitektastofan Gláma/Kím ráðin til að teikna hin nýju fjölbýlishús, arkitektarnir Sigbjörn Kjartansson og Bjarni Kristinsson. Útgerðarfyrirtækið Stálskip ehf. og Landsbanki Íslands lögðu fram lánsfé til að hefja framkvæmdir, en langtímafjármögnun annaðist síðan lífeyrissjóðurinn Lífsverk. Snemma árs 2015 hófust viðræður við fyrirtæki Þorvalds H. Gissurarsonar, ÞG verktaka ehf., um að það tæki að sér byggingu húsanna. Það réðst svo og reyndist vel. Áætlanir stóðust að fullu.
Fyrsta skóflustunga að húsunum var tekin 15. júlí 2016, og framkvæmdir hófust í framhaldi af því. Eftirlit með þeim annaðist Kjartan Rafnsson tæknifræðingur. Fyrstu íbúar fluttust inn í Austurhús í apríl 2018, og í lok október voru húsin fullsetin. Byggingaframkvæmdum lauk í nóvember sama ár. Í Austurhúsum eru tvær húsaraðir, fremri og aftari frá götu með garði á milli. Fremri húsaröð er nær öll fjögurra hæða, en að litlum hluta þriggja hæða; hin aftari er öll þriggja hæða. Í húsunum eru 74 íbúðir, 2ja, 3ja og 4ra herbergja, en stærð þeirra er minni og umfram allt jafnari en í Vesturhúsum, frá 74 fm upp í 102 fm í níu ólíkum grunngerðum.
Eftir að Austurhús komu til má nú ganga 356 m leið undir samfelldu þaki í Mörk milli fjarlægustu veggja þeirra.
Fjölbreytt þjónusta
Íbúum stendur til boða fjölbreytt heilsurækt í heilsulind Markar. Þar er sundlaug, heitur pottur, líkamsræktarsalur og sauna en einnig er boðið upp á leikfimitíma, nudd og sjúkraþjálfun. Afþreyingin endurspeglar áhuga íbúa en hún er að mestu sjálfsprottin. Má þar nefna spilahópa, pútthóp, hóp fyrir þá sem hafa græna fingur, gönguhóp, tónlistarhóp, bókmenntahóp, vöfflukaffi, spjallstundir og fleira. Heitur matur stendur til boða í hádegi og á kaffihúsi eru fjölbreyttar veitingar á boðstólum frá hádegi. Hársnyrtistofa er á staðnum og snyrtistofa.
Nánari upplýsingar er að finna á www.morkin.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd