Múlakaffi – samferða Íslendingum í 60 ár
Múlakaffi er án efa umsvifamesta fyrirtæki á sviði fjölbreyttrar veitingaþjónustu hérlendis. Árlega má reikna með að hver Íslendingur snæði tvisvar á einhverjum af þeim fjölmörgu viðburðum og veislum sem veitingasamstæða Múlakaffis stendur að.
Saga Múlakaffis er samofin íslenskri veitingasögu og hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að Stefán Ólafsson og eiginkona hans, Jóhanna R. Jóhannesdóttir, stofnuðu Múlakaffi, ásamt Kjartani bróður Stefáns og Tryggva Þorfinnssyni, skólastjóra Veitinga- og matreiðsluskólans. Fljótlega eftir stofnun keyptu Stefán og Jóhanna hlut félaga sinna og hefur Múlakaffi alla tíð síðan verið í eigu fjölskyldu Stefáns. Stefán Ólafsson stofnaði Múlakaffi árið 1962 á lóð Hallarmúla 1 þar sem þá var nær engin byggð, aðeins nokkrir sveitabæir og malargötur. Stefán byggði stefnu Múlakaffis frá upphafi á þeirri reynslu sem hann hafði öðlast öðlast við að elda hollan og kjarngóðan heimilismat mat fyrir svangt verkafólk í mötuneytum stærstu fiskvinnslufyrirtækja landsins, hollan og kjarngóðan heimilismat. Enn þann dag í dag fyllist veitingasalur Múlakaffis í hádeginu af fólki úr öllum þjóðfélagsstigum, sem geta valið úr 5 réttum, súpum, brauði og salati. Strax á fyrsta ári starfseminnar setti Stefán á laggirnar veisluþjónustu Múlakaffis sem er í dag stærsti þáttur starfseminnar. Það var svo árið 1965 sem Múlakaffi hóf að bjóða þorramat og byggði Stefán verkun matvælanna á gömlum uppskriftum sem hann hafði fengið í arf með vestfirskum uppruna sínum. Í dag er það Jóhannes Stefánsson, sonur Stefáns heitins, sem er ókrýndur þorrakóngur Íslands, en hann tók við fyrirtækinu sumarið 1989 eftir að Stefán varð bráðkvaddur langt um aldur fram.
Nokkrum árum áður hafði Stefán lagt út í umfangsmikinn veitingarekstur í nýbyggðu Húsi verslunarinnar. Þetta var annars vegar Veitingahöllin, sem byggði á svipuðum grunni og Múlakaffi og hins vegar Hallargarðurinn, sem þótti einn allra besti „fíni“ veitingastaður landsins. Fræg voru kaffihlaðborð Veitingahallarinnar um helgar þar sem einn sunnudagrinn voru taldir 1000 gestir. Þá var umferðarteppa frá Kringlumýrarbraut, niður Listabraut og þaðan niður með Kringlunni, inn á troðfullt bílastæði Húss verslunarinnar.
Ný kynslóð tekur við rekstrinum
Fljótlega eftir að Jóhannes og Guðný Guðmundsdóttir, eiginkona hans, höfðu tekið við rekstrinum var ákveðið að hætta rekstri í Húsi verslunarinnar og einbeita sér að grunngildum Múlakaffis, þ.e. veitingastaðnum í Hallarmúla, veisluþjónustunni og þorramatnum. Veisluþjónustan og rekstur mötuneyta er í dag stærsti þáttur starfseminnar og telja starfsmenn fyrirtækisins á annað hundrað. Kunnáttumenn í veitingarekstri telja Múlakaffi fremst á meðal jafningja þegar kemur að veisluþjónustu, hvort sem um ræðir lítil einkasamkvæmi eða stærstu veisluviðburði hérlendis, en nær allar stærstu árshátíðir fyrirtækja og stofnana eru á vegum Múlakaffis. Grunnurinn að velgengni Múlakaffis segir Jóhannes vera frábært starfsfólk, en eigendur Múlakaffis hafa frá upphafi lagt áherslu á að hlúa vel að sínu fólki, bæði hvað varðar kjör og starfsaðstöðu. Sama áhersla á við um birgja, enda liggur í augum uppi að slík umsvif á veitingamarkaði kalla á gríðarlegt magn fyrsta flokks hráefnis. Múlakaffi hefur í sinni 60 ára rekstrarsögu byggt upp traust samstarf við alla helstu innlenda framleiðendur og innflytjendur matvæla enda aldrei hvikað frá ströngustu gæðakröfum þegar kemur að hráefni.
Þjónusta við ferðamenn
Ört vaxandi þáttur í starfsemi Múlakaffis er þjónusta við ferðamenn. Frægar eru stórveislur fyrirtækisins á jöklum landsins, risavaxnar grillhátíðir í Þórsmörk og víðsvegar um landið þar sem slíkrar þjónustu er óskað. Þá fjárfesti fyrirtækið nýverið í stórum og afkastamiklum veitingabifreiðum til að þjóna þeim hundruðum manna sem koma að tökum stórra kvikmynda- og sjónvarpsverkefna sem fram hafa farið á Íslandi undanfarin ár. Hafa því margar af stærstu stjörnum heims notið veitinga Múlakaffis og oft upp á öræfum. Þessar bifreiðar eru einnig notaðar til að þjóna stórum hópum ferðamanna.
Fjölbreyttar áskoranir og björt framtíð
Vorið 2011 var Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús Íslendinga, opnuð. Múlakaffi tók að sér að sinna þar allri veisluþjónustu og gerir enn þann dag í dag. Þar mætast gamlir og nýir tímar en meðeigendur Múlakaffis í veitingarekstrinum í Hörpu eru hjónin Leifur Kolbeinsson og Jónína Kristjánsdóttir en þau lærðu matreiðslu og framreiðslu í Veitingahöllinni rómuðu og unnu þar lengi vel. Annað dótturfélag Múlakaffis var stofnað árið 2009 og hélt það utan um allan veitingarekstur Háskólans í Reykjavík og rak samhliða veitingastaðinn Nauthól við góðan orðstír. Þessi hluti rekstrarins var seldur í mars 2016 en hefur verið rekinn með sama sniði síðan.
Á síðustu árum hefur svo þriðja kynslóð Múlakaffisfjölskyldunnar fengið stórt hlutverk í rekstrinum en börn þeirra hjóna, Guðríður María og Jón Örn, starfa bæði hjá fyrirtækinu og hafa gert frá unga aldri. Aðspurður um framtíðaráform Múlakaffis hefur Jóhannes sagt að áherslan verði óbreytt um ókomna tíð, að gera enn betur og hlúa að grunngildum starfseminnar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd