Múlalundur vinnustofa SÍBS

2022

Múlalundur vinnustofa SÍBS er verndaður vinnustaður, staðsettur á lóð Reykjalundar í Mosfellsbæ. Múlalundur hefur verið rekinn af SÍBS frá því 1959, með það að markmiði að bjóða upp á vinnu fyrir þá sem ekki stendur til boða vinna á almennum markaði vegna skertrar starfsorku af ýmsu tagi. Múlalundur er aðili að Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Hlutverki, samtökum um vinnu og verkþjálfun, samtökum vinnustaða fatlaðs fólks víða um land.

Starfsfólk og rekstur
Um 45 starfsmenn vinna á Múlalundi, þar af um 35 manna fjölbreyttur hópur öryrkja. Tækifæri á Múlalundi fyrir fólk með skerta starfsorku geta verið tvíþætt, annars vegar launuð langtímastörf og hins vegar fjögurra vikna starfsprufur þar sem einstaklingar fá tækifæri til að æfa sig á vinnumarkaði, oft í fyrsta skipti eða eftir langa fjarveru vegna fötlunar eða sjúkdóma.
Múlalundur er fjármagnaður annars vegar með sölu á vörum og vinnu og hins vegar í gegnum þjónustusamning við hið opinbera. Þá hefur Happdrætti SÍBS verið fjárhagslegur bakhjarl Múlalundar frá árinu 1959.

Starfsemi og framleiðsla
Á Múlalundi er starfrækt glæsileg verslun með fjölbreyttar vörur og á vefsíðu fyrirtækisins má finna öfluga vefverslun. Múlalundur selur eigin framleiðsluvörur, verkefnavinnu og aðkeyptar vörur. Aðkeyptar vörur koma frá innlendum birgjum og frá eigin innflutningi. Megináherslan er á fjölbreyttar skrifstofuvörur, en einnig umhverfisvæna bréfpoka, íþróttavörur og ýmsar vörur fyrir heimilið.
Verkefnavinnan samanstendur af fjölbreyttri flóru verkefna; pökkunum, strikamerkingum, flokkunum, talningum og fjölmörgu fleiru fyrir viðskiptavini.
Framleiðsluvörur Múlalundar hafa í áratugi að stórum hluta verið fjölbreytt úrval mappa og plastvasa af ýmsu tagi. Egla bókhaldsmöppur hafa um áratugaskeið verið vinsælasta vara Múlalundar og verið leiðandi á markaði. Vörumerkið Egla á upphaf sitt á Múlalundi og er heitið tekið úr Egilssögu Skallagrímssonar. Aðrar framleiðsluvörur má nefna fjölbreytt úrval matseðlakápa, fermingarmöppur, töskumerki, merktar músarmottur, plastvasa í sloppa fyrir sjúkrastofnanir, skólavörur, gyllingu á dagbækur og margt fleira sem skapar mikilvæga vinnu á Múlalundi.

Framtíðarsýn
Starfsemin mun á næstu árum einkennast af nýsköpun í því skyni að hafa næg verkefni fyrir okkar duglega starfsfólk og treystir Múlalundur á samfélagslega ábyrgð viðskiptavina.
Múlalundur hefur frá árinu 1959 verið rekinn af SÍBS, með stuðningi Happdrættis SÍBS. Frá því starfsemin hófst hafa þúsundir einstaklinga með skerta starfsorku fengið annað tækifæri og blómstrað á ný á Múlalundi. Þá vinna allir!

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd