Múlatindur ehf bílaverkstæði

2022

Að loknu sveinsprófi á Akureyri flutti Magnús Sigursteinsson, nýlega orðinn sveinn í bifvélavirkjun og konan hans Kristjana Sigurjónsdóttir ásamt syni þeirra Sigurjóni, eins og hálfs árs, til Ólafsfjarðar. Guðni Aðalsteinsson, sem lauk sveinsprófi í bílasmíði, hafði flutt frá Reykjavík og hafið störf, nokkrum mánuðum fyrr, á bílaverkstæði Ólafsfjarðar sem Svavar Gunnarsson tengdasonur Sigurðar Baldvinssonar útgerðamanns í Ólafsfirði stofnaði. Var það von Magnúsar að fá starf hjá Svavari en ekki gekk það eftir. En þetta þróaðist þannig að Magnús fékk fjölmargar beiðnir um að gera við bíla, bæði smá og stór verk. Fékk hann að vera inni í fiskimjölsverksmiðjunni þegar ekki var vinnsla í gangi. Þróaðist þetta svo þannig að Magnús og Guðni ákváðu að fara út í rekstur og var bílaverkstæðið Múlatindur stofnað í ársbyrjun 1961.

Starfsemin og húsnæði
Starfssviðið var bílaviðgerðir og bílasmíði ásamt viðgerðum á vinnuvélum og land-búnaðartækjum. Bílasmíðin fólst aðallega í yfirbyggingum á Willis jeppum. Magnús tók að sér að gera upp vél í Ford vörubíl fyrir Eggert Pálsson, bíllinn var geymdur í stórum beitningaskúr norðantil í frystihúsi Magnúsar Gamalíesar. Magnús lofaði þeim að vera með viðgerðaraðstöðu þar á meðan á byggingu verkstæðishúss þeirra stóð yfir. Byrjunarörðugleikar voru margir, ótal ljón í veginum. Á sjómannadaginn 1961 hófst bygging hússins, sem sagt að grafa fyrir sökklinum og vitanlega með haka og skóflu, því engin skurðgrafa var til í bænum. Steypumölin var sótt í fötur í fjörunni sunnan og neðan við Brimnes og unnið var sleitulaust um kvöld og helgar þar sem þeir voru ákveðnir í að koma húsinu upp fyrir veturinn. Nutu þeir aðstoðar fjölmargra góðra aðila við byggingu hússins og þegar það kom að þakinu þá kom Ásgeir Ásgeirsson í fyrirtækið með okkur og sá um reikninga og bókhald. Eins aðstoðaði hann við bygginguna. Í byrjun október var húsið orðið fokhelt og þó svo að húsið væri óklárað innandyra þá var strax byrjað að vinna við bílaviðgerðir. Það var sár þörf á tekjum að halda, því lánsfé lá ekki á lausu á þessum tíma. Veturinn var svo nýttur í að ganga frá innandyra um kvöld og helgar. Ásgeir hættir í fyrirtækinu í kjölfarið og snýr sér að stærra verkefni og gerist bæjargjaldkeri Ólafsfjarðar. Í gegnum tíðina hefur oft þurft að stækka húsið og aðlaga það að breytingum í bílageiranum og aukinni tækni í viðgerðum og tækjabúnaði.
Árið 2009 var byggt fullkomið sprautuverkstæði.

Mannauður
Í dag eru 7 starfsmenn, fjórir karlmenn og þrjár konur. Hjördís sér um skrfstofustörf, bókhald og varahlutapantanir, Bergdís er með sveinspróf í bílamálun, Emilía vinnur ýmist við viðgerðir eða málningarundirbúning, Sigursteinn, bifvélavirkjameistari, sér um verkstjórn og viðgerðir, Jón, sveinn í bifvélavirkjun, Sigurbjörn, sveinn í bifvélavirkjun og Baldur sér um ýmis störf sem vinna þarf við verkstæðið. Í dag eru hluthafarnir þrír, Magnús Sigursteinsson, Sigursteinn Magnússon og Sigurjón Magnússon.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd