Múrþjónusta Helga Þorsteinssonar

2022

Múrþjónusta Helga Þorsteinssonar hf. var stofnuð árið 1993 af Helga Þorsteinssyni, múrarameistara. Áður hafði hann rekið fyrirtækið í eigin nafni og má segja að saga þess teygi sig allt aftur til áttunda áratugar síðustu aldar.
Helgi er fæddur árið 1949 og tilheyrir nú í dag eldri kynslóð múrara. Sem dæmi má nefna að þegar hann hóf vinnu við múrverk þá voru ekki notaðar hrærivélar heldur voru laganir hrærðar á gólfum. Helgi vann m.a. um árabil á Laugarvatni með meistara sínum Eyþóri Ingibjartssyni en mikil uppbygging var á Laugarvatni á árunum milli 1960-1970. Helgi útskrifaðist með meistararéttindi í iðninni árið 1975 frá Iðnskólanum á Selfossi. Fljótlega upp úr því hóf Helgi eigin rekstur. Múrþjónustan er svo stofnuð sem hf. fyrirtæki árið 1993. Helgi hefur útskrifað tugi sveina á sínum ferli og eiga þeir það allir sammerkt að hafa gert fagið að lífsstarfi. Synir Helga lærðu allir múrverk og hafa starfað hjá fyrirtækinu. Þeir eru: Ásgeir (f.1968), Hjalti (f.1972) og Davíð (f.1980).
Í dag reka bræðurnir Hjalti og Davíð Múrþjónustuna og hefur fyrirtækið frá upphafi haft aðsetur í Hveragerði, með skrifstofuhúsnæði að Austurmörk 14.

Fjölþættar framkvæmdir
Fyrirtækið hefur aðallega unnið í múrverktöku. Verkefnin eru fjölbreytt. Fyrirtækið hefur meðal annars sinnt viðhaldi í fjölda matvælafyrirtækja, má þar helst nefna: MS Selfossi, Kjörís, Brim hf., Landsvirkjun, ásamt fleiri smærri fyrirtækjum, sveitarfélögum o.fl.
Af öðrum verkum má nefna: Nesjavallarvirkjun 1. áfangi. Endurbætur við Þjóðleikhús, fyrri áfangi, endurbygging brunareita að Lækjargötu 2, endurbætur við Írarfossvirkjun og Fosshótel Höfðatorgi ásamt fjölda annara verkefna víðsvegar um landið. Fyrirtækið tók einnig virkan þátt í endurbótum á mannvirkjum eftir Suðurlandsskjálftann árið 2008. Í seinni tíð hefur Múrþjónustan fjárfest talsvert í íbúðarhúsnæði, bæði nýbyggingum og til útleigu ásamt því að sinna endurbótum og fullnaðarfrágangi á eldra húsnæði.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd