Mýflug ehf.

2022

Mýflug er stofnað 7. apríl 1985 af Leifi Hallgrímssyni atvinnuflugmanni. Hugmyndin að því að stofna nýtt flugfélag norðan heiða var runnin undan rifjum hans sem sá fyrir sér að sýna Mývatnssveit og nágrenni úr lofti. Þannig gæfist ferðamönnum kostur á að upplifa landslagið þar í kring frá nýju sjónarhorni. Leifur er sjálfur Mývetningur og unir sér hvergi betur en í sinni heimasveit. Útsýnisflugið eitt og sér var takmörkunum háð vegna þess hversu árstíðabundið það var, en á árunum fljótlega eftir að félagið var stofnsett var farið út í farþegaflug milli Mývatns og Reykjavíkur, auk þess sem Höfn í Hornafirði var áfangastaður. Upp úr aldamótunum 2000 var farið að fljúga áætlunarflug frá Húsavík til Reykjavíkur og var leigð til þess flugvél ásamt áhöfn frá Íslandsflugi sem reyndist því miður ekki farsælt og setti félagið í erfiða rekstrarstöðu.

Starfsemin
Sigurður Bjarni Jónsson, flugmaður kom að Mýflugi 2001 en um það leyti var félagið að reyna að vinna sig upp úr þeirri lægð sem Húsavíkurflugið hafði valdið. Í kjölfarið var öllu skipulögðu áætlunarflugi hætt og þá stóð eftir leiguflugið og útsýnisflugið. Með seiglu tókst félaginu að vinna sig út úr erfiðleikunum og fljótlega var sest á rökstóla til að ræða um framtíðarhorfur. Mikill áhugi var fyrir sjúkraflugi, sem var háttað þannig á þessum árum að nokkrar flugvélar voru staðsettar hingað og þangað um landið og sinnti Mýflug hluta þeirrar þjónustu í samstarfi við handhafa sjúkraflugs þess tíma. Árið 2005 voru gerðar skipulagsbreytingar á sjúkrafluginu með því að ríkið bauð það út og skyldi gert út frá Akureyri. Þannig að sérbúin sjúkraflugvél skyldi staðsett á Akureyri ætíð tilbúin til brottfarar. Þar sáu áhugasamir Mýflugsmenn tækifæri og ákváðu að bjóða í verkefnið.
Frá ársbyrjun 2006 hefur Mýflug verið handhafi sjúkraflugssamningsins við íslenska ríkið. Árið 2009 tók Mýflug einnig við sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum en þar hafði áður verið staðsett sjúkraflugvél. Áður hafði sjúkraflugi verið sinnt með flugvélum sem voru ekki með jafnþrýstibúnaði, með einn flugmann í áhöfn, staðsettum víða um land og þegar til átti að taka þá hafði vélin kannski staðið í frosti og kulda inni í óupphituðu skýli. Oftar en ekki komu flugin upp á næturnar og þurfti stundum að fljúga í svarta myrkri um hávetur.
Það var því mikið framfaraskref þegar Mýflug kemur til sögunnar með jafnþrýstibúnar vélar með hverfihreyflum (skrúfuþotur) sem alltaf eru til taks þegar á þarf að halda. Tveir flugmenn í áhöfn og fullkominn sjúkrabúnaður um borð.
Það er bundið í samninginn við Mýflug að vera með eina vél sem sinnir eingöngu sjúkraflugi en félagið er með aðra vél til vara sem sinnir sjúkrafluginu að hluta.
Sem dæmi um þá starfsemi sem fram fer má taka fram að Mýflug fer í um 800 sjúkraflug á ári.

Aðsetur
Mýflug hefur aðsetur á Akureyri og á þar 1200 fm flugskýli með skrifstofum og kennslurými. Höfuðstöðvar félagsins eru á Reykjahlíðarflugvelli í Mývatnssveit þar sem þær hafa alla tíð verið.

Mannauður
Í vinnu hjá félaginu eru 12 flugmenn að vetri en allt að 16 að sumri. Fjármálastjóri félagsins er Gunnhildur Stefánsdóttir.

Framtíðarsýn
Mýflug hefur einsett sér að sinna sínum verkefnum vel og vanda til í hvívetna. Þjónustan er góð og gæti orðið enn betri, t.d. með því að taka eina flugvél til viðbótar í notkun sem þýddi aukna getu til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem til falla, enda fjölgar fólki og um leið þeim sem þurfa mögulega á þessari þjónustu að halda.
Félagið hefur hingað til, eða frá því sjúkraflugssamningurinn var gerður, ávallt staðist kröfur um öryggi og viðbragðstíma.
Sjúkraflugvélarnar eru mannaðar sjúkraflutningamönnum frá Slökkviliði Akureyrar og læknum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Reykjahlíðarflugvelli
660 Mývatni
4644400
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd