Mýrarholt ehf.

2022

Árið 2011 keypti Blakknes ehf. í Bolungarvík, í eigu bræðranna Guðmundar og Jóns Þ. Einarssona, Mýrarholt ehf., útgerðarfélag frá Ólafsvík. Fyrstu árin gerði félagið út bát sinn Albatros ÍS 111(2519) á línu- og handfæraveiðar. Í maí 2014 keypt Mýrarholt ehf. dragnótarbátinn Ásdísi ÍS 2 (2340) ásamt rækjuhlutdeild í Ísafjarðardjúpi en báturinn bar áður nöfnin, Margrét, Valgerður og Friðrik Bergmann en heitir í dag Egill ÍS 77. Í maí 2014 hóf félagið dragnótarveiðar sem síðan hefur verið aðalstarfsemi félagsins. Upphaflega var lagt upp með að nýta Ásdísi til rækjuveiða en ákveðið var að prufa dragnótaveiðar fram að rækjuveiðum. Kom það ágætlega út þannig ákveðið var að halda þeim áfram. Í febrúar 2017 keypti félagið Ásdísi ÍS 2 (2313) sem áður bar nafnið Örn GK 114 ásamt aflaheimildum. Hafði gamla Ásdísi 2340 reynst okkur afar vel en vegna mikilla veiða inn á milli var draumurinn að fá skip með stærri lest, krapakerfi og að bæta við sig aflaheimildum sem gerðist með kaupum á Erni Gk. Dragnótaveiðar félagsins hafa gengið mjög vel og frá maí 2014 til september 2020 var dragnótaraflinn 9.406 tonn og rækjuafli í Ísafjarðardjúpi 524 tonn. Afli báta félagsins er aðallega seldur á fiskmarkaði en rækjan er seld Kampa ehf. á Ísafirði.
Á árunum 2014-2020 hefur félagið fjárfest mikið, aðallega í aflaheimildum eða fyrir rúmar 1.200 millj. kr. Félagið býr yfir um 700 þorskígildistonnum sem er langt undir veiði báta félagsins en á árunum 2014-2020 er félagið búið að leigja aflaheimildir fyrir 1.400 millj. kr. Aflaverðmæti báta félagsins á þessu tímabili er 3.213 millj. kr.
Helsta áskorun félagsins er að láta enda ná saman en það hefur sloppið til hingað til. Vegna þess að fiskerí hefur verið gott yfir sumartíman og við með frábæra áhöfn um borð sem sýnir sig í aflabrögðum og gæði hráefnisins sem við komum með til lands.
Nú í lok árs 2020 var farið í stórar framkvæmdir um borð í Ásdísi, skipt var um aðalvél, gír tekinn upp og sett hliðarskrúfa að framan ásamt ýmsu öðru. Eru því spennandi tímar framundan en óvissan er alltaf mikil ár hvert fyrir svona lítið útgerðafyrirtæki.

Mannauður
Í áhöfn Ásdísar eru fjórir um borð hverju sinni, skipstjórar hafa verið Einar Guðmundsson og Guðmundur Konráðsson. Gunnar Þórisson vélstjóri og Egill Jónsson stýrimaður en hann er núna farinn að máta sig í skipstjórastólinn. Aðrir í áhöfn eru Einar Ási Guðmundsson, Guðjón Ingólfsson og Karl Guðmundur Kjartansson, en ávallt eru tveir í fríi. Fleiri hafa komið að dragnótarveiðunum, allt dugmiklir sjómenn. Guðjón Ingólfsson hefur öll árin róið handfæra- og línubátnum Albatros fyrir utan sumarið 2020.

Hluthafar
Stærstu hluthafar Mýrarholt ehf. í dag eru Vébjarnarnúpur ehf. (í eigu Guðmundar og Jóns Þ. Einarssona), Einar Guðmundsson, Gunnar Þórisson og Elías Jónsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd