Mýrdalshreppur

2022

Árið 1887 var Mýrdal skipt í tvo hreppa, Dyrhólahrepp og Hvammshrepp. Í ársbyrjun 1984 voru hrepparnir sameinaðir að nýju og heitir sveitarfélagið nú Mýrdalshreppur. Landfræðilega afmarkast sveitarfélagið af Jökulsá á Sólheimasandi að vestan og Blautukvísl á Mýrdalssandi að austan. Flatarmál sveitarfélagsins er 760,8 km². 
Sveitin er grasi gróin, en beljandi jökulfljót og víðáttumiklir sandar mynda mótvægi við gróðurlendið. Víða til heiða eru fjöllin mjög sundurskorin af hrikalegum gljúfrum. Mest eru þetta fornar sprungumyndanir sem skriðjöklar og jökulár hafa mótað. Í megindráttum er um að ræða móbergssvæði, ung jarðmyndun sem ýmist er mynduð við neðansjávargos eða gos undir jökli. Í Mýrdalshreppi eru margar stórbrotnar náttúruperlur, s.s. Dyrhólaey, Víkur- og Reynisfjörur, Reynisdrangar, Hjörleifshöfði, Sólheimajökull, Þakgil, Gæsavatn og Mýrdalsjökull en í honum er eldstöðin Katla.
Mýrdalshreppur er eitt af þremur sveitarfélögum í Katla UNESCO GLOBAL Geopark.

Atvinnuvegur og íbúaþróun
Þéttbýlið Vík sem er syðsti byggðakjarni landsins hóf að byggjast upp í kringum 1883, þá fyrst og fremst sem verslunarstaður en þó var einnig róið til fiskjar frá Víkurfjöru. Undanfarin ár hefur ferðaþjónustan verið undirstaða atvinnulífs í sveitarfélaginu. Fjöldi veitingastaða og hótela hafa risið á undaförnum árum sem og hefur framboð af afþreyingu fyrir ferðamenn aukist, má þar nefna Zip line, svifvængjaflug, jöklaferðir, íshellaskoðun og hestaferðir. Samfara auknum umsvifum í ferðaþjónustu hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað mjög hratt á undanförum árum. Íbúar Mýrdalshrepps voru í desember 2020, 766 og hafði þá fjölgað að meðaltali um 9% árlega sl. þrjú ár. Hlutfallslega eru fá börn á leik og grunnskóla aldri í Mýrdalshreppi en á árinu 2020 fæddust 16 börn í sveitarfélaginu sem er óvenjulega mikill fjöldi en er vonandi til marks um það sem koma skal. Mannlíf er gott í sveitarfélaginu, fjölbreytileikinn mikill en rúmlega 40% íbúa er af erlendu bergi brotinn sem er eitt hæsta hlutfall á landinu. Á skömmum tíma hefur samfélagið breyst frá því að vera frekar einsleitt í að vera fjölþjóðlegt.
Þrátt fyrir mikla uppbygginu á íbúðarhúsnæði hefur verið vöntun á litlum og meðalstórum íbúðum sem hvort tveggja má rekja til mikillar íbúafjölgunar og svo því að töluvert af húsnæði hefur farið undir ferðamennsku.

Í sveitarstjórn Mýrdalhrepps sitja 5 fulltrúar tveggja framboða. Þeir eru eftirfarandi:
Einar Freyr Elínarson, oddviti, Ingi Már Björnsson, Drífa Bjarnadóttir, Páll Tómasson og
Þórey R. Úlfarsdóttir (Þórey kom inn fyrir Ragnheiði Högnadóttir á miðju tímabili).
Sveitarstjóri: Þorbjörg Gísladóttir.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd