Nanna ehf.

2022

Í þéttbýliskjarna Patreksfjarðar á sunnanverðum Vestfjarðarkjálkanum er flutningafyrirtækið Nanna ehf rekið af hjónunum Sigurbjörgu Pálsdóttur og Helga Rúnari Auðunssyni, sem eru bæði stofnendur þess og eigendur. Fyrirtækið er nefnt í höfuðið á móður Sigurbjargar, Nönnu Sörladóttur en maður hennar var Páll Guðfinnsson, húsasmíðameistari. Þau hjónin bjuggu lengstum, á svonefndu Klifi, að Aðalstræti 37 á Patreksfirði og ólu þau upp 13 börn. Sjálft upphafið að starfsemi Nönnu má rekja til ársins 1989 þegar Sigurbjög og Helgi tóku við rekstri Skipaafgreiðslunnar við höfnina í bænum. Þar fór fram svæðisbundin þjónusta við stæðstu skipafélögin ásamt vörudreifingu. Eftir að strandsiglingar löguðust endanlega af á tíunda áratugnum og flutningar tóku að færast út á þjóðvegina, þá ákváðu hjónin að söðla um með nýju fyrirtæki, Nönnu ehf. sem hóf starfssemi aldamótaárið 2000. Hjá fyrirtækinu í dag vinna tvær dætur þeirra hjóna, tengdasonur, bróðir, mágkona og systursonur, ásamt fleiru góðu starfsfólki.

Lífæð í heimabyggð
Nanna er með aðsetur við höfnina á Patreksfirði og er með þjónustu fyrir Eimskip-Flytjanda, Samskip og móttöku fyrir Endurvinnsluna. Á sama stað er einnig rekið umboð fyrir Olís ásamt tengdri verslun með ýmsar vörur. Hjá fyrirtækinu eru að jafnaði um 12-15 manns í fullu starfi. Í dag samanstendur bílaflotinn af tveimur tengivagnstrukkum með kæli og frystivögnum, fjórum 10 hjóla flutningabílum með tengivögnum, ásamt tveimur sendibílum með lyftu. Að auki á fyrirtækið fjóra gámavagna. Veigamesti hluti þjónustunnar við almenning og fyrirtæki í heimabyggð, snýst um vörudreifingu í þéttbýliskjörnunum, til Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals ásamt nágrannasveitum. Verkefnin snúast einnig um reglulega fisk- og birgðaflutinga fyrir ýmis fyrirtæki með fasta þjónustusamninga. Að öðru leyti býr Nanna að traustum og góðum tengslum við öll byggð ból á syðri hluta Vestfjarðakjálkans enda þar á ferðinni helsta lífæðin við heimabyggðina. Nanna ehf. er eina fyrirtækið á sunnanverðum Vestfjörðum sem annast almenna vöruflutninga.

Þráður þjónustunnar
Fæstir gera sér grein fyrir þeim umsvifum og þeirri ábyrgð sem hvílir á einu litlu flutningafyrirtæki á Vestfjörðum. Slík starfsemi fer svo að segja fram allan sólarhringinn. Hefðbundinn dagur hjá Nönnu hefst kl. 8:00 að morgni en þá eru losaðir þeir bílar sem hafa komið um nóttina. Einnig er hringt út til viðskiptavina á Patreksfirði og flestir sækja sína vöru sjálfir, en til verslana er vörunni ekið út. Á sama morgni eru bílar gerðir klárir í útkeyrslu til móttakenda á Tálknafirði og Bíldudal en þeir fara af stað um hádegisbilið. Eftir hádegi eru bílarnir lestaðir til flutnings með fiskafurðir og aðrir með vörur. Lagt er af stað til Reykjavíkur milli fjögur og fimm síðdegis og jafnvel seinna á sumrin þegar strandveiðin er komin í gang, þá þarf oft að bíða eftir löndun bátanna og komið er til Reykjavíkur að kvöldlagi og fer losun fram strax. Daginn eftir eru bílarnir lestaðir með vörum og hefst heimferðin eftir lokun móttökustöðva kl.16:00. Landleiðin getur tekur að meðaltali 7-8 klukkustundir, allt eftir færð og við slíkar aðstæður þarf lítið út af bera svo áætlanir misfarist. Oft er haldið af stað í mjög óstöðugu veðurfari á einni torsóttustu þjóðleið landsins og hafa þessar ferðir þegar tekið sinn toll í sögu fyrirtæksins. Ennþá tuttugu árum seinna er enn beðið eftir láglendisvegi, þ.e.a.s. um Teigsskóg til að losna við þrjá erfiðustu fjallvegina á þessarri leið. Nanna ehf. lítur þó ávallt björtum augum fram á þjóðveginn, þar sem vonin býr um að lægra eldsneytisverð og að betra vegakerfi muni brátt skila sér í hagkvæmari rekstarkostnaði.
Nanna ehf. hefur lagt aukna áherslu á tölvuvæðingu fyrirtækisins á síðari árum til að létta vinnu og auka á skipulag og virkni. Ekki er fyrirhuguð fjölgun starfsmanna í náinni framtíð. Nálgun við markaðinn felst fyrst og fremst í auglýsingum í heimabyggð. Nanna ehf. hefur stutt mjög myndarlega við öll félagasamtök í bæjarfélaginu. Aðsetur Nönnu ehf. er við Patrekshöfn. [email protected]

COVID-19
Í COVID-19 faraldrinum var lokað fyrir almenna afgreiðslu á fyrstu mánuðum farsóttarinnar. Ennþá nota allir starfsmenn andlitsgrímur eins og tilskilið er. Sunnanverðir Vestfirðir hafa sloppið mjög vel við öll smit og engin veikindi hafa hrjáð mannskapinn.

Hafnarsvæðið
450 Patreksfirði
4561102
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd