1912 ehf.

2022

Framsækið fjölskyldufyrirtæki á traustum grunni
Árið 2012 fagnaði 1912, móðurfélag Nathan & Olsen, aldarafmæli, áfanga sem örfá íslensk fyrirtæki hafa náð. Félagið hefur staðið af sér tvö stríð, efnahagshrun og heimsfaraldur en styrkur þess í gegnum tíðina byggir á frábæru starfsfólki og sterkum vörumerkjum.

Sagan
Sögu 1912 má rekja aftur til ársins 1912, nánar tiltekið 1. janúar, þegar dönsku athafnamennirnir, Fritz Nathan og Carl Olsen, stofnuðu Nathan & Olsen. Reksturinn byggðu þeir á innflutningi ýmissa nauðsynjavara til Íslands og útflutningi landbúnaðar- og fiskafurða til annarra landa. Höfuðstöðvar Nathan & Olsen voru upphaflega í Hafnarstræti 21 og útibú á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Starfsemin var blómleg á þessum upphafsárum fyrirtækisins.
Árið 1914 gekk John Fenger, danskur kaupmaður af skoskum ættum í móðurætt, til liðs við Fritz Nathan og Carl Olsen og er stjórn fyrirtækisins enn í höndum afkomenda hans. Í Evrópu ríkti stríðsástand en á Íslandi átti mikil uppbygging sér stað. Forsvarsmenn Nathan & Olsen voru stórhuga, keyptu eigið skip til millilandaflutninga og létu reisa fyrsta stórhýsið í Reykjavík, sem Guðjón Samúelsson teiknaði, að Austurstræti 16. Þeir létu einnig reisa fyrstu rafstöðina í Reykjavík.

Ný tækifæri í Vesturheimi
Þrátt fyrir erfiðleika, bruna, sjóslys og hömlur á útflutningi, lifði fyrirtækið af. Í seinni heimsstyrjöldinni flutti Hilmar Fenger, sonur John sem hafði þá tekið við rekstrinum, vestur um haf til Bandaríkjanna í leit að nýjum tækifærum. Hann uppgötvaði vörumerki sem slógu rækilega í gegn á Íslandi og má enn finna á flestum heimilum, t.d. Cheerios. Hann stofnaði til arðsamra viðskiptasambanda og ákvað að einskorða starfsemi Nathan & Olsen við innflutning. Reyndist það heillaskref.
Önnur tímamót í sögu félagsins urðu árið 1988. Þá var tekin ákvörðun um að leggja áherslu á dagvörumarkað, iðnað og stóreldhús og einfalda starfsemina.

Hagkvæmni að leiðarljósi
Á árunum eftir 1988 voru forsvarsmenn Nathan & Olsen vakandi fyrir tækifærum sem fólust í samþjöppun á smásölumarkaði. Þeir keyptu eða sameinuðust öðrum heildsölum og náðu þannig að byggja upp það fyrirtæki sem við þekkjum í dag. Fyrirtækið stækkaði ört á þessum tíma. Árið 1999 keypti Nathan & Olsen, Ekruna til að leggja aukna áherslu á stóreldhúsamarkaðinn. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að stofna móðurfélagið 1912 til að gera reksturinn enn hagkvæmari.
Bygging nýrra höfuðstöðva árið 2008, að Klettagörðum 19, var meginþáttur í þeirri vegferð. Til að ná fram stærðarhagkvæmni í rekstrinum var öll starfsemin, sem fór áður fram á fimm stöðum, komin undir eitt þak. Árið 2019 festi 1912 kaup á framleiðslufélaginu Emmessís sem hefur aðsetur á Bitruhálsi. Dótturfélagið Ekran rekur auk þess útibú á Akureyri. Í dag er 1912 leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í gegnum dótturfélögin Nathan & Olsen, Ekruna og Emmessís.

Áhættudreifing er styrkur samstæðunnar
Styrkur 1912 byggir á því að dreifa áhættu á mismunandi viðskiptavinahópa og vörumerki en fyrirtækið selur og markaðssetur mörg af stærstu vörumerkjum heims. Í gegnum dótturfélög sín selur fyrirtækið vörur fyrir smásölu, iðnað, fríverslun og stóreldhús.
Nathan & Olsen sérhæfir sig í sölu ​og markaðssetningu á vörumerkjum ​á snyrti- og dagvörumarkaði og nýtir sérþekkingu, tengsl við birgja og viðskiptavini til að tryggja aðgengi að vörum með skilvirkum dreifileiðum.​

Ekran útvegar stóreldhúsum og fyrirtækjum í matvælaiðnaði hráefni og annað sem þarf fyrir daglegan rekstur. Þannig býður Ekran upp á heildarlausn þar sem breitt vöruúrval, traust afgreiðsla, sérþekking og persónuleg þjónusta er í fyrirrúmi. ​Ekran stuðlar að árangri viðskiptavina sinna með því að einfalda aðfangakeðju þeirra. ​

Emmessís hefur frá upphafi markað spor í sögu ísframleiðslu á Íslandi. Gæði og fagmennska hafa ávallt einkennt rekstur félagsins og nýverið hafa verið tekin stór skref í framleiðslu og nýsköpun. Mikil framþróun hefur orðið í verkferlum 1912 frá upphafi en stöðugt er reynt að ná fram meiri hagkvæmni og einfaldleika í rekstri.

Þröngt eignarhald lykillinn að skjótri ákvarðanatöku
Ari Fenger er forstjóri 1912 en hann er fulltrúi fjórðu kynslóðarinnar sem rekur félagið. Hann hefur stýrt félaginu frá 2008 þegar faðir hans, Vilhjálmur, féll frá. Hluthafar fyrirtækisins í dag eru Ari, ásamt Björgu Fenger, systur hans, og Kristínu Fenger, móður þeirra. Ari og Björg eru langafabörn John Fenger sem keypti sig inn í Nathan & Olsen árið 1914 og er 1912 því með elstu fjölskyldufyrirtækjum landsins. Í stjórn félagsins sitja systkinin Ari og Björg ásamt Óttari Pálssyni sem er stjórnarformaður.

Starfsfólk
Hjá 1912 starfa um 150 manns í dag en þetta er fjölbreyttur starfsmannahópur. Fyrirtækið er stolt af þeim mikla mannauði sem það býr yfir sem byggir að miklu leyti á reynslumiklu starfsfólki með langan starfsaldur. Einnig hefur verið lögð áhersla á að laða ungt, efnilegt fólk að félaginu sem styrkir reksturinn með nýrri þekkingu. Samstaða einkennir fyrirtækið og má í raun segja að félagið sé ein stór fjölskylda. Gildi fyrirtækisins, ástríða, frumkvæði, liðsheild og áreiðanleiki, eru samofin ráðningum, þjálfun og innri markaðssetningu. Gildin eru auk þess leiðarljós að því hvernig hægt er að ná fram settum markmiðum í rekstri.

Framtíðarsýn
Stjórnendur 1912 líta björtum augum til framtíðar. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og framundan leynast enn fleiri tækifæri.

Stjórnendur

Ari Fenger
forstjóri
2008-

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd