Náttúrufræðistofnun Íslands er ríkisstofnun sem heyrir til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Hún á rætur að rekja til Náttúrugripasafnsins sem var stofnað 16. júlí 1889 um leið og Hið íslenska náttúrufræðifélag. Fyrsti forstöðumaður safnsins var Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson ritstjóri og skáld. Megintilgangur safnsins og félagsins var söfnun náttúrugripa í þeim tilgangi að sýna þá almenningi og var blómaskeið safnsins var á fyrstu áratugum 20. aldar þegar það var til húsa í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ríkið yfirtók Náttúrugripasafnið formlega árið 1947, en hafði áður greitt laun starfsmanna þess frá árinu 1926 og útvegað því húsnæði leigulaust í Safnahúsinu við Hverfisgötu frá 1908. Fyrstu lög um Náttúrugripasafn Íslands voru sett 1951 og endurskoðuð árið 1965 þegar nafni þess var breytt í Náttúrufræðistofnun Íslands og kveðið á um skylduna „að vera miðstöð almennra vísindalegra rannsókna á náttúru landsins“.
Skipulag, aðsetur, stjórnendur og mannauður
Náttúrufræðistofnun Íslands starfar eftir lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, og reglugerð númer 229/1993, um Náttúrufræðistofnun Íslands. Aðalstarfsstöð stofnunarinnar er í Garðabæ en einnig er starfsstöð á Akureyri, auk borkjarnasafns sem vistað er á Breiðdalsvík. Hjá stofnuninni starfa 50–60 manns og er meirihlutinn (64%) með háskólagráðu í líffræði, jarðfræði eða landfræði og heildarhlutfall háskólamenntaðra starfsmanna er 87%. Náttúrufræðistofnun Íslands er deildarskipt í samræmi við meginhlutverk stofnunarinnar eins og þau eru mótuð í lögum, stefnumótun og starfi. Þvert á deildirnar ganga helstu fagsvið sem stofnunin fæst við, þ.e. jarðfræði, grasafræði, dýrafræði og landupplýsingar. Framkvæmdastjórn 2020 var skipuð Jóni Gunnari Ottóssyni forstjóra, Lárusi Svanlaugssyni fjármálastjóra og forstöðumönnum deilda: Guðmundi Guðmundssyni (safna- og flokkunarfræðideild), Trausta Baldurssyni (vistfræði- og ráðgjafardeild) og Önnu Sveinsdóttur (upplýsingadeild).
Hlutverk og sérstaða
Meginhlutverk stofnunarinnar er að stunda undirstöðurannsóknir í jarðfræði, grasafræði og dýrafræði landsins, annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands og varðveita niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum. Stofnunin býr yfir gögnum um náttúru landsins og hlutverk hennar er að hafa yfirsýn og veita ráðgjöf og leiðbeiningar um verndun og skynsamlega nýtingu náttúrunnar. Hún hefur einnig víðtækt vöktunar og fræðsluhlutverk. Sérstaða Náttúrufræðistofnunar Íslands felst í lögboðinni skyldu hennar til að skrásetja íslenska náttúru kerfisbundið og byggja upp aðgengilega gagnabanka fyrir almenning, fyrirtæki, sveitarfélög, ráðuneyti og aðrar stofnanir ríkisins. Engin önnur stofnun hefur sambærilegar skyldur á landsvísu og gerir þessi sérstaða stofnunina að einni af helstu grunnstofnunum þjóðfélagsins.
Í langtímastarfsáætlun Náttúrufræðistofnunar Íslands er starfssviði hennar skipt í þrjá
meginflokka:
1. Að skrá, varðveita, flokka, rannsaka og kortleggja lífríki og jarðmyndanir landsins og skrá upplýsingar um þessa þætti í gagnagrunna
Að efla vísindaleg náttúrugripasöfn
Að byggja upp gagnagrunna yfir íslenskar tegundir lífvera, steingervinga og steina
Að kortleggja útbreiðslu lífvera, gróðurfélaga og vistgerða landsins
Að kortleggja berggrunn og laus jarðlög landsins (jarðgrunn), þ.m.t. ofanflóð
Að stunda grunnrannsóknir í flokkunarfræði lífvera, steingervingafræði og bergfræði
2. Að vakta náttúru landsins, meta verndargildi og verndarstöðu náttúruminja og leiðbeina um hóflega nýtingu náttúruauðlinda
Að fylgjast með stofnbreytingum mikilvægra tegunda og stofna. Gera áætlun um og bera ábyrgð á kerfisbundinni vöktun lífríkis sem taki til lykilþátta líffræðilegrar fjölbreytni
Að meta verndargildi og verndarstöðu tegunda, vistgerða og jarðminja og gefa út válista
Að annast skráningu náttúruminja og mat á verndargildi þeirra, hafa umsjón með náttúruminjaskrá og gera tillögur um skráningar í framkvæmdaáætlun um friðlýsingar og friðun og aðrar mikilvægar náttúruminjar sem ástæða er til að friðlýsa eða friða. Endurskoða
gildandi náttúruminjaskrá
Að meta veiðiþol stofna, þörf á veiðistýringu og veita ráðgjöf til stjórnvalda þar að lútandi
3. Að afla, taka við og miðla upplýsingum um íslenska náttúru
Að gefa út vandað ritað efni og kort
Að miðla upplýsingum og fræðsluefni á netinu
Að halda úti vandaðri safna- og upplýsingaþjónustu
Að vera ráðgjafi, álitsgjafi og umsagnaraðili í málum er varða nýtingu náttúruauðlinda, landnotkun og náttúruvernd
Að fylgjast með nýjungum, stefnum og straumum á fræðasviðum stofnunarinnar og kynna störf hennar innanlands og á alþjóðavettvangi
Verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands eru af margvíslegum toga. Oft er um að ræða verkefni til langs tíma þar sem lykilþættir íslenskrar náttúru eru vaktaðir með skipulegum og skilvirkum hætti, þar á meðal tegundir plantna og dýra, jarðmyndanir og vistgerðir. Önnur verkefni eru styttri og afmarkaðri. Kröfur til stofnunarinnar um upplýsingar og ráðgjöf eru miklar og vaxandi því samfélagið þarfnast áreiðanlegra gagna til að byggja á skynsamlegar ákvarðanir, til dæmis við nýtingar- og skipulagsáætlanir sveitarfélaga og til að meta áhrif framkvæmda á villta náttúru og ásýnd lands. Þörfin er mikil fyrir náttúrufarsgögn af ýmsu tagi, svo sem útbreiðslukort dýra og plantna, gróðurkort, vistgerðakort, jarðhitakort, jarðminjakort, jarðfræðikort og válista. Krafa er gerð um áreiðanlegt mat á veiðistofnum fugla til að tryggja vernd þeirra og sjálfbæra nýtingu og þá þarf gögn til að meta líkur á skriðuföllum og hættu af þeirra völdum. Náttúrufræðistofnun Íslands gegnir þar að auki veigamiklu hlutverki þegar horft er til náttúruverndar. Þannig er það hlutverk stofnunarinnar að skapa góð gagnasöfn til að byggja á framkvæmdaáætlun í náttúruvernd, sem tryggir vernd líffræðilegrar fjölbreytni með neti verndarsvæða. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúruna eru leiðandi í vöktunarverkefnum stofnunarinnar. Starf og hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands nýtist í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi á sviði náttúrurannsókna og náttúruverndar sem stofnunin tekur þátt í fyrir Íslands hönd.
Rekstrargjöld
Samkvæmt ársreikningi Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir árið 2019 voru rekstrargjöld stofnunarinnar það ár tæplega 900 milljónir króna.
Framtíðarsýn
Markmið Náttúrufræðistofnunar Íslands er að uppfylla lagaskyldur sínar, fylla í eyður þekkingar á náttúru Íslands og að tryggja að sú þekking sé öllum aðgengileg. Stofnunin leitast við að vera ábyrg og vönduð rannsókna- og fræðastofnun sem er stjórnvöldum til stuðnings og sem rannsóknasamfélagið jafnt sem almenningur leitar til.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd