Á árinu 2025 hélt þróun nýja safnsins áfram og fjölmörg verkefni í þágu líffræðilegrar fjölbreytni og náttúruverndar voru sett í gang. Safnið tók þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og hlaut viðurkenningu fyrir framlag sitt til tengingar vísinda, stefnumótunar og samfélags. Fræðsla og opin dagskrá voru áberandi, meðal annars í tengslum við Vísindavöku, dag íslenskrar náttúru og fjölbreytta fræðsluviðburði þar sem almenningur gat fræðst um lífríki landsins. Á árinu urðu einnig breytingar í stjórn safnsins þegar langtímastjórnandi lét af störfum og ný ráðning tímabundins forstöðumanns tryggði áframhald í uppbyggingunni.
Árið 2024 einkenndist af því að staðfest var að safnið mætti halda áfram áformum sínum um að opna nýja aðalsýningu í Náttúruhúsinu í Nesi. Niðurstaða samkeppnisyfirvalda tryggði að sýningarhaldið gæti haldið áfram óbreytt og vinna við efnisgerð og hönnun hélt áfram af krafti. Áhersla var lögð á þema hafsins og fjölbreytt lífríki þess, sem verður meginstoð nýrrar grunnsýningar. Á sama tíma tók safnið virkan þátt í fræðsluverkefnum, tengdi saman rannsóknir og miðlun og efldi tengsl sín við almenning með viðburðum og verkefnum sem varpa ljósi á náttúru Íslands.
Á árinu 2023 var unnið markvisst að undirbúningi nýrrar aðalsýningar safnsins, Hafið, og ýtt úr vör fjölmörgum verkefnum sem tengdu skólum, samfélagi og vísindum. Nemendur í grunnskólum tóku þátt í vettvangsferðum og námsverkefnum sem tengdust framtíðarsýningum safnsins og á sama tíma þróuðu sýningahönnuðir efni sem ætlað er að kynna íslenska náttúru á nýjan og upplifunaríkan hátt.
Sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í Náttúru Íslands, er heildstæð, falleg og nútímaleg sýning sem veitir vandaða innsýn í eina mikilvægustu auðlind landsins, vatnið. Efnið er sett fram á nýstárlegan hátt þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku gesta og beitt nýjustu margmiðlunartækni. / Ljósm. Vigfús Birgisson.
Á sýningunni í Perlunni eru lifandi vatnadýr og jurtir og safnkennarar taka á móti skólahópum og fara með þá um sýninguna. Rúmlega 3000 nemendur ásamt kennurum heimsóttu sýninguna árið 2019, en færri komu árið 2020 vegna COVID-19. Ljósm. Vigfús Birgisson.
Vatnaveröld í Perlunni. Öll hönnun og framsetning upplýsinga miðar að því að gestir njóti sýningarinnar hvort sem þeir staldra stutt við eða vilja dvelja lengur og þyrstir í meiri upplýsingar. Sýningin er sérstaklega sniðin að ungu kynslóðinni. / Ljósm. Vigfús Birgisson.
Dr. Hilmar J. Malmquist, líffræðingur, forstöðumaður
Rostungurinn er ný sýning í Dropanum, sérsýningarrými safnsins, í Perlunni. Nýleg rannsókn hefur staðfest að á Íslandi lifði í árþúsundir sérstakur íslenskur rostungsstofn sem varð útdauður í kjölfar landnámsins, um 1000–1200 e.Kr. Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga og útbreiðslu, sem og við nytjar af rostungum og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands. / Ljósm. Vigfús Birgisson.
Náttúruminjasafn Íslands hefur sett upp tvær sýningar um afdrif geirfuglsins og útdauða tegunda í Safnahúsinu við Hverfisgötu í tengslum við sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim. Hér má sjá geirfuglinn, sem Íslendingar eignuðust 1971, og í baksýn ljósmyndir Ólafar Nordal myndlistarmanns af innyflum síðustu tveggja geirfuglanna sem drepnir voru í Eldey árið 1844. Ljósm. VIgfús Birgisson.
Náttúruminjasafn Íslands er í eigu íslenska ríkisins, eitt þriggja höfuðsafna landsins ásamt Þjóðminjasafni Íslands og Listasafni Íslands, sett á laggirnar árið 2007. Náttúruminjasafnið er fræðslu- og vísindastofnun sem er ætlað að gegna miðlægu hlutverki við miðlun þekkingar og upplýsinga um náttúrufræðileg efni og vera ráðgefandi gagnvart öðrum söfnum landsins sem sýsla með náttúruna. Náttúruminjasafnið er skilgetið afkvæmi Hins íslenska náttúrufræðifélags sem var stofnað 1889 en félagið átti og rak náttúrugripasafn á árunum 1889–1947, lengst af með stuðningi ríkisins og sýningaraðstöðu í Safnahúsinu við Hverfisgötu, en safnkosturinn var afhentur ríkinu til eignar 1947 ásamt myndarlegum byggingarsjóði fyrir nýju safnahúsi.
Árið 1951 var Náttúrugripasafn Íslands stofnað og á grunni þess árið 1965 reis Náttúrufræðistofnun Íslands, systurstofnun Náttúruminjasafnsins, sem sinnti sýningahaldi á Hlemmi frá 1967 til 2008 er sýningunni var lokað og stofnunin flutti í nýjar höfuðstöðvar í Garðabæ. Lokun sýningarinnar á Hlemmi hélst í hendur við þá ákvörðun stjórnvalda að stofna þriðja höfuðsafnið, Náttúruminjasafn Íslands, sem hefði fræðslu og miðlun með sýningahaldi að meginhlutverki.
Starfsemi Náttúruminjasafnsins er markaður rammi með sérlögum um safnið (nr. 35/2007) og safnalögum (nr. 141/2011). Meginhlutverk safnsins er að miðla þekkingu og fróðleik um náttúru Íslands, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda, náttúruvernd og tengsl náttúru landsins við umheiminn. Í því skyni stundar safnið rannsóknir, safnar munum, skráir þá og varðveitir og gengst fyrir sýningahaldi, útgáfu og viðburðum og veitir skólum fjölþætta þjónustu með öflugri safnkennslu. Þannig stuðlar Náttúruminjasafnið að auknu aðgengi almennings að náttúruarfinum, varðveislu hans og sjálfbærri umgengni við hann, sjá www.nmsi.is
Starfsemi, mannauður, verkefni
Frá stofnun Náttúruminjasafnsins hefur staða þess lengst af verið bág. Fjárheimildir fyrstu tíu árin voru naumt skammtaðar og stofnunin hafði ekki yfir eigin húsnæði að ráða, hvorki til sýningahalds né annarra starfa. Markverð breyting varð á högum Náttúruminjasafnsins seint á árinu 2018 þegar safnið opnaði sína fyrstu sjálfstæðu sýningu, Vatnið í náttúru Íslands, í Perlunni. Sýningin er rekin í samvinnu við Perlu norðursins ehf. samkvæmt afnotasamningi til 15 ára, en félagið leigir allt húsið af Reykjavíkurborg og er með eigin sýningar þar.
Á fyrstu tíu árum starfsemi Náttúruminjasafnsins var fjöldi stöðugilda aðeins 2–3, en eftir opnun sýningarinnar í Perlunni árið 2019 voru stöðugildin orðin 7,1 og 8,8 árið 2020. Fjöldi ársverka s.l. þrjú ár hefur verið 10–14. Frá vori 2020 hefur safnið haft skrifstofur að Suðurlandsbraut 24 í 310 fm leigurými og 120 fm geymslurými í Sundaborg 4.
Fyrsti forstöðumaður Náttúruminjasafnsins var dr. Helgi Torfason jarðfræðingur sem fór fyrir safninu á árunum 2007–2012. Þjóðminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir, var settur forstöðumaður frá vori 2012 fram á haust 2013, þegar dr. Hilmar J. Malmquist, líffræðingur var skipaður í embættið og aftur haustið 2018 til fimm ára.
Starfsemi Náttúruminjasafnsins er skipt í fjögur meginsvið: 1) Skrifstofu- og fjármál, 2) Miðlun, fræðslu og upplýsingagjöf, 3) Rannsóknir, söfnun og skráningu, 4) Forvörslu og varðveislu.
Í sýningahaldi er rík áhersla lögð á þjónustu við öll skólastig og sjá safnkennarar um móttöku hópa og fjölþætta fræðslu á staðnum. Sýningin í Perlunni hefur notið mikillar velgengni, aðsóknarmet var slegið 2019 þegar nær 200.000 gestir komu í heimsókn og sama ár hlaut sýningin mikilsverð evrópsk hönnunarverðlaun. Náttúruminjasafnið tók einnig þátt í grunnsýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim, sem sex söfn stóðu að í Safnahúsinu við Hverfisgötu 2015-2021.
Helstu rannsóknir á vegum safnsins síðustu ár hafa beinst að líffræðilegum fjölbreytileika, vatnalíffræði, fornlíffræði og náttúrusýn Íslendinga fyrr á öldum. Náttúruminjasafnið gefur út tímaritið Náttúrufræðinginn með Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og miðlar einnig efni á vefsetri safnsins, samfélagsmiðlum og með útgáfu bóka.
Framtíðarsýn
Á haustdögum 2020 kynnti mennta- og menningarmálaráðherra niðurstöðu greinargerðar starfshóps sem falið var að kanna fýsileika þess að staðsetja höfuðstöðvar Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi í fyrirliggjandi húsnæði Lækningaminjasafns og í Nesstofu. Meginniðurstaðan var mjög jákvæð. Seltjarnarnes er talinn kjörinn framtíðarstaður fyrir Náttúruminjasafnið vegna mikillar nálægðar við náttúruna og merkilegra fornleifa á svæðinu, og bygging Lækningaminjasafnsins ásamt nýtingu Nesstofu talin henta að mörgu leyti vel fyrir starfsemina. Jafnframt eru fyrir hendi áhugaverðir stækkunarmöguleikar á húsi Lækningaminjasafnsins og möguleikar á nýtingu húsnæðis í eigu Seltjarnarnesbæjar á svæðinu, fræðasetrinu í Gróttu. Að mati starfshópsins gæti núverandi bygging Lækningaminjasafnsins, um 1360 m2, verið tilbúin undir starfsemi Náttúruminjasafnsins á um tveimur árum. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í ársbyrjun 2021.
Bygging glæsilegs Náttúruhúss á Nesinu fyrir höfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands yrði mikil lyftistöng fyrir náttúruvísindi og safnastarfsemi í landinu. Fyrirtaks aðstaða til fræðslu og miðlunar í náttúrufræðum og umhverfismálum hefur aldrei verið brýnni en nú á tímum staðbundinna og hnattrænna umhverfisáhrifa af völdum manna. Þekking og skilningur á náttúrunni, undrum hennar og gangverki er forsenda fyrir sjálfbærri sambúð manns og náttúru, jafnt fyrir okkur sem komandi kynslóðir.
Náttúruminjasafn Íslands
Atvinnugreinar
Upplýsingar
Lesa bókina