Sagan, stofnendur, eigendur og stjórnendur
Náttúrustofa Suðausturlands var stofnuð árið 2013. Hún er rannsóknastofnun á sviði náttúrufræða og ein af átta náttúrustofum landsins sem starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Starfssvæði Náttúrustofu Suðausturlands nær frá Mýrdalssandi og austur í Hvalnesskriður og að henni standa Sveitarfélagið Hornafjörður og Skaftárhreppur. Stofan er með skrifstofur í Nýheimum á Höfn í Hornafirði og í Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri.
Stjórn stofunnar er skipuð þeim Dr. Rögnvaldi Ólafssyni, dósent í eðlisfræði við Háskóla Íslands stjórnarformanni, Matthildi Ásmundardóttur bæjarstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Evu Björku Harðardóttur oddvita Skaftárhrepps.
Starfsemi árið 2020
Starfsemi stofunnar er fjölbreytt og spanna viðfangsefnin allt frá loftslagsbreytingum og jöklum til fugla- og smádýrarannsókna. Öll verkefni stofunnar tengjast einstakri náttúru svæðisins. Á Suðausturlandi er auðugt fuglalíf enda eru á svæðinu ríkuleg votlendi og vatnasvæði. Frá stofnun Náttúrustofunnar hafa verið unnar fuglarannsóknir, einkum með áherslu á tegundir sem eru einkennandi fyrir Suðausturland, s.s. skúm og helsingja. Jöklarannsóknir spila stórt hlutverk í starfseminni enda aðgengi að jöklum óvíða betra. Rauði þráður rannsóknanna er kortlagning breytinga á jöklum og umhverfi þeirra en þeir eru stórvirkir í að rjúfa og móta landslag. Stofan er með samstarfssamninga um nokkur verkefni til lengri eða styttri tíma. Stofan á m.a. í samstarfi við Veðurstofu Íslands um vöktun á jöklum landsins, Hörfandi jöklar, en árlega er gefið út fréttabréf með upplýsingum um jöklabreytingar. Einnig er samstarf við Landgræðsluna vegna þriggja verkefna; Bændur græða landið, Hættumat á síðkominni dreifingu fokefna frá eðju eftir Skaftárhlaup (Grógos) og Kolefnisforði og CO2 flæði úr jarðvegi – vöktun á völdum landgerðum. Árið 2020 var verkefni unnið fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) um Náttúruvernd og eflingu byggða, en verkefnið var unnið að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð vinna starfsmenn stofunnar að þolmarkarannsókn og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand. Samningur til fimm ára var gerður árið 2020 við Náttúrufræðistofnun Íslands um Vöktun náttúruverndarsvæða en þar eru vöktuð friðlýst svæði og aðrir fjölsóttir ferðamannastaðir.
Mannauður, starfsmannafjöldi og framtíðarsýn
Náttúrustofur skapa tækifæri fyrir háskólamenntað fólk til að starfa nærri viðfangsefnum sínum og styrkja um leið byggð og mannlíf. Góðar og sterkar náttúrustofur eru framtíðin og það er mikill styrkur að sjá að ríki og sveitarfélög fela þeim aukin verkefni, hvort heldur er með verkefnasamningum eða öðrum leiðum til að fjármagna þau. Náttúrustofa Suðausturlands hefur verið starfrækt í átta ár og hefur starfsemi hennar vaxið og dafnað. Hver starfmaður á svona lítilli stofnun er mikilvægur og skiptir miklu að samspil menntunar og þekkingar starfsmanna sé gott því fjölbreyttur bakgrunnur eflir starfið til framtíðar. Árið 2020 voru sex starfsmenn hjá stofunni. Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur (Cand.Scient) er forstöðumaður og hefur starfað hjá stofunni frá stofnun hennar árið 2013. Snævarr Guðmundsson jarðfræðingur (M.Sc) hefur einnig starfað hjá Náttúrustofunni frá 2013. Rannveig Ólafsdóttir náttúru- og umhverfisfræðingur (M.Sc.) hefur starfað með hléum frá 2016. Pálína Pálsdóttir með B.Sc próf í búvísindum hefur starfað hjá stofunni frá 2017. Dr. Lilja Jóhannesdóttir með doktorspróf í vistfræði hefur starfað hjá stofunni síðan 2018. Sumarið 2020 var Brynjúlfur Brynjólfsson fuglaáhugmaður við störf hjá stofunni, en iðulega eru ráðnir sumarstarfsmenn til ýmissa náttúrutengdra verkefna.
Velta og hagnaður
Náttúrustofur hljóta fjármagn samkvæmt fjárlögum ríkisins og með rekstrarsamingum við aðildarsveitarfélög. Einnig afla stofurnar sértekna frá samkeppnissjóðum og með samstarfssamningum. Helstu sjóðir sem stofan hefur hlotið styrki frá eru; Atvinnu- og rannsóknarsjóður Sveitarfélagssins Hornafjarðar, Kvískerjasjóður, Loftslagssjóður, Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar, Uppbyggingarsjóður Suðurlands og Vinir Vatnajökluls.
Árið 2020 kostaði ríkið 38% af fjármagni stofunnar, aðildarsveitarfélögin tvö, Sveitarfélagið Hornafjörður og Skaftárhreppur lögðu til 17% og styrkir og sértekjur námu 45% tekna.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd