Skipa-, verkfræði- og ráðgjafafyrirtæki
Verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið NAVIS ehf var stofnað 21. mars árið 2003. Stofnendur voru skipatæknifræðingarnir Hjörtur Emilsson, Frímann A. Sturluson og G. Herbert Bjarnason og Agnar Erlingsson skipaverkfræðingur. Stofnendurnir höfðu þá áratuga reynslu úr mismunandi fyrirtækjum sem tengdust sjávarútvegi, skipahönnun og margvíslegum öðrum verkefnum í þessum geira. Í ársbyrjun 2004 sameinuðu NAVIS og verkfræðistofan Fengur krafta sína og úr varð Navis-Fengur, sem fljótlega breyttist aftur í NAVIS, er þeir fyrrnefndu tóku alfarið yfir reksturinn. Starfsemi NAVIS hvílir þannig á traustum grunni sem lagður hefur verið á löngum tíma af sérfræðingum í hönnun og skipaverkfræði. Fyrirtækið sinnir fyrst og fremst þjónustu sem tengist skipum, skipasmíðastöðvum, útgerðum, fiskvinnslufyrirtækjum og skyldum rekstri.
Fjölbreytt verkefni
NAVIS hefur annast nýhönnun ólíkra gerða skipa, flestra gerða fiskiskipa svo sem togara, nóta- og flotvörpuskipa, frysti- og fullvinnsluskipa og línu- og handfærabáta, en einnig dráttarbáta, mælingabáta, kaupskipa, ferja og farþegaskipa. NAVIS hefur séð um breytingar á eldri skipum auk breytinga og nýhönnunar á vinnslulínum. Þá er ótalinn fjöldi annarra verkefna á sérsviðum NAVIS í skipatækni og útgerð. Á seinni árum hafa tjónaskoðanir og matsgerðir af ýmsu tagi, fyrir innlend og alþjóðleg trygginga- og skipafélög, verið veigamikill þáttur í starfsemi NAVIS. Margvísleg önnur þjónusta og starfsemi fer fram á vegum NAVIS og í raun má segja að starfsmenn telji sér fátt óviðkomandi þegar kemur að skipum og bátum, sjávarútvegi og flutningastarfsemi.
Hörð samkeppni
Þrátt fyrir að mikil þekking og reynsla sé til í landinu er samkeppni á sviði skipahönnunar gríðarlega hörð og þá fyrst og fremst við erlenda aðila. Sem dæmi má nefna að hönnunarvinna í tengslum við stórfellda endurnýjun fiskiskipaflotans á undanförnum árum átti sér nær alfarið stað erlendis. Þótt sjálf skipin séu hönnuð erlendis hefur búnaður um borð eins og vinnslulínur hins vegar að mestu verið þróaður og framleiddur hér á landi. Þrátt fyrir harða samkeppni mun NAVIS halda áfram að leggja áherslu á nýhönnun í bland við önnur verkefni.
Orkuskipti
Framundan eru orkuskipti í sjávarútvegi og þar sér fyrirtækið mörg og gríðarlega spennandi verkefni. Á sama tíma er ánægjulegt að nýliðun er að aukast í faginu og nýir skipatækni- og verkfræðingar og annað fagfólk hefur verið að koma til starfa hjá NAVIS og fleiri eru á leiðinni. Ljóst er að á næstu árum verður haldið áfram að vinna markvisst að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi og samgöngum. Hvaða tækni verður ofan á liggur ekki fyrir en trúlega verður það blönduð leið, því mismunandi skip kalla á mismunandi lausnir. NAVIS fylgist vel með þessari þróun og tekur fullan þátt í henni.
Nýsköpun og vistvænni sjósókn
Undanfarin ár hefur NAVIS unnið að hönnun og þróun rafbáta þar sem lögð er áhersla á að draga úr olíunotkun og tilheyrandi kolefnisfótspori og mæta kalli markaðarins um vistvænni sjósókn. Árið 2018 fékkst styrkur frá Tækniþróunarsjóði til þessa verkefnis og nú liggur fyrir hönnun á 15 metra 30 tonna hybrid dagróðrabát sem hægt væri að hefja smíði á með skömmum fyrirvara. Þessi bátur sem gengur fyrir rafhlöðum og litlum brennslumótor mun ganga á bilinu 60-100% fyrir raforku eftir aðstæðum og hve langt er á miðin. Þessi tækni hefur þegar verið tekin upp í Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi með góðum árangri.
Byltingarkennd tækni
NAVIS er einnig í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Nanom (áður Greenvolt) sem hefur þróað og fengið einkaleyfi fyrir byltingarkenndri nanotækni til að geyma raforku í koltrefjum. Þessi tækni gæti kollvarpað fyrri hugmyndum um orkunotkun í framtíðinni. Í samstarfi fyrirtækjanna er horft lengra inn í framtíðina en það snýst um að nota koltrefjaefni í skrokk skipa og báta til að geyma orku sem síðan er notuð til að knýja skipin og starfsemina um borð. Fyrstu tilraunir með þessa tækni hafa verið gerðar á líkani sem hannað var hjá NAVIS úr koltrefjum og lofa þær góðu um framhaldið.
Öflugt samstarf í Sjávarklasanum
Fyrstu tíu árin fór starfsemi NAVIS fram á þremur stöðum í Kópavogi og Hafnarfirði en árið 2013 flutti fyrirtækið starfsstöðvar sínar í hús Sjávarklasans við Reykjavíkurhöfn og hefur síðan verið virkur þátttakandi og meðlimur í sjávarklasamstarfinu. Sjávarklasinn hefur reynst öflugur nýsköpunarvettvangur sem hefur opnað margvíslega nýja möguleika á samstarfi við önnur fyrirtæki í tengdum greinum. Samstarfið við Nanom (áður Greenvolt) er eitt þessara nýsköpunarverkefna en Nanom (áður Greenvolt) var til skamms tíma með aðsetur í Sjávarklasanum. Einnig má nefna Green Marine Technology sem er samstarf 10 íslenskra fyrirtækja sem vinna öll að því að þróa grænar launsir.
Mannauður
Framkvæmdastjóri NAVIS og einn af stofnendum og eigendum félagsins er Hjörtur Emilsson en aðrir eigendur eru Frímann A. Sturluson og Einar A. Kristinsson. Hjá félaginu starfar í dag níu manna hópur fjölhæfra fagmanna sem mynda sterka heild í þjónustu við sjávarútveg, skipasmíðar og matvælaiðnað.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd