Við Nesveg í Stykkishólmi má finna bakaríið Nesbrauð sem er byggt á gömlum grunni, því rekið hefur verið bakarí í Stykkishólmi frá árinu 1904. Í október 2015 kaupir Karl Þór ehf. félagið Nesbrauð ehf. og tóku hjónin Eiríkur Helgason og Unnur María Rafnsdóttir ásamt fjölskyldu við rekstri Nesbrauðs í byrjun árs 2016. En fram að þeim tíma hafði Eiríkur stundað sjóinn frá því hann var 14 ára gamall. Ástæða kaupanna var til að tryggja fjölskyldunni vinnu. Eiríkur er forstjóri Nesbrauðs og Helgi framkvæmdastjóri. Meðstjórnendur þeirra eru Borghildur Eiríksdóttir og Unnur María.
Reksturinn
Þegar þau hófu reksturinn þá höfðu þau áhuga á því að gera reksturinn fjölbreyttari. Stækkkuðu þau húsnæðið með því að byggja við það 60 fm veitingaskála og er í dag rekið bakarí og kaffihús sem tekur um 50 manns í sæti.
Í gegnum tíðina hafa vöruliðir Nesbrauðs aukist og breyst í takt við breyttar neysluvenjur nýrra tíma. Boðið er upp á gott úrval af nýbökuðum hágæða brauðum, m.a. súrdeigsbrauð og heilsubrauð. Einnig gott úrval af bakkelsi, nýsmurðum samlokum og brauðsalötum að ógleymdri súpu dagsins. Svo má ekki gleyma veisluþjónustunni og nestispökkunum.
Brauðklefinn
Fyrir utan bakaríið er símaklefi sem Unnur María fékk upp í hendurnar og fékk hún þá hugmynd um að gefa honum nýtt líf og nýjan tilgang sem „Brauðklefinn“. Þannig að á kvöldin og á nóttinni er hann nýttur sem sjálfsafgreiðslubakarí til þess að koma í veg fyrir matarsóun. Þetta hefur vakið mikla athygli og gengið mjög vel en með þessu eiga allir kost á því að fá nýtt brauð eða bakkelsi, á meðan birgðir endast, þó svo að þeir hafi ekki getað komist í bakaríð á opnunartíma. En eftir hefðbundin opnunartíma Nesbrauðs þá er hann fylltur af ýmis konar vörum sem seldust ekki yfir daginn og getur fólk komið og orðið sér útum dýrindis bakkelsi sem það greiðir fyrir með því að setja pening í bauk eða þá með því að leggja inn á reikning Nesbrauðs.
Framtíðarsýn
Það er alltaf nóg að gera og samanstendur kúnnahópurinn aðallega af heimamönnum og nærsveitungum, fyrirtækjum á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum. Bónusinn er svo ferðamenninirnar, sér í lagi yfir sumartímann en þá er fjöldinn allur af ferðamönnum sem leggur leið sína í gegnum bæinn.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd