Nestak

2022

Byggingafélagið Nestak var stofnað í Neskaupstað hinn 17. ágúst árið 1988. Stofnendur voru fimm húsasmiðir: Árni Guðjónsson, Einar Þorvaldsson, Jóhann G. Stephensen, Róbert Jörgensen og Vilhjálmur Skúlason. Tilgangur félagsins var að sinna verktakastarfsemi, húsbyggingum og annarri skyldri starfsemi. Núverandi eigendur Nestaks eru sjö talsins: Vilhjálmur Skúlason, Björgvin Mar Eyþórsson, Eiríkur Simonsen, Skúli Vilhjálmsson, Brynjar Örn Rúnarsson, Ingibjörg Bjarnadóttir og Arndís Hjartardóttir. Vilhjálmur Skúlason er framkvæmdastjóri fyrirtækisins en með honum sitja í stjórn Ingibjörg Bjarnadóttir formaður og Björgvin Mar Eyþórsson meðstjórnandi.

Verkefni
Frá stofnun hefur félagið fengist við fjölbreytt verkefni í Fjarðabyggð og víðar á Austurlandi en flest verkefnin hafa þó verið í Neskaupstað. Á meðal verkefna má nefna byggingu íbúðarhúsa og byggingu atvinnuhúsnæðis ásamt fjölþættum viðhaldsverkefnum. Þá hefur Nestak sinnt margvíslegum verkefnum sem tengjast hafnarmannvirkjum og eins hefur fyrirtækið í samvinnu við aðra framleitt steyptar flotbryggjur um árabil. Á meðal viðamikilla verkefna má nefna byggingu heimavistar og verknámshúss fyrir Verkmenntaskóla Austurlands, stækkun fiskimjölsverksmiðju og byggngu frystigeymslu fyrir Síldarvinnsluna, framkvæmdir við hafnir Fjarðabyggðar og byggingu 2.200 fermetra netaverkstæðis í Neskaupstað fyrir Hampiðjuna.
Allt frá upphafi hefur Nestak lagt áherslu á gott samstarf við fyrirtæki á starfssvæðinu og alloft hefur verið efnt til samstarfs þeirra um viðamikil verkefni. Þá hefur fyrirtækið ávallt kappkostað að eiga í góðum og nánum samkiptum við viðskiptavini sína.

Aðsetur
Nestak hefur sífellt lagt áherslu á að bæta aðstöðu sína og vélakost. Komið hefur verið upp góðri verkstæðisaðstöðu og eins hefur fyrirtækið fest kaup á húsnæði fyrir lager og til geymslu á tækjum og búnaði. Bætt tækjaeign hefur haft það í för með sér að fyrirtækið getur tekið að sér fjölþættari og flóknari verkefni en áður á samkeppnishæfum verðum. Skrifstofa og verkstæði eru til húsa að Borgarnausti 6 í Neskaupstað og lagerhúsnæðið og tækjageymslan er við Strandgötu.

Verkefnastaða og mannauður
Verkefnastaða fyrirtækisins á undanförnum árum hefur verið mjög góð og bendir allt til þess að svo muni verða áfram. Fjöldi starfsmanna undanfarin ár hefur verið á bilinu 12 til 14, en yfir sumartímann hafa þeir gjarnan verið 18 til 20. Flestir starfsmennirnir hafa verið menntaðir húsasmiðir en að auki hafa oftast 2 til 4 húsasmíðanemar verið á starfsmannaskrá. Nemarnir hafa verið nemendur í Verkmenntaskóla Austurlands.
Síðustu ár hefur Nestak verið á meðal þeirra fyrirtækja sem eru framúrskarandi samkvæmt þeim kröfum sem Creditinfo gerir.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd