Öflugt þjónustufyrirtæki í tölvu- og upplýsingatækni
Netkerfi og tölvur ehf. var stofnað árið 1997 af Gunnari Birni Þórhallssyni framkvæmdastjóra félagsins, sem þá starfaði sem kerfisfræðingur og sinnti ráðgjöf og netkerfisþjónustu fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu. Segja má að félagið hafi verið stofnað sem utanumhald reksturs eins manns en verkefnastaðan hafði aukist jafnt og þétt árin á undan.
Bakgrunnur og upphaf
Frá árinu 2007 hefur fyrirtækið Netkerfi og tölvur verið í eigu G&B ehf., en stafirnir í nafni fyrirtækisins standa fyrir upphafsstafi eigenda þess, Gunnars og eiginkonu hans Bjarkar Vilhelmsdóttur. Gunnar starfaði áður sem gröfu- og vélamaður en hefur alla tíð haft mikinn áhuga á tækni, tölvum og forritun. Rúmlega tvítugur keypti hann sér sína fyrstu PC tölvu, hóf að forrita og jókst þekking hans hratt. Gunnar lærði uppbyggingu og hönnun netkerfa hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Novell, en þaðan hefur hann gráðu sem Certified Network Engineer (CNE). Björk er menntaður leikskólakennari og hefur starfað sem slíkur til fjölda ára. Hún hefur einnig mikla reynslu af fyrirtækjarekstri, bókhaldi og fjármálum, en hún átti og rak fyrirtæki á Akureyri í rúm 10 ár.
Þjónusta, verkefnastaða og velta
Netkerfi og tölvur hafa eins og önnur fyrirtæki í tæknitengdum greinum þróast mikið gegnum árin og í dag er reksturinn orðinn mjög fjölbreyttur. Árið 2002 gerði félagið þjónustusamning við Tengir hf., fyrirtæki í örum vexti sem stofnað var til að byggja upp ljósleiðaranet á Eyjafjarðarsvæðinu. Við þetta jókst fjölbreytni verkefna verulega, þar sem við bættust verkefni á sviði ljósleiðaralagningar og uppsetningar á ljósleiðarabúnaði. Fyrirtækið gerði þjónustusamning við Opin Kerfi og Hewlett Packard árið 2004 og fór í kjölfarið að selja HP tölvubúnað ásamt Cisco netbúnaði, en þessir samningar ásamt öðrum styrktu verulega stöðu fyrirtækisins á sviði netkerfaþjónustu, sér í lagi til stórnotenda á Eyjafjarðarsvæðinu.
Netkerfi og tölvur hafa ávallt verið leiðandi í nýjungum á breiðu sviði upplýsinga- og vélbúnaðar, enda hefur drifkrafturinn og grunngildi starfsmanna einkennst af nýjungagirni alveg frá upphafi. Fyrirtækið var til dæmis fyrst til að hefja innflutning á geisladiskabrennurum, Unifi netaðgangspunktum, þrívíddarprenturum og nú síðast fjarverum og hefur þannig rutt brautina fyrir nýjungar í tæknigeiranum hérlendis.
Fyrirtækið hefur alltaf haft að leiðarljósi að viðskiptavinir njóti bestu mögulegu þjónustu sem völ er á og sama gildir um þær vörur sem fyrirtækið hefur boðið upp á hverju sinni. Mikill metnaður hefur verið lagður í að viðskiptavinir þurfi ekki að eyða sínum tíma í annað en að sinna sinni kjarnastarfssemi. Þessi grunngildi hafa haft það í för með sér að viðskiptavinaheldnin hefur alltaf verið mjög há, enda staðreynd að mörg fyrirtæki sem eru í rekstrar- og búnaðarþjónustu hjá Netkerfi og tölvur, hafa verið það alveg frá upphafi. Stefna eigenda er að ráða þjónustulundaða og metnaðarfulla starfsmenn sem leggja sig að fullu fram við framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini.
Helstu viðskiptavinir félagsins eru stærri fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu, ásamt Tengir hf. og fjölmörgum fjarskipta- og hugbúnaðarfyrirtækjum á landsvísu.
Velta Netkerfa og tölva er rúmlega 500 m.kr. á ársgrundvelli. Rekstur fyrirtækisins hefur verið stöðugur, félagið rekið með hagnaði frá upphafi og verið í hópi framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi síðan árið 2015.
Mannauður og aðsetur
Frá upphafi hefur félagið vaxtið jafnt og þétt og árið 2019 eru starfsmenn þess að jafnaði um 30 talsins, en yfir sumartímann þegar framkvæmdir við ljósleiðaralagningu eru í hámarki fjölgar starfsmönnum upp í um 40 manns. Hjá fyrirtækinu starfar breiður hópur, s.s. tölvunar-, kerfis- og viðskiptafræðingar auk raf- og rafeindavirkja, símsmiða, húsasmiða, vélstjóra, tæknimanna, vélamanna og verkamanna.
Aðsetur félagsins er að finna að Fjölnisgötu 6 á Akureyri og deilir félagið rúmlega 1.000 fm starfsaðstöðu sinni með Tengir hf. Fyrirtækin eru einnig með öflugt sameiginlegt starfsmannafélag sem skipuleggur viðburði og starfsmannaferðir við ýmis tilefni, þar sem áhersla hefur verið lögð á bæði fróðleik og skemmtun.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd