Netorka hf. er hlutafélag í eigu dreifiveitna raforku á Íslandi. Netorka hóf núverandi starfsemi árið 2005 til að bregðast við nýjum raforkulögum frá árinu 2003. Í lögunum var kveðið á um aðskilnað flutnings- og dreifikerfa annars vegar, sem sérleyfi þarf til að reka, og hins vegar framleiðslu og sölu á raforku sem fer fram í samkeppnisrekstri. Netorku var og er ætlað að annast lögbundnar skyldur dreifiveitna í markaðsvæddu umhverfi og vera nokkurskonar reiknistofa fyrir raforkufyrirtækin.
Starfsemi
Kjarnastarfsemi Netorku felst í að safna, vinna úr og miðla mæli- og uppgjörsgögnum fyrir íslenskan raforkumarkað ásamt því að halda utan um samskipti dreifiveitna þegar notandi skiptir um raforkusala. Netorka hefur vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis samkvæmt ISO27001:2013 staðlinum.
Velta
Tekjur Netorku byggjast að verulegu leyti á þjónustusamningum við dreifiveiturnar en einnig hefur Netorka tekjur af ýmsum öðrum verkefnum.
Starfsfólk og aðsetur
Starfsmenn Netorku voru í upphafi 5 talsins en núverandi starfsmannafjöldi er 8 og er fyrirtækið staðsett í Hafnarfirði.
Mæligögn raforku
Gagnagrunnar Netorku hafa að geyma upplýsingar um alla raforkunotkun á Íslandi fyrir utan stóriðju frá árinu 2005. Einnig hefur Netorka yfir að ráða upplýsingum um framleiðslu allra virkjana og varavéla sem ekki eru tengdar beint við flutningskerfi Landsnets.
Lesið er af öllum rafmagnsmælum landsins á að minnsta kosti árs fresti og á það aðallega við um heimili og smærri fyrirtæki. Öll stærri fyrirtæki og nokkrir minni notendur eru með tímamælda notkun á raforku, en þá skrái rafmagnsmælirinn notkun notandans á klukkutíma fresti. Algengast er að dreifiveiturnar sjái um að safna þessum upplýsingum sjálfar frá rafmagnsmælinum einu sinni á sólarhring og skrá þær í sín kerfi, en Netorka býður dreifiveitum líka upp á þá viðbótarþjónustu að safna þessum gildum beint frá mælum dreifiveitnanna og skrá í gagnagrunna sína. Með þessu móti losnar dreifiveitan við daglega umsýslu við söfnunina.
Eftir að dreifiveiturnar hafa fengið gögnin til sín frá rafmagnsmælunum, bæði þau sem eru skráð árlega sem og á hverri klukkustund, eru þau send áfram í gagnagrunn Netorku á sjálfvirkan hátt. Netorka miðlar þeim daglega til raforkusölufyrirtækja og annarra aðila en einnig á sér stað margskonar vinnsla með gögnin og útreikningar sem nauðsynlegir eru fyrir aðila raforkumarkaðarins. Miðlun raforkumæligagna til þriðja aðila er einnig viðbótarþjónusta hjá Netorku sem auðveldar raforkusölum eða gagnavinnslufyrirtækjum að nálgast raforkugögn gegn umboði viðskiptavinar. Þetta nýta bæði raforkusölufyrirtækin sér, þegar þau gera tilboð í raforkunotkun og þurfa að fá yfirlit raforkunotkunar og einnig gagnavinnslufyrirtækin, til að geta sótt raforkumæligögn viðskiptavina sinna til frekari greiningar og vinnslu.
Söluaðilaskipti
Söluaðilaskipti eiga sér stað þegar notandi skiptir um raforkusala. Almennum notanda er heimilt að segja upp raforkusölusamningi við sölufyrirtæki með þriggja vikna fyrirvara á gildistíma hans, sem taki þá gildi um næstu mánaðamót. Ef raforkusölusamningi er sagt upp minna en þrem viknum fyrir mánaðamót þá taka söluaðilaskiptin gildi eftir líðandi mánuð að viðbættum þeim næsta.
Netorka sér um alla vinnslu og samskipti við raforkusala sem eiga sér stað vegna söluaðilaskipta, fyrir hönd allra dreifiveitnanna.
Söluaðilaskipti geta einnig átt sér stað við notendaskipti (nýr notandi flytur inn/út úr húsnæði), en þá þarf viðkomandi sölufyrirtæki að senda inn tilkynningu til Netorku áður en flutningur á sér stað. Að öðrum kosti fer salan á söluaðila til þrautavara, en það er sá söluaðili sem Orkustofnun hefur valið ef notandi velur sér ekki sjálfur raforkusala við flutninginn.
Algengast er þó að viðskiptavinur og raforkusali hafi stofnað til formlegs viðskiptasambands og í þeim tilfellum fylgir raforkusalinn viðskiptavininum við flutning.
Raforkuspár
Landsnet ber ábyrgð á að alltaf sé til reiðu sú raforka sem þarf hverju sinni. Til þess að þetta sé hægt þarf að spá fyrir um hver raforkunotkunin verður á hverjum tíma því raforku þarf að framleiða jafnóðum og hennar er þörf. Öll sölufyrirtækin, eða jöfnunarábyrgir, þurfa að senda Landsneti spá um hversu mikla raforku þau telja að þau muni selja á hverjum klukkutíma. Ef spáin er of há, þurfa sölufyrirtækin að selja orku á svokölluðu jöfnunarorkuverði en ef spáin er of lág þurfa fyrirtækin að kaupa orku.
Netorka hefur yfir að ráða öflugu raforkuspákerfi sem raforkusölufyrirtækin geta nýtt sér til að sjá fyrir raforkunotkun sinna viðskiptavina á öllum dreifiveitusvæðum.
Raforkumæligögnin sem notuð eru við gerð raforkuspánna eru bæði söguleg gögn um raforkunotkun og veðurspár frá nokkrum veðurspárþjónustum á Norðurlöndum. Einnig nýtir kerfið sér upplýsingar um frídaga og helgar því raforkunotkunin á landinu er mjög breytileg eftir því hvaða dagur er.
Ljósmyndir. Hafdís H. Einarsdóttir @h4fdis
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd