Neytendastofa tók til starfa 1. júlí 2005 að undagengnum ítarlegum greiningum um nauðsyn þess að setja á stofn stofnun sem myndi efla starf að neytendamálum og þar með auka neytendavernd. Meginhlutverk stofnunarinnar má skipta upp í eftirfarandi flokka: 1) Gæta að og hafa eftirlit með neytendarétti og öryggi vöru. 2) Hafa eftirlit með viðskiptaháttum og stuðla að gagnsæi markaðarins. 3) Yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði og framkvæmd sem að því lýtur. 4) Miðla upplýsingum til aðila á markaði um réttindi þeirra og skyldur.
Hlutverk
Neytendastofa hefur undanfarin 15 ár sinnt hlutverki sínu af kostgæfni og ljóst er að ávinningur hefur verið mikill fyrir samfélagið, jafnt fyrir neytendur sem og aðila í atvinnulífinu. Fjöldi mála sem áður fengu ekki úrlausn hafa verið tekin til stjórnsýslumeðferðar eins og sést af ákvörðunum stofnunarinnar. Samtímis hefur stofnunin áunnið sér traust jafnt neytenda sem og aðila í atvinnulífi sem hafa getað byggt aðgerðir sínar á úrlausnum stofnunarinnar og án mikils kostnaðar eða þurft að leita til dómstóla með ágreining í tengslum við löggjöf um réttindi og skyldur neytenda. Viðhorfskannanir hafa staðfest að traust til Neytendastofu og þekking almennings hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin 15 ár. Þá hefur Neytendastofa verið framarlega meðal opinberra stofnana í rafrænni þjónustu við viðskiptavini stofnunarinnar auk þess sem vefasíða stofnunarinnar hefur sl. tíu ár verið í verðlaunasæti yfir vefsíður ríkisstofnana.
Starfsemin
Leiðarljós í starfsemi stofnunarinnar hefur verið að tryggja þekkingu og virðingu fyrir réttindum neytenda. Mikið brautryðendastarf hefur verið unnið á starfssviðum stofnunarinnar sem skiptast í þrjú meginsvið; þ.e. öryggi vöru, réttindi neytenda og eftirlit með mælitækjum og mælingum.
Landsmæligrunnar Íslands eru varðveittir hjá Neytendastofu og eru þar aðgengilegir fyrir atvinnulífið í landinu og önnur stjórnvöld. Þeir skipta miklu máli fyrir ýmis hátæknifyrirtæki sem verða að hafa greiðan aðgang að kvörðun viðkvæmra mælitækja svo sem nákvæmnisvogir í lyfjaiðnaði eða faggiltum rannsóknarstofum sem hér starfa. Kvörðunarþjónusta Neytendastofu hefur verið í hæsta gæðaflokki við kvörðun mælitækja og starfsemi hennar verið faggilt af bresku faggildingarstofunni (UKAS) allt frá árinu 2006 sem tryggir að kvörðunarþjónusta hennar fyrir íslensk fyrirtæki nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar.
Réttar mælingar og rétt notkun mælitækja er grunnstoð í heiðarlegum viðskiptum við neytendur. Átak hefur verið gert í að tryggja að vegið magn í forpökkuðum vörum sé rétt þannig að neytendur fái ávallt þá þyngd vöru sem tilgreind er á umbúðum vörunnar.
Neytendastofa hefur tekið tímamótaákvarðanir í málum varðandi neytendalán þar sem upplýsingagjöf lánveitenda var ekki í samræmi við lög eða ákvæði um vexti í lánasamningum við neytendur. Lánastofnanir hafa í kjölfar slíkra ákvarðana endurgreitt neytendum hundruða milljóna króna vegna gallaðra lánaskilmála. Þá hefur stofnunin tekið ákvarðanir vegna villandi og óréttmætra viðskiptahátta, m.a. vegna sölu í vefverslunum og notkunar á íslenska fánanum við markaðssetningu á vörum. Auk þess hafa komið upp mörg mál vegna pakkaferða á síðustu árum.
Markaðseftirlit
Mikil áhersla hefur verið á að auka öryggi á barnavörum og hefur stofnunin gerbreytt barnavörumarkaðnum í þeim tilgangi að tryggja að slíkar vörur uppfylli ávallt öryggiskröfur sem lög og gildandi reglur mæla fyrir um. Á markaðnum finnast oft vörur sem geta reynst hættulegar fyrir öryggi barna, s.s. leikföng, barnabílstólar, barnarúm og allskyns umönnunarvörur ætlaðar börnum. Neytendastofa hefur byggt upp öflugt markaðseftirlit með öryggi neytendavöru og hefur innkallað eða lagt sölubann á mörg hundruð vörur árlega í samstarfi við systurstjórnvöld sín á Evrópska efnahagsvæðinu. Sem dæmi má nefna að Neytendastofa tók frumkvæðið og var fyrsta stofnunin í Evrópu til að athuga öryggi snjallúra en rannsókn stofnunarinnar leiddi í ljós að unnt var að staðsetja og fylgjast með öllum ferðum notenda úranna enda barnaleikur að komast inn í staðsetningarbúnað þeirra. Sölubann var sett á úrin á EES-svæðinu og aukin meðvitund er nú á að framleiðendur á snjalltækjum verða að tryggja persónulegt öryggi notenda og koma í veg fyrir óheftan aðgang að persónuupplýsingum.
Neytendastofa hefur gengt mikilvægu hlutverki í að upplýsa neytendur og atvinnulífið um réttindi þeirra og skyldur í viðskiptum með vörur og þjónustu. Kannanir sýna að þekking neytenda og seljenda hefur aukist ár frá ári um helstu kröfur sem sameiginleg EES-löggjöf setur varðandi viðskipti við neytendur.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd