Það var árið 1920 sem fimm félagar, fullir af eldmóði og óbilandi bjartsýni, stofnuðu fyrirtæki sem hlaut nafnið Brjóstsykursgerðin Nói. Þetta voru þeir Gísli Guðmundsson, Loftur Guðmundsson, Eiríkur Bech, Hallur Þorleifsson og Þorgils Ingvarsson sem jafnframt var fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Eiríkur varð fyrsti starfsmaður félagsins en hann tók við sem framkvæmdastjóri 1924 og starfaði sem slíkur í þrjátíu ár. Fyrirtækinu óx fljótt fiskur um hrygg og sprengdi utan af sér kjallaraherbergið á Óðinsgötu sem upphaflega hýsti starfsemina. Var þá reist verksmiðjuhús við Smiðjustíg en í kjölfar þess hófst framleiðsla á saft, soja og gosdrykkjum.
Árið 1924 eignaðist eitt öflugasta verslunarfélag þess tíma, H. Benediktsson og Co., meirihluta í Brjóstsykursgerðinni Nóa og jók það enn styrk félagsins en aðaleigandi var Hallgrímur Benediktsson. 1930 keypti Nói sápuverksmiðjuna Hrein og stóru þáttaskilin urðu svo þegar fyrirtækið eignaðist dönsku súkkulaðiverksmiðjuna Síríus árið 1933. Fyrirtækin Nói, Síríus og Hreinn voru þó enn rekin í sitthvoru lagi en fluttu saman í nýtt húsnæði við Barónsstíg. Á sama tíma hófst framleiðsla á Síríus súkkulaðinu sem glatt hefur bragðlauka landsmanna allar götur síðan. Í kjölfarið bættist Nóa konfektið í hópinn og páskaeggin ómissandi litu dagsins ljós um svipað leyti. Um miðja öldina hófst svo framleiðsla á lakkrístöflum en þekktastar þeirra eru hinar sívinsælu Tópas töflur.
Ingileif Bryndís Hallgrímsdóttir tók við sem stjórnarformaður Nóa árið 1954, aðeins 35 ára gömul. Þetta þóttu nokkur tíðindi enda afar fátítt að konur sætu í stjórnum íslenskra fyrirtækja, hvað þá að þær væru stjórnarformenn. Ingileif gegndi formennsku til ársins 2004 þegar hún lét af störfum, 85 ára að aldri, en þá tók við stjórnarformennsku dóttir hennar Áslaug Gunnarsdóttir. Hallgrímur Björnsson, efnaverkfræðingur, tók við sem forstjóri 1955 og innleiddi miklar umbætur í gæðamálum, umbætur sem enn í dag má sjá merki um í þeirri stefnu fyrirtækisins að velja allt hráefni af kostgæfni. Gæðavara fæst víst ekki nema úr góðu hráefni.
Vöruval Nóa og Síríus hélt áfram að stækka eftir því sem leið á síðustu öld og samhliða óx markaðshlutdeildin. 1970 gekk Ísland svo í EFTA en það hafði í för með sér stóraukna samkeppni því innflutningsbanni á innflutt sælgæti var aflétt. Innflutningur jókst jafnt og þétt, eftir því sem tollar voru afnumdir, en íslenskir sælgætisframleiðendur stóðust áhlaupið vel. Nói Síríus – fyrirtækin tvö voru loks sameinuð árið 1977 – brást við samkeppninni með aukinni áherslu á vöruþróun sem allar götur síðan hefur skipað stóran sess í starfseminni. Tvö af eftirlætis vörumerkjum þjóðarinnar, Nóa Kropp og Eitt Sett, urðu einmitt til í kjölfarið.
Árið 1995 var tekin ákvörðun um að Nói Síríus skyldi eingöngu verða matvælafyrirtæki. Starfsemin sem tilheyrði Hreini var seld og þar með hætti fyrirtækið afskiptum af þeim markaði. Í lok árs 1995 festi Nói Síríus kaup á Opal og þar með bættust þekktar vörur eins og Opal, Trítlar og Háls molar við hina ört vaxandi Nóa Síríus fjölskyldu.
Vöruþróun og útflutningur
Á nýrri öld hefur Nói Síríus haldið áfram að vera leiðandi fyrirtæki á íslenskum matvælamarkaði. Vöruþróun skipar sífellt stærri sess hjá fyrirtækinu og nýjungar líta reglulega dagsins ljós í hillum verslana, Íslendingum til mikillar ánægju. Og það eru ekki einungis Íslendingar sem gleðjast því útflutningur er stór og vaxandi liður í starfseminni. Að auki hefur rík áhersla verið lögð á að kynna íslenskar sælgætishefðir fyrir erlendum ferðamönnum sem hafa tekið vörum fyrirtækisins fagnandi.
Auk þess að framleiða allar þær sígildu vörur sem lifað hafa með þjóðinni í áratugi er Nói Síríus umboðsaðili fyrir fjölmörg vinsæl erlend vörumerki, eins og Kellogg´s morgunkorn, Pringles flögur og Valor súkkulaði. Fyrirtækið hefur vaxið með þjóðinni í rúma öld og er hvergi nærri hætt. Vörurnar streyma af færiböndunum, sælkerum þessa lands til ómældrar ánægju.
Starfsmannamál og aðsetur
Nói Síríus leggur mikla áherslu á aðbúnað og réttindi starfsfólks en stór liður í því er jafnlaunastefna fyrirtækisins sem tryggir öllu starfsfólki jöfn laun og kjör fyrir sömu eða jafngild störf. En ábyrgðinni sleppir ekki þar. Það er nefnilega ekki heiglum hent að rækta kakóbaunir á norðurhveli jarðar og því eru kakóbaunirnar sem notaðar eru í Síríus súkkulaði ræktaðar á Fílabeinsströndinni. Framleiðslu í fjarlægum heimshluta fylgir mikil ábyrgð og því er Nói Síríus partur af Cocoa Horizons verkefninu en það þýðir að kakóhráefnið er ræktað á ábyrgan hátt með sjálfbærni að leiðarljósi.
Hjá Nóa Síríus starfar samhentur hópur um 130 starfsmanna sem hefur það sameiginlega markmið að gleðja bragðlauka þjóðarinnar. Fyrirtækið hefur nær alla sína sögu verið í eigu sömu fjölskyldunnar sem eru afkomendur Hallgríms Benediktssonar en árið 2021 keypti norska fyrirtækið Orkla ASA félagið og núverandi forstjóri er Lasse Ruud-Hansen. Framleiðsla fyrirtækisins fer fram í glæsilegum húsakynnum þess að Hesthálsi 2-4.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd