Nonni litli ehf. á rætur sínar að rekja til þess þegar Kjarnafæði og Júmbó samlokugerð stofnuðu fyrirtækið árið 2004. Árið eftir keypti Ragnar Þór Ragnarsson hlut Júmbó og hefur allar götur síðan verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Svo gerist það í lok árs 2014 að Kjarnavörur keyptu hlut Kjarnafæðis. Þannig að í dag eiga Kjarnavörur og Ragnar Þór fyrirtækið.
Nonni litli
Nafn fyrirtækisins hefur vakið athygli, en það vísar í Jón Sveinbjörn Kristjánsson (Nonna litla) en hann var tíður gestur á æskuheimili Kjarnafæðisbræðra, Eiðs og Hreins, frá því að þeir voru ungir drengir. Eiður fékk hugboð um að nefna fyrirtækið Nonna litla og bar það upp við samstarfsfólk sitt og það samþykkt án frekari vafninga.
Starfsfólk
Fastráðnir starfsmenn eru sex talsins um þessar mundir og eru flestir iðnmenntaðir á matvælasviði enda gerðar miklar kröfur um fagleg vinnubrögð og vandaða framleiðslu.
Framleiðslan
Framleiðslan fer nú fram að Þverholti í Mosfellsbæ og hefur raunar verið þar frá upphafi. Með stofnun Nonna litla má segja að Kjarnafæði og Júmbó hafi komið úr sitt hvorri áttinni með sitt framlag í framleiðsluna sem síðar varð. Kjarnafæði kom með hrásalat, kartöflusalat og sósur sem fram að því hafði verið framleiðsla þeirra. Júmbó kom með brauðsalöt inn í samstarfið á sínum tíma – salöt sem þeir höfðu framleitt til að nota á samlokurnar í sinni framleiðslu. Nú eru helstu framleiðsluvörur sósur og salöt eins og verið hefur frá upphafi en hin síðari ár hefur hefur framboðið aukist hvað varðar fjölbreytni einstakra tegunda. Því til viðbótar eru sérframleiddar ýmiskonar vörur á þessu sviði samkvæmt óskum einstakra viðskiptavina.
Framtíðarsýn
Í framtíðarsýn fyrirtækisins verður áfram haldið á þeirri braut að bjóða viðskiptavinum upp á enn fjölbreyttari vörur sem standast ströngustu kröfur um gæði og vandaða framleiðslu. Á þeim grunni hefur verið unnið undanfarin ár og það hafa viðskiptavinir okkar kunnað vel að meta.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd