NORA er nýsköpunarfyrirtæki í sjávarútvegi sem var stofnað árið 2014. Stofnendur eru Hallvarður Aspelund og Víðir Ingþórsson. Víðir hefur verið viðloðin sjávarútveg frá unga aldri. Hann stundaði sjómennsku með föður sínum og hóf að selja fisk á erlenda markaði árið 2009. Grunnur starfseminnar var lagður með samböndum hans og reynslu.
Í upphafi ársins 2013 fór Víðir að kynna sér sölu á vannýttum aukaafurðum. Úr varð verkefni sem þróaðist svo fljótlega yfir í fleiri nýsköpunarverkefni og var þá kominn framtíðar grunnur að rekstri NORA. Síðan þá hafa mörg verkefni bæst við og keypti NORA Harðfiskverkun Finnboga á Ísafirði árið 2020. Velta NORA hefur nær tvöfaldast árlega frá stofnun og var rúmar 500 m.kr. árið 2020. Starfsmenn eru í dag 5 talsins og starfa frá skrifstofu félagsins á Ísafirði í Sindragötu. Hjá NORA starfar kafari sem kafar eftir skelfisk í Ísafjarðardjúpi í hverri viku. Hjá Harðfiskverkun Finnboga starfa að jafnaði tveir. Sérstaða félagsins hefur alltaf verið að koma auga á ný tækifæri og selja afurðir í hæsta gæðaflokki. Afurðir frá NORA eru eftirsóttar meðal færustu matreiðslumanna hérlendis og erlendis.
Hjá NORA starfar framúrskarandi teymi karla og kvenna sem geta tekist á við hvaða áskoranir sem er.
Vinnulag og framleiðsluferli
Meirihluti afurða NORA er ferskt sjávarfang sem fer út flugleiðina. Krafa okkar viðskiptavina er ferskleiki og hröð afhending. Skelfiskur úr Ísafjarðardjúpi fer flugleiðina lifandi og er jafnvel kominn á disk neytenda sólahring síðar. Frá fiskmörkuðum sækjum við í ferskasta fiskinn daglega. Við höldum úti virkum samfélagsmiðlum og leyfum áhugasömum að fylgjast með því sem við erum að gera hér fyrir Vestan. Einnig eigum við gríðargott samstarf við útgerðarfyrirtæki á svæðinu og eldisfyrirtæki. Við hófum sölu á eldisfiski árið 2015 og er lax, bleikja og fjarðarurriði í dag um 40% af heildarsölunni.
Harðfiskur frá Harðfiskverkun Finnboga er vinsæll og er seldur víða um land. Hjallaþurrkaður harðfiskur er einstök vara og má nefna að fáir staðir henta jafn vel og Vestfirðir fyrir hjallaþurrkun. Það er vegna þess hve kalt og vindasamt er á þurrkunartímanum frá september til apríl. Tveir hjallar eru nýttir til framleiðslunnar, einn á Eyrarhlíð og annar á Arnarnesi, báðir liggja þeir í Skutulsfirði.
Skipulag og sérstaða
Hjá NORA vinnur mjög framsækið teymi sem er mjög sveigjanlegt. Teymið skiptist í innanlands- og útflutningsdeild en mikill samgangur er þó milli deilda. Fyrirtækið er alþjóðlegt og teymið þarf að ferðast nokkuð vegna vinnu. Til Ísafjarðar fáum við heimsóknir frá viðskiptavinum og þá sýnum við þeim náttúrufegurðina.
Framtíðarsýn
Stefnan er sett á að nýta áfram vel það sem við höfum nú þegar. Einnig að finna ný tækifæri og fylgjast vel með tækninýjungum. NORA fékk nýlega úthlutað lóð. Þar er stefnan sett á að hafa alla starfsemi undir einu þaki.
Hjá Harðfiskverkun Finnboga er stefnt á að koma harðfiski á kortið víða erlendis og er sú vinna hafin af fullum krafti. Krafa heimsbyggðarinnar að borða hollari fæðu sem stuðlar að góðri uppbyggingu líkamans. Harðfiskur er einn besti prótíngjafinn sem völ er á.
Umfram allt annað; að bera virðingu fyrir sjónum og því sem þaðan kemur.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd