Norðurál ehf.

2022

Hjá Norðuráli á Grundartanga í Hvalfirði starfa um 600 manns, í fjölbreyttum störfum, við framleiðslu á hreinu áli og álblöndum úr áloxíði og rafmagni. Íslenski áliðnaðurinn er ein stærsta útflutningsgrein landsins og ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs.

Umhverfisvæn starfsemi
Norðurál leggur áherslu á að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við umhverfið og stöðugt er unnið að lágmörkun umhverfisáhrifa. Nánasta umhverfi okkar í Hvalfirði er óefað eitt mest rannsakaða svæði á Íslandi. Óháðir aðilar hafa eftirlit með um 100 mæliþáttum á stóru svæði til að ganga úr skugga um að starfsemin á Grundartanga hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið. Niðurstöður sýna ótvírætt að Norðurál uppfyllir öll viðmiðunarmörk í starfsleyfi og reglugerðum.
Notkun endurnýjanlegrar raforku við framleiðsluna og stöðugleiki í rekstri tryggir að kolefnisspor álsins er með því lægsta sem gerist í heiminum. Norðurál hefur kynnt á markað vörulínu undir merkinu Natur-Al og gerir viðskiptavinum kleift að kaupa umhverfisvænt ál sem er rekjanlegt frá upphafi til enda framleiðsluferilsins og vottað af óháðum aðilum.

Afurðir
Helsta afurð Norðuráls er hreint ál og álblöndur. Flestir álhlutir sem við þekkjum – dósir og ýmiskonar umbúðir, byggingarefni, bílfelgur, reiðhjól og tölvur – eru úr málmblöndum þar sem ál er langstærsti hlutinn en öðrum málmum er blandað við álið til að gefa því aukna hörku, burðarþol, hærra eða lægra bræðslumark eða aðra sérstaka eiginleika. Algengustu málmar í álblöndum eru kopar, magnesíum, mangan, kísill og sink.

Natur-AL™
Árið 2020 kynnti Norðurál á markað nýja vörulínu undir merkinu Natur-Al™. Þar með býðst viðskiptavinum fyrirtækisins að kaupa umhverfisvænt ál sem er rekjanlegt frá upphafi til enda framleiðsluferlisins og vottað af óháðum aðilum.
Natur-Al er íslenskt ál sem hefur eitt lægsta kolefnisspor sem völ er á í heiminum. Hrein orka, ásamt framúrskarandi stöðugleika í rekstri og ströngum reglum um umhverfismál, gerir Norðuráli kleift að framleiða ál með einstaklega lágt kolefnisspor. Ál undir merkjum Natur-Al hefur kolefnisspor sem er 4t CO2 / t Al, frá öflun báxíts og vinnslu áloxíðs til álvinnslu og flutnings alla leið til kaupanda. Heildarlosun kolefnisígilda við framleiðslu Natur-Al er innan við fjórðungur af meðaltali álframleiðslu í heiminum og samkeppnishæft við það allra besta sem völ er á á heimsmarkaði.
Norðurál gerir viðskiptavinum sínum kleift að ganga skrefinu lengra með Natur-Al™ ZERO – hreinu áli sem er kolefnisjafnað að fullu með framlagi til verkefna á borð við endurheimt votlendis og skógrækt.
Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls: „Eftirspurn eftir umhverfisvænum vörum er í verulegri sókn, eins og allir vita. Við erum að svara þörfum okkar viðskiptavina fyrir hráefni sem er raunverulega eins umhverfisvænt og mögulegt er. Álið okkar á ekki bara að gera vörur fallegri og léttari, heldur viljum við að neytendur viti að þær eru gerðar úr umhverfisvænasta áli sem völ er á í heiminum.“
Ál er meðal þeirra málma sem er mest endurunninn. Yfir 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum er enn í notkun. Í Evrópu er endurvinnsluhlutfall drykkjardósa yfir 70% og fer hækkandi, á Íslandi er það 94%. Fjárhagslegur og umhverfislegur hvati til endurvinnslu áls er mikill, þar sem til þess þarf einungis um 5% af orkunni sem fer í að frumframleiðslu þess.

Vottanir
Norðurál hlaut á árinu 2019 hina alþjóðlegu ASI vottun sem staðfestir að fyrirtækið stenst ítrustu kröfur um samfélagslega ábyrgð, heiðarlega viðskiptahætti, umhverfisvænt hráefni og framleiðslu. Gæðastjórnunarkerfi Norðuráls er vottað samkvæmt alþjóðlega ISO 9001 staðlinum. Umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi fyrirtækisins eru vottuð samkvæmt ISO 14001 og ISO 45001 stöðlum. Fyrirtækið hefur hlotið jafnlaunavottun með gullmerki PwC, sem skipar því í fremstu röð íslenskra fyrirtækja þegar kemur að launajafnrétti. Vottunin sýnir að hjá Norðuráli er starfsfólki greidd laun eftir ábyrgð, sérþekkingu og vinnuframlagi, ekki kyni eða uppruna. Þá staðfestir hún málefnalega og sanngjarna stjórn launamála hjá fyrirtækinu.

Samfélagsverkefni
Norðurál styrkir tugi samfélagsverkefna ár hvert, bæði stór og smá. Fyrirtækið er aðalstyrktaraðili ÍA á Akranesi. Þá eru Valsmenn nágrannar okkar við Hlíðarenda í Reykjavík og við erum meðal styrktaraðila þeirra. Styrktarsamningar eru í takt við þá stefnu að helstu samfélagsverkefni Norðuráls eru tengd íþróttastarfi, barna- og unglingastarfi og forvörnum.

Framleiðslan
Álver Norðuráls á Grundartanga var gangsett árið 1998. Fyrsta starfsárið var framleiðslan 60.000 tonn en árið 2019 var hún um 316.000 tonn. Norðurál hefur heimild til að framleiða 350.000 tonn af áli á ári.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd