Norðurorka hf. er orku- og veitufyrirtæki sem varð til árið 2000 við sameiningu Hita- og Vatnsveitu Akureyrar og Rafveitu Akureyrar. Fyrirtækið stendur á gömlum merg, Vatnsveita Akureyrar var stofnuð árið 1914, Rafveita Akureyrar árið 1922 og Hitaveita Akureyrar árið 1977. Síðustu sex ár hefur Norðurorka einnig annast rekstur fráveitu á Akureyri. Frá aldamótum hafa veitur í Ólafsfirði, Hrísey, Hrafnagilshreppi (sem nú er hluti af Eyjafjarðarsveit) og á Svalbarðsströnd sameinast Norðurorku. Einnig byggði fyrirtækið upp Reykjaveitu í Fnjóskadal í samstarfi við Grýtubakkahrepp og Þingeyjarsveit. Höfuðstöðvar Norðurorku eru á Rangárvöllum á Akureyri.
Fyrirtækið er í eigu sex sveitarfélaga; Akureyrarbæjar, sem á rúmlega 98% hlutafjár, Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Þingeyjarsveitar. Auk Akureyrar er þjónustusvæði Norðurorku Ólafsfjörður, Hrísey, Grímsey, Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur og Þingeyjarsveit. Í sveitarfélögum utan Akureyrar er Norðurorka annað hvort eða bæði með hita- og vatnsveitu. Á Akureyri þjónustar fyrirtækið notendur hita- vatns-, raf- og fráveitu. Heimasíða Norðurorku: www.no.is
Rafveita
Norðurorka annast dreifingu rafmagns á Akureyri en dótturfyrirtækið Fallorka kaupir rafmagn og endurselur til notenda um allt land. Einnig framleiðir Fallorka rafmagn, samtals 6,5 megavött, í fjórum virkjunum, Glerárvirkjun I og II og Djúpadalsvirkjun I og II.
Hitaveita
Heitt vatn notenda á Akureyri, í Grýtubakkahreppi, Þingeyjarsveit, Eyjafjarðarsveit og Hörgársveit kemur frá borholum á Syðra-Laugalandi, Ytri-Tjörnum, Hrafnagili og í Botni í Eyjafjarðarsveit, Glerárdal skammt ofan Akureyrar, Laugalandi á Þelamörk, Arnarnesi við Hjalteyri og Reykjum í Fnjóskadal. Í Ólafsfirði eru vinnsluholur á Garðsárdal og í Laugarengi og notendur í Hrísey fá heitt vatn úr borholu í eynni.
Vatnsveita
Kaldavatnslindir Akureyringa eru að stærstum hluta í Hlíðarfjalli en einnig nýtir Norðurorka kalt vatn frá Vöglum í Hörgárdal. Þriðju kaldavatnslindirnar eru í Vaðlaheiðargöngum en þær mun fyrirtækið nýta í framtíðinni. Auk vatnsveitu á Akureyri rekur Norðurorka vatnsveitu á Svalbarðsströnd, í Hrísey og að hluta í Hörgársveit og Eyjafjarðarsveit.
Fráveita
Í ársbyrjun 2014 tók Norðurorka yfir rekstur fráveitu Akureyrar sem áður var á hendi Akureyrarbæjar. Kerfið er viðamikið og tekur til heimila og fyrirtækja á Akureyri og þéttbýlisins norðan Lónsár, sem er hluti af Hörgársveit. Í viðhaldi og uppbyggingu fráveitukerfisins leggur Norðurorka áherslu á að mæta auknum kröfum um hreinsun skólps áður en því er dælt út í sjó og hefur ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir þar að lútandi. Einnig rekur Norðurorka fráveitu í Grímsey.
Umhverfismál
Norðurorka lætur sig umhverfismál miklu skipta og það tekur til allra þátta í starfi fyrirtækisins. Hjá dótturfélaginu Vistorku ehf. er m.a. unnið að ýmsum lausnum er nýtast til að ná markmiðum um kolefnishlutlaust samfélag.
Óflokkaður úrgangur Norðurorku hefur minnkað ár frá ári á undanförnum árum og við endurnýjun á bílaflota fyrirtækisins hefur verið horft til metans og rafmagns sem orkugjafa. Metanið kemur frá gömlu sorphaugunum á Glerárdal en árið 2013 réðst Norðurorka í það verkefni að byggja hreinsistöð til að vinna metangas úr þeim. Þar með var dregið verulega úr því metangasi frá sorphaugunum sem annars hefði streymt út í andrúmsloftið.
Á árinu 2018 batt starfsemi Norðurorku um 3.100 tonn af koltvísýringi en losaði um 550 tonn frá
starfsemi sinni. Drjúgur hluti bindingarinnar er föngun á gasinu frá sorphaugunum á Glerárdal en einnig er umtalsverð binding koltvísýrings á 54 hektara skógræktarsvæðum í eigu Norðurorku. Stærsta umhverfisverkefni Norðurorku á síðustu árum er bygging hreinsistöðvar fráveitu í Sandgerðisbót sem verður tekin í notkun á árinu 2020. Með tilkomu stöðvarinnar er öllu skólpi á Akureyri dælt í hreinsivirki hennar og því síðan veitt í 400 metra langa og 40 metra djúpa útrás út í sjó.
Gildi og mannauður
Gildi Norðurorku eru virðing, fagmennska og traust.
Í þessu felst að fyrirtækið ber virðingu fyrir náttúrunni og auðlindum hennar og vill sýna samfélagslega ábyrgð. Lögð er áhersla á öryggis- og gæðamál og að þjóna viðskiptavinum af fagmennsku og virðingu. Auk þess meginhlutverks Norðurorku að þjónusta heimili og atvinnulíf með vinnslu og dreifingu á heitu vatni, neysluvatni og raforku ásamt rekstri fráveitu leggur fyrirtækið áherslu á þátttöku í ýmsum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum sem hafa að leiðarljósi ábyrga orkunýtingu. Efnahagur Norðurorku er traustur. Eiginfjárhlutfall móðurfélagsins er 67% og samstæðunnar 62%. Heildareignir móðurfélags Norðurorku er 18,3 milljarðar króna og samstæðunnar um 19,8 milljarðar. Sjötíu ársverk eru hjá fyrirtækinu.
Forstjóri er Helgi Jóhannesson.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd