Sveitarfélagið Norðurþing varð til við sameiningu fjögurra sveitarfélaga, Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps, árið 2006. Innan Norðurþings eru þrír þéttbýliskjarnarnir, þar er Húsavík við Skjálfandaflóa fjölmennasti staðurinn. Við hvorn enda Melrakksléttu eru svo Kópasker og Raufarhöfn. Sjávarútvegur, þjónusta og sívaxandi ferðaþjónusta eru langstærstu atvinnugreinarnar í þéttbýlinu. Að auki eru sveitirnar Reykjahverfi, Kelduhverfi, Núpasveit og Öxarfjörður þar sem öflugur landbúnaður er stundaður.
Náttúran
Sveitarfélagið er ríkt af sérstæðri og fallegri náttúru sem nær yfir 17% landsins en þar eru þrjú friðlýst svæði sem teljast til náttúruminja. Vatnajökulsþjóðgarður, Dettifoss ásamt næsta nágrenni austan Jökulsár á Fjöllum er friðlýst sem náttúruvætti, svo sé ekki minnst á Ásbyrgi. Laxá í Aðaldal sem rennur að hluta um sveitarfélagið er ásamt Mývatni skráð sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði. Fjölskrúðugt fuglalíf er helsta einkenni í fánu Norðurþings. Fjölbreytileg búsvæði fyrir fugla eru innan sveitarfélagsins, m.a. afar lífrík votlendissvæði þar sem finna má fuglategundir sem eru fátíðar utan Þingeyjarsýslna. Þar má nefna fjölda andategunda sem verpa víða í Öxarfirði og við Víkingavatn í Kelduhverfi. Þá er einnig að finna mikinn fjölda sjófugla við ströndina og er Rauðinúpur mesta fuglabjargið en þar er m.a. að finna eitt af nokkrum súluvörpum landsins. Í Lundey á Skjálfanda og í Mánáreyjum eru stórar lundabyggðir og meðfram allri stönd Norðurþings er að finna fjölda máfategunda. Víðáttumiklar lyngheiðar í sveitarfélaginu eru búsvæði mikils fjölda mófugla, s.s. heiðlóu, spóa og rjúpu. Rjúpan er ein af einkennistegundum Þingeyjarsýslu og varp-þéttleiki hvergi meiri á landsvísu. Rjúpan er aðalfæða fálkans en hvergi er jafn mikið af honum og hér. Á Melrakkasléttu er eitt stærsta varp sendlings á Íslandi. Nýlega hefur verið komið upp þremur fuglaskoðunarhúsum í sveitarfélaginu í samstarfi við félagið Fuglastígur á Norð- austurlandi, eitt við Kaldbakstjarnir á Húsavík, eitt á Kópaskeri og það þriðja við Höskuldarnes á Melrakkasléttu. www.birdingtrail.is
Viðburðir
Í sveitarfélaginu eru haldnir ýmsir viðburðir og hátíðir sem flest allir eru haldnir árlega og má þar nefna bæjarhátíðir eins og Mærudaga á Húsavík, Hrútadaginn á Raufarhöfn og Sólstöðuhátíð á Kópaskeri. Menningarhátíðir eru einnig árlegar, t.a.m. á Raufarhöfn er haldin menningarvika og menningar- og markaðsdagar í Öxarfirði ásamt Skjálfanda – Listahátíð á Húsavík. Orkugangan sem er skíðagöngukeppni, Jökulsárhlaup og Sléttugangan á Mel-rakkasléttu eru fyrir þá sem vilja láta móðinn mása og njóta fallegrar náttúru um leið.
Húsavík
Húsavík er fallegur og vinalegur bær sem gott er að sækja heim og hefur á sl. árum orðið einn af helstu ániningarstöðum ferðamanna hér á landi og heimsækir fjöldi ferðamanna bæinn. Sækja þeir í vinalegt umhverfi, vinsælar hvalaskoðunarferðir út á Skjálfandaflóa og fjölbreytta afþreyingu, s.s. Sjóböðin, frábær söfn, gönguleiðir og nálægð við fjölmargar náttúruperlur svæðisins. Þjónusta er lykil atvinnuhátturinn hvort sem það er við ferðamann eða nærumhverfið. www.visithusavik.is
Kópasker
Kópasker er lítið þorp í Öxarfirði sem varð löggiltur verslunarstaður 1879 og hefur íbúafjöldi haldist stöðugur í gegnum árin sem rekja má að stórum hluta til þess að þar er miðstöð þjónustu fyrir nærliggjandi sveitir auk þorpsins. Í barnaskólahúsinu er starfrækt Skjálftasetrið þar sem ferðamenn geta fræðst um þær miklu jarðhræringar sem dundu á héraðinu 1975 og 1976 og enduðu með stóra Kópaskersskjálftanum 13. janúar 1976. Slátur- og kjötvinnsla á vegum Fjallalambs er fjölmennasti vinnustaðurinn og er staðsett á Röndinni, sjávarkambi suður af þorpinu, þar sem er að finna merkar jarðfræði-minjar, meðal annars setlög með steingervingum. Talsverður uppgangur er í fiskeldi.
www.northiceland.is/is/north/town/kopasker
Raufarhöfn
Raufarhöfn, nyrsta kauptún landsins, á sér mikla sögu og er nefnd þegar í Íslendingasögum, og þá jafnan í sambandi við kaupför. Hansakaupmenn lögðust þar að og síðar Hollendingar eftir aldamótin 1700. Um og eftir 1960 varð Raufarhöfn ein stærsta síldarsöltunarstaður landsins með tilheyrandi uppgangi. Raufarhafnarkirkja er fyrir botni hafnarinnar þar sem fyrsta byggð þorpsins var. Hún er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni. Skammt frá er Hótel Norðurljós, kaffihús og verslun. Stærsti vinnustaðurinn er fiskvinnsla á vegum GPG á Húsavík.
Heimskautsgerðið er sprottið upp úr vangaveltum Erlings Thoroddsen um hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina. Inn í þessum vangaveltum kom hugmyndin að nota dvergatal Völuspár og Snorra Eddu og dusta rykið af fornum sagnaheimi og færa til nútíðar. Utan um þennan hugarheim rís Heimskautsgerðið á Melrakkaási við Raufarhöfn. Haukur Halldórsson listamaður tók þátt í hugmyndavinnu með Erlingi, gerði skissur og líkan sem stuðst er við.
www.arctichenge.com
Sveitirnar
Sveitir Norðurþings, Kelduhverfi, Öxarfjörður og Reykjahverfi eru einnig blómlegar og stöndugur landbúnaður stundaður þar ásamt ýmiskonar starfsemi og hefur þjónusta við ferðamenn aukist með árunum.
Aðeins eitt ráð er til að kynnast Norðurþingi nánar – koma í heimsókn og upplifa svæðið.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd