Flugfélagið Norlandair á Akureyri hefur einungis verið starfrækt í 13 ár en stendur sannarlega á gömlum merg; félagið byggir á mjög langri hefð og sinnir bæði áætlunar- og leiguflugi á Íslandi og Grænlandi. Fyrsti kafli þeirrar sögu sem starfsmenn Norlandair skrifa dag hvern var ritaður fyrir rúmum sex áratugum, árið 1959, með stofnun Norðurflugs á Akureyri, sem varð að Flugfélagi Norðurlands (FN) 1974. FN hóf að sinna leiguflugi á Grænlandi strax ári síðar og segja má að þá hafi í raun verið plægður sá akur sem félagið og síðar Norlandair hafa sáð í allar götur síðan, liðlega hálfan fimmta áratug. Umsvifin á Grænlandi voru ekki mikil framan af en jukust smám saman, samhliða miklum uppgangi þar, og nú er svo komið að verkefni tengd Grænlandi er stærsti þáttur í starfsemi Norlandair. Rekstrarumhverfi flugrekenda á Íslandi breyttist mikið árið 1997 þegar innanlandsflug var gefið frjálst, en allt hafði áður verið háð sérleyfum. Vegna breytinganna sameinuðust Flugfélag Norðurlands og innanlandsdeild Flugleiða, og til varð Flugfélag Íslands. Báðar Twin Otter vélar Flugfélags Norðurlands voru áfram gerðar út frá Akureyri og allt viðhald vélanna fór þar fram, auk þess sem leiguflugsdeildinni var stjórnað þaðan.
Það var svo árið 2008, þegar forsvarsmenn Flugfélags Íslands ákváðu að selja báðar Twin Otter vélarnar, að nokkrir starfsmenn félagsins, með Friðrik Adólfsson í fararbroddi, stofnuðu nýtt félag, Norlandair ásamt hópi fjárfesta, og tóku við rekstri vélanna. Friðrik var á sínum tíma sölustjóri Flugfélags Norðurlands en deildarstjóri leiguflugsdeildar Flugfélags Íslands frá stofnun þess félags. Friðrik hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Norlandair frá upphafi. Vert er að geta að nafn hins nýja félags var ekki tilviljun; Flugfélag Norðurlands hafði notað það í erlendum samskiptum á sínum tíma og viðeigandi þótti að tengja hið nýja félag sögunni á þennan táknræna hátt.
Starfsemin
Norlandair var stofnað með það að markmiði að halda áfram leiguflugi á Grænlandi og gera út frá Akureyri. Stofnendum var einnig ofarlega í huga að halda á Akureyri sem flestum þeirra mörgu starfa tengdum flugrekstri sem höfðu orðið til í áranna rás í merkilegri flugsögu bæjarins. Meðal annars þess vegna kom félagið að stofnun viðhaldsfyrirtækisins, Arctic Maintenance. Það félag sér alfarið um viðhald á vélum Norlandair. Strax við stofnun runnu tvö félag inn í Norlandair; Fjarðarflug, sem rak eina vél og sinnti einkum útsýnisflugi auk leiguflugs innanlands, og Norðanflug, sem stofnað hafði verið í þeim tilgangi að flytja ferskan fisk úr landi. Í upphafi var Norlandair með þrjár vélar í rekstri; Twin Otter vélarnar tvær og GA8 Airvan en flotinn stækkaði smám saman í takt við aukin umsvif. Í dag rekur Norlandair þrjár Twin Otter vélar og tvær vélar af gerðinni Beech 200 King Air, níu sæta, hraðfleygar vélar með jafnþrýstibúnaði. Þá er Norlandair hluthafi í Circle Air sem sinnir útsýnisflugi á GA8 Air Van vél.
Árið 2013 hóf Norlandair áætlunarflug milli Akureyrar og Constable Point á austurströnd Grænlands, 2016 tók félagið í fyrsta skipti þátt í útboði á vegum grænlensku landstjórnarinnar og í kjölfarið var samið við Norlandair sem síðan hefur flogið tvisvar í viku allt árið um kring á milli Akureyrar og Constable Point 104 ferðir á ári. Sá samningur Norlandair og landstjórnarinnar var á síðasta ári framlengdur til 10 ára. Norlandair hefur um árabil haldið úti áætlunarflugi frá Akureyri til Vopnafjarðar, Þórshafnar og Grímseyjar. Á síðasta ári jókst umfangið enn þegar Vegagerðin samdi við félagið um að taka einnig að sér áætlunarflug á milli Reykjavíkur og bæði Bíldudals og Gjögurs. Að auki sinnir Norlandair leiguflugi bæði innanlands og á Grænlandi, þar sem umsvifin hafa lengi verið mikil. Félagið hefur í fjölda-
mörg ár flogið með vísindamenn og ýmiskonar rannsakendur um Grænland, þar sem Twin Otter vélarnar hafa reynst afburða vel, enda löngu vitað að engar vélar standast þeim snúning við slíkar aðstæður, hvort sem sett eru undir þær stór hjól í því skyni að lenda á óhefðbundnum og erfiðum stöðum, ellegar skíði svo lenda megi á jökli. Opinberar stofnanir, grænlenskar og danskar, hafa lengi verið í hópi viðskiptavina Norlandair, svo sem danski herinn, háskólar, ráðuneyti og sjúkrahús. Þá hefur félagið árum saman flogið með starfsmenn fyrirtækja sem stunda rannsóknir fyrir námafyrirtæki. Þau tímamót urðu í sögu Norlandair árið 2011 að Air Greenland bættist í hluthafahópinn og þá eignaðist félagið þriðju Twin Otter vélina. Með tilkomu grænlenska flugfélagsins jukust enn verkefni Norlandair þar í landi, ekki síst á vesturströndinni.
Starfsmenn, stjórnendur og velta
Fyrir 10 árum voru átta fastráðnir flugmenn hjá Norlandair, flestir urðu þeir 16 á þeim áratug sem liðinn er en fækkaði eftir að Covid-19 heimsfaraldurinn skall á. Þeim hefur fjölgað á ný og eru nú 13 og starfsmenn á skrifstofu eru 7. Framkvæmdastjóri Norlandair er Friðrik Adólfsson sem fyrr segir. Stjórnarformaður er Flemming Glyager og aðrir í stjórn Mogens Errebo Jensen, Sverrir Gestsson, Hans Peter Hansen og Baldvin Birgisson. Velta félagsins árið 2019 var um 1,2 milljarðar króna, þar af 70% vegna leiguflugs og 30% vegna áætlunarflugs.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd