Nova ehf.

2022

Nova opnar fólki dyr að stærsta skemmtistað í heimi – internetinu!
Nova er íslenskt þjónustufyrirtæki sem veitir fjarskipta- og samskiptaþjónustu. Hlutverk Nova er að styðja við síbreytilegan lífsstíl viðskiptavina og gera þeim kleift að nýta tímann betur. Nova hf. var stofnað í maí 2006. Í lok mars 2007 fékk Nova úthlutað 3G rekstrarleyfi og opnaði svo formlega 1. desember 2007. Síðan þá hefur Nova lagt ofuráherslu á að hlaupa hratt og vera fyrst með nýjungarnar á dansgólfið fyrir viðskiptavini sína. Nova var fyrst allra íslenskra símafyrirtækja til að bjóða upp á 4G, 4.5G og nú síðast 5G. Nova á og rekur eigið 4G/4.5G farsíma- og netkerfi á landsvísu og í febrúar 2019 hóf Nova prófanir á fyrsta 5G sendinum á Íslandi. Þann 5.5.2020 fór Nova í loftið með 5G farsíma- og netþjónustu, fyrst allra farsímafyrirtækja á Íslandi og uppbygging á 5G kerfi Nova er á fullri ferð. Árið 2016 bætti Nova ljósleiðaraþjónustu í vöruframboð sitt sem byggir á ljósleiðarakerfi Gagnaveitunnar. Ljósleiðari hjá Nova styður 1000 Mb/s hraða, sem er mesti hraði í heimatengingum á Íslandi. Nova ryður braut nýrrar fjarskipta- og samskiptatækni á Íslandi, snjallvæðir íslensk heimili og einfaldar fólki lífið í leik og starfi með hjálp tækninnar. Við TRÚUM á þráðlausa framtíð og ætlum okkur að leiða hana.
Margrét Tryggvadóttir er forstjóri og hefur hún gjarnan kallað sig skemmtanastjóra í stað forstjóra. Menning Nova einkennist af árangri, stemningu og gleði.

Skipulag og sérstaða
Sérstaða Nova er kúltúr starfsfólksins, tónn vörumerkisins og loforðið um að vera alltaf skemmtileg, samhliða því að veita framúrskarandi þjónustu. Tónn Nova er rétt eins og fyrirtækið sjálft, ferskur, öðruvísi og skemmtilegur en á sama tíma jákvæður og skýr. Við viljum svara hratt og vel og skilja eftir góða upplifun og ánægju. Við erum meðvituð um tóninn okkar og áferð allra skilaboða hvar sem við komum þeim á framfæri. Frá upphafi hafa meginmarkmið Nova verið fjögur; Að vera í hópi þriggja bestu þjónustufyrirtækja á Íslandi, vera á meðal sterkustu vörumerkja á Íslandi, besti vinnustaður í heimi og síðast en ekki síst best á netinu. Með þessi markmið að leiðarljósi hefur Nova vaxið og dafnað frá árinu 2006 með gleðina að vopni. Nova hefur átt ánægðustu viðskiptavinina í farsímaþjónustu skv. Íslensku ánægjuvoginni sl. 12 ár, verið í hópi fyrirmyndarfyrirtækja VR, hlotið nafnbótina Fyrirtæki ársins á vegum VR sl. tvö ár og verið valið markaðsfyrirtæki ársins í þrjú skipti að af ÍMARK.
Grunnhugmynd viðskiptamódels Nova er að trúa á snjalla framtíð og vera það fyrirtæki sem markaðurinn vill á hverjum tíma, ekki ýta á móti kröfum markaðarins með það fyrir augum að verja gamalt viðskiptamódel. Þannig leggur viðskiptamódelið grunninn að sérstöðu Nova og getum við því með beinum hætti bent markaðnum á gamaldags vöruframboð og markaðsnálgun samkeppninnar. Við horfum til framtíðar og segjum „Ekki vera risaeðla!” Viðskiptamódel Nova er því á sama tíma sérstaða Nova og undirstaða vörumerkisins sem skapar forskot. Því er komið til skila með sterkum tóni sem skapar ásýnd með sérstöðu gagnvart samkeppninni.
Sjálfbærni og umhverfi
Neikvætt fótspor Nova tengist minna umhverfinu en meira óraunhæfum staðalímyndum, stanslausu skruni, ofnotkun skjátíma og þeim neikvæðu afleiðingum sem samfélagsmiðlar geta haft í för með sér. Farsíminn og internetið eru nauðsynleg tæki en óhófleg notkun á sér dimmari hliðar, eins og með margt annað. Nova vekur athygli á þessum neikvæðu hliðum á „Novalegan” hátt. Þegar kemur að umhverfismálum þá vegur þyngst að við bjóðum viðskiptavinum að „Endurgræða” gömul símtæki og höfum nú þegar „Endurgrætt” á annan tug þúsunda símtækja þar sem gömlu tækjunum er komið í grænt og vænt ferli. Engu er hent sem hægt er að nýta. Tæki sem hægt er að laga eru gerð upp og önnur tæki eru notuð í varahluti. Það sem ekki er hægt að endurnýta fylgir WEEE (Waste Electrical and Electronic Equipment) reglugerðinni frá Evrópusambandinu um hvernig skal endurvinna öll raftæki. Nova hefur kolefnisjafnað sinn rekstur í samvinnu við Votlendissjóð.

Nova liðið
Í dag starfa 163 einstaklingar hjá Nova, sem oftast eru kallaðir dansarar. Hjá Nova er mikið lagt upp úr því að efla fólk í starfi, tryggja starfsþróun og verðlauna frumkvæði. Margir stjórnendur Nova í dag hófu einmitt störf sín í sölu & þjónustu. Samskipti milli starfsmanna og deilda eru óformleg, það eru allir í sama liðinu. Stjórnunar- og starfsmannastefna Nova er einföld: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig, vertu góð fyrirmynd og láttu verkin tala.
Góð liðsheild er lykilinn að árangri Nova. Hjá Nova er lögð áhersla á leikgleðina. Innanhúss eru fjölbreyttir viðburðir og enginn dagur er eins. Nova fagnar sigrunum með diskó, gimmeri og gleðisprengjum en starfsfólk Nova er árangursdrifið og mikið keppnisfólk sem sprengir skalann í hvert skipti. Ánægt starfsfólk skapar besta vinnustað í heimi og þar af leiðandi ánægðustu viðskiptavinina en Nova hefur átt ánægðustu viðskiptavinina í farsímaþjónustu 12 ár í röð skv. Íslensku ánægjuvoginni.

Aðsetur
Verslanir Nova eru í Lágmúla 9, Kringlunni, Smáralind, Akureyri og Selfossi. Símaver og skrifstofur eru til húsa í Lágmúla 9. Hjá Nova er lokað á sunnudögum en lokunin er hugsuð til þess hvetja landsmenn til þess að logga sig út, fara út að leika með vinum og fjölskyldu og njóta lífsins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd