Nýsprautun ehf

2022

Nýsprautun ehf. er bílaverkstæði sem annast almennar bílaviðgerðir, bílaréttingar, bílasprautun og hefur einnig með höndum bílasölu. Félagið var stofnað 1999 af þeim Sverri Gunnarssyni og Magnúsi Inga Jónssyni, en frá 2001 hefur Sverrir Gunnarsson verið einn eigandi félagsins. Í upphafi keypti Nýsprautun áhöld og tæki af BG Bílakringlu og tók á leigu rúmgott húsnæði þess félags, en um var að ræða fullbúið réttingar- og málningarverkstæði sem þótti bylting á sínum tíma. Árið 2005 flutti Nýsprautun úr Grófinni að að Fitjum, eða Njarðarbraut 15 í Reykjanebæ, en þá hafði félagið fest kaup á viðkomandi fasteign og sett upp fullbúið réttingar- og sprautuverkstæði. Fyrrgreindar breytingar lutu að því að gera reksturinn markvissari og skilvirkari.

Vinnulag og framleiðsluferli
Vinnuaðferðir hafa breyst á þessum árum og eru viðgerðir orðnar flóknari, tæknilegri og krefjast því enn meiri sérhæfingar og tæknimenntunar. Þar má nefna aukna hlutdeild rafmagnsbíla en í viðgerð slíkra bíla þá þarf að aftengja í þeim allt rafmagn vegna háspennu, áður en unnið er við burðarvirki. Þá hefur kostnaður við viðgerðir aukist, þar sem allur búnaður bifreiða er nú dýrari en áður var vegna aukinna gæða- og öryggiskrafna. Nýir verkferlar hafa því verið innleiddir með nýjum tækjum og efnum. Þá er reynt að nýta alla þá endurmenntun og námskeið sem bjóðast, þótt vissulega megi alltaf gera betur. Þörf væri á aukinni fræðslu frá umboðunum þegar nýir bílar koma á markað til að stuðla að bættri þjónustu.

Velta og hagnaður
Fyrsta árið var velta félagsins 47 milljónir, en 2020 var veltan komin í um 295 milljónir að bílasölunni meðtalinni. Veltuauknig milli áranna 2019-2020 var þannig 59,5% en velta hinnar nýju einingar, bílasölunnar kemur þar sterk inn í myndina. Covid hefur haft talsverð áhrif á rekstur Nýsprautunar eins og önnur fyrirtæki en félagið hefur ekki þurft að nýta sér rekstrarleg úrræði stjórnvalda, eins og fjölmörg fyrirtæki hafa þurft að gera. Covid tímabilið hafði í för með sér gríðarlega fækkun tjóna sem, m.a. hafði áhrif með þeim hætti á rekstur Nýsprautunar.

Framtíðin
Viðfangsefnin framundan eru fjölbreytt í takt við þróun bifreiða og þær nýjungar sem henni fylgja. Stefnt er að því að auka þjónustuna enn frekar og gera hana skilvirkari með stafrænum hætti svo sem með innleiðingu fleiri gæðakerfa og staðla, m.a. í samstarfi við Bílgreinasambandið, en Nýsprautun hefur frá upphafi verið aðili að þeim samtökum.
Rafbílavæðingin er nú í næstu framtíð helsta áskorunin, en jafnframt er horft til bíla sem nota aðra orkugjafa, s.s. metanbíla. Áskorun framtíðarinnar er eins og svo oft áður háð óvissunni í þróun tækni og búnaðar en því er nauðsyn að efla endur- og símenntun starfsmanna, fylgja tækniþróun í tækjum og búnaði þannig að Nýsprautun verði sem best undirbúin undir þær áskoranir sem framtíðin ber í skauti sér.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd