Ó.K. gámaþjónusta – sorphirða ehf

2022

Reksturinn hófst 1. júní 1988 þá var byrjað að hirða sorp frá heimilum á Sauðárkróki. Árið 1990 voru fest kaup á fyrstu ruslagámunum, pressubíl og krókheysisbíl og hefur verið stöðug aukning allar götur síðan. í dag eru gámarnir um 200 stk. Árið 1998 er stofnað einkahlutafélag í kringum reksturinn og er það óbreytt síðan.

Sagan
Árið 1997 hóf félagið þjónustu við Siglufjarðarbæ um hirðu á húsasorpi og losun á gámaplani auk þjónustu við fyrirtæki. Þessi þjónusta stóð til 2009 þegar samningi lauk við sveitarfélagið Fjallabyggð en félagið þjónustar þó enn nokkur fyrirtæki á svæðinu.
Flokka ehf. er dótturfyrirtæki ÓK Gámaþjónustu. Það félag var stofnað 1. júní 2006. Á því ári hófst vinna við að kanna magn á endurvinnsluefnum á svæðinu, auk fjármögnunar og undirbúnings á byggingu á móttökustöð fyrir úrgang og endurvinnsuefni. Í byrjun júní 2007 var hafist handa við byggingu móttökustöðvarinnar að Borgarteig 12 og má segja að framkvæmdir hafi gengið mjög vel. Þann 22. febrúar 2008 fór formleg vígsla fram. Starfsemin hófst 1. mars 2008 og þá var gamla gámasvæðinu lokað. Flokka tekur á móti öllum úrgangi nema lífrænum. ÓK hefur séð um sorphirðu í Skagafirði síðan 1. júní 1988. Fyrsta árið sá ÓK aðeins um sorphirðu á Sauðárkróki, en í ársbyrjun 1990 voru fest kaup á pressubíl og gámum, og voru settir gámar í dreifbýli, og fyrirtæki tóku í notkun bæði gáma og kör. Þessi notkun hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin.

Þjónusta
ÓK þjónusta sér um flutning á rækjuskel frá Hólmavík, Hvammstanga og Sauðárkróki til Siglufjarðar.
Einu sinni í mánuði keyra menn frá ÓK um sveitir og sækja rúllubaggaplast sem þeir koma áfram til Flokku þar sem það er svo pressað og flutt til Hollands.
Einnig sér ÓK um að taka við brotajárni og bílum í förgun og koma því áfram í endurvinnslu. Við tökum olíur og önnur spilliefni af bílum og einnig hjólbarða.
ÓK Gámaþjónusta tekur að sér niðurrif á húsum og að koma því efni sem fellur til þar í lóg eða endurvinnslu.
Einnig er ÓK með timburtætara sem sér um að tæta niður garðaúrgang og koma í endurvinnslu. Brettaefni og heilt timbur er rifið niður í tætaranum og notað í gangstígaefni og blómabeð.

Salernisleiga
ÓK býður upp á salernisþjónustu fyrir viðburði af öllum stærðargráðum. ÓK kemur á staðinn með aðstöðuna, setur hana upp og sér síðan um að þjónusta salernin bæði í losun og þrif ef óskað er eftir.

Eigendur og stöðugildi
Flokka ehf. er dótturfyrirtæki Ó.K. gámaþjónustu ehf. Eigendur þess eru Ómar Kjartansson framkvæmdastjóri og Brynhildur Sigtryggsdóttir. Hjá Flokku eru 3 stöðugildi en hjá Ó.K. gámaþjónustu eru 7 stöðugildi.

Hvað hefur áunnist síðan Flokka opnaði
Taflan hér fyrir neðan sýnir í tonnum hversu miklu af endurvinnanlegu efni hefur verið tekið á móti frá því að Flokka opnaði 1. mars 2008. Þessi listi er uppfærður árlega.

Efni sem er móttekið og farið í endurvinnslu

Hvers vegna að flokka?
Til að halda umhverfinu okkar og jörðinni allri hreinni
Til að varðveita og fullnýta þann efnivið sem við höfum
Til að spara orku
Til að draga úr sorpi og ruslahaugum úti í náttúrunni
Til að auka líkurnar á að við getum skilað komandi kynslóðum jörð sem er enn lifandi, rík af auðlindum og vel með farin
Við erum að flokka til að ganga ekki endalaust á auðlindir jarðarinnar. Í stað þess að vera endalaust að höggva niður tré til að framleiða pappír, þá endurvinnum við þann pappír sem hefur þjónað sínu hlutverki, hvort sem það hlutverk hefur verið dagblað, kassi eða umbúðir utan af morgunkorni, nýtum svo pappírinn aftur í sama tilgangi. Við flokkum plast, bæði hart og lint, og sendum í endurvinnslu í stað þess að senda það í urðun á ruslahauga þar sem það tekur náttúruna hundruð ára að brjóta það niður.
Við flokkum til að eiga kost á að veita komandi kynslóðum þá framtíð sem við teljum þær eiga skilið, á jörð sem ennþá verður uppfull af auðlindum!
Hver starfsmaður vinnur í sínu „sóttvarnarhólfi“ vegna smitthættu á Covid. Þannig er tryggt að smit berist ekki á milli starfsmanna og að fyrirtækið sé starfhæft komi upp smit á einum stað.
Þar eð samningar við sveitarfélög eru nú lausir og á leið í útboð er framtíð fyrirtækisins nokkuð óljós þar til niðurstaða útboða liggur fyrir.

Fyrirtækið er aðili að Samtökum iðnaðarins. Fyrirtækið hefur verið á lista yfirframúrskarandi fyrirtæki ár hvert síðan 2014.

Aðsetur
ÓK gámaþjónusta – sorphirða ehf. er til húsa að Borgarflöt 15, Sauðárkróki.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd