ÖBÍ réttindasamtök eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi, stofnuð 5. maí 1961 af sex hagsmunafélögum fatlaðs fólks. Aðildarfélög ÖBÍ eru nú 41 talsins og eiga þau það sameiginlegt að gæta hagsmuna ólíkra fötlunarhópa og starfa á landsvísu. Hvert og eitt er með sérþekkingu á sínu sviði og veitir margskonar fræðslu og stuðning. Samanlagður félagafjöldi þeirra er um 47 þúsund manns.
ÖBÍ er einn eignaraðila Íslenskrar getspár og kemur rekstrarfé samtakanna að mestu þaðan. Þá er ÖBÍ stofnandi Örtækni, Brynju leigufélags og Hringsjár, náms-og starfsendurhæfingar. Einnig eru samtökin aðili að Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð og TMF Tölvumiðstöð. ÖBÍ skipar stjórn fyrrnefndra aðila að hluta eða öllu leyti.
Stjórn og aðsetur
Stjórn ÖBÍ er skipuð 19 einstaklingum frá aðildarfélögunum. Kjörtímabil hvers stjórnarmanns er tvö ár og er um helmingur stjórnar kosinn ár hvert. Stjórnin fundar mánaðarlega stærstan hluta ársins. Formaður ÖBÍ 2017-2023 er Þuríður Harpa Sigurðardóttir og varaformaður 2020-2022 er Bergþór Heimir Þórðarson. Framkvæmdastjóri er Eva Þengilsdóttir. Starfsmenn eru 21 í 15,5 stöðugildum. Starfsstöð ÖBÍ er í Sigtúni 42, en samtökin juku við eignarhluta sinn á árinu 2022 og eiga nú 75% húseignarinnar. Nokkur aðildarfélaga ÖBÍ hafa leigt skrifstofur hjá samtökunum, en með stærra húsnæði verður kleift að leigja mun fleiri aðildarfélögum aðstöðu. Hugmyndin er að í húsinu verði iðandi miðstöð mannréttinda.
Markmið
Markmið ÖBÍ er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku. Til að ná þessum markmiðum er réttinda- og hagsmunabarátta meginstarfsemi ÖBÍ og fer hún fram með ýmsum hætti. Þar má nefna einstaklingsráðgjöf, samráð, aðhald og ráðgjöf við stjórnvöld ásamt fræðslu og vitundarvakningu. Leiðarstef í öllu starfi ÖBÍ er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Starfsemin
Hjá ÖBÍ starfa sérfræðingar sem veita einstaklingum sem til samtakanna leita ráðgjöf og aðstoð en ástæðurnar eru í grunninn þær sömu; að réttindi fólks til framfærslu eru brotin sem og önnur mannréttindi eða þá ekki virt af stjórnsýslunni, hvort sem er ríki, sveitarfélögum eða stofnunum. Helstu brotin nú, líkt og áður, varða lífeyrisréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins, og þá helst samspil greiðslna frá lífeyrissjóðum við örorkulífeyri. Önnur mál er varða til dæmis lögbundna þjónustu ríkis og sveitarfélaga eru meðal annars skortur á heima-þjónustu, liðveislu, heimahjúkrun, NPA, akstursþjónustu og aðstoð við fötluð og langveik börn í grunnskólum, auk almennrar heilbrigðisþjónustu. Stöku mál verða að dómsmálum, en þegar ÖBÍ tekur ákvörðun um að höfða mál fyrir dómstólum er tekið mið af því að það hafi fordæmisgildi og varði hagsmuni fjöldans. Dómsmálum hefur fjölgað jafnt og þétt en árið 2021 voru 22 mál rekin á ýmsum dómsstigum af ÖBÍ þar af tvö fyrir mannréttindadómstóli Evrópu, en stærstu áfangasigrarnir í hagsmunabaráttunni, virðast helst nást með atbeina dómstóla.
Grasrótarstarf er mjög mikilvægt samtökum sem þessum og er það öflugt innan ÖBÍ. Sex málefnahópar starfa innan samtakanna, málefnahópur um kjaramál, húsnæðismál, aðgengismál, heilbrigðismál, atvinnu- og menntamál og málefni barna. Hóparnir funda reglulega og eru mikilvægir því málefnastarfi sem samtökin vinna að. Málefnahóparnir standa fyrir málþingum um þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni, eða sem hóparnir telja brýnt að koma á dagskrá. Þeir koma að umsagnagerð, skrifa greinar og koma sínum málefnum á framfæri við ráðherra, ríki og sveitarfélög með atbeina formanns sem er talsmaður samtakanna. Að auki eru starfandi innan ÖBÍ kvennahreyfing og Ung-ÖBÍ.
Stór hluti af starfsemi ÖBÍ felst í að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf. ,,Ekkert um okkur án okkar“ eru kjörorð samtakanna, sem og fatlaðs fólks um heim allan, og í anda þeirra orða er það krafa fatlaðs fólks að merkingarbært samráð sé haft við það þegar stjórnvöld fjalla um réttindi þeirra. Í því samráði felst að ÖBÍ gerir umsagnir um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur og önnur mál tengd fötluðu fólki sem fyrir þinginu eða sveitarfélögum liggja. Þá eiga samtökin aðild að ýmsum opinberum nefndum sem hafa með málaflokkinn að gera. Jafnframt má nefna samstarfsverkefni stjórnvalda og ÖBÍ, en nú stendur yfir verkefni sem snýst um að sveitarfélög bæti aðgengi og ráði aðgengisfulltrúa. Þá eru notendaráð fatlaðs fólks í sveitarfélögum mikilvægur samráðsvettvangur og heldur ÖBÍ reglulega rafræna samráðsfundi þar sem fræðsla til notendaráða og samráð milli fulltrúa ráðanna fer fram. Auk þessa er mikið lagt upp úr beinum samskiptum við ráðamenn, sérstaklega þá ráðherra málaflokka sem snerta fatlað fólk. Fundir formanns ÖBÍ með félagsmálaráðherra eru þýðingarmiklir í merkingarbæru samráði, sem og fundir með heilbrigðisráðherra og öðrum ráðherrum eftir tilefni hverju sinni.
COVID-19 faraldurinn hafði mikil áhrif á fatlað fólk, og talsverð vinna var lögði í samráð við sveitarfélög og stjórnvöld til að tryggja smitvarnir í félagsþjónustu og þjónustu við fatlað fólk heima. Notendur NPA stóðu frammi fyrir mikilli áskorun þegar í ljós kom að til dæmis skorti viðeigandi hlífðarbúnað. Ekki síst voru áhrif af faraldrinum þau að margt fatlað fólk með undirliggjandi sjúkdóma fór í sjálfskipaða verndarsóttkví. Fátækt fatlaðs fólks varð líka enn ljósari. Í samtölum ÖBÍ við ýmsar hjálparstofnanir kom fram að mikil aukning hafði orðið í óskum um aðstoð, jafnvel allt að 60%.
Ljósmyndir: ÖBÍ og Ljósmyndir Rutar og Silju.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd