Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf.

2022

Fyrstu árin
Fyrsta lestarferðin á Íslandi var farin þann 17. apríl 1913, þegar fyrsta grjóthlassið var sótt úr Öskjuhlíð til hafnargerðarinnar í Reykjavík. Sama dag hóf Tómas Tómasson rekstur Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar í tveimur kjallaraherbergjum í Þórshamri við Templarasund. Umsvifin voru ekki mikil í fyrstu. Suðuketillinn var einungis 65 lítrar og flöskunum var lokað með því að þrýsta tappa í flöskustútinn með flötum lófa og binda fyrir með vír. Fyrsta framleiðsluárið seldi Ölgerðin um 38 þúsund lítra, mest Maltextrakt og Hvítöl. Íbúar Reykjavíkur voru þá um 13 þúsund talsins.
Samkvæmt söluskýrslum afgreiddi Ölgerðin 25 flöskur af Pilsner til Kaupfélags Hafnar-fjarðar þann 29. júní arið 1916. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið selt undirgerjað léttöl undir þessu heiti, en áður hafði Ölgerðin selt svipaðan drykk með nafninu „Egils mjöður“. Enn var tækjabúnaður fyrirtækisins þó ekki nægilega fullkominn til að framleiða undirgerjaðan léttbjór sem staðist gat samanburð við erlendan varning.
Tómas Tómasson hélt til Kaupmannahafnar á árinu 1915 til að læra ölgerð við Bryggeriet Stjernen sem og í Þýskalandi. Þar dvaldi hann að mestu næstu tvö árin. Heimkominn árið 1917 festi hann kaup á fyrstu húseigninni við Njálsgötu á reitnum milli Njálsgötu, Frakkastígs og Grettisgötu sem síðar hlaut nafnið „Ölgerðartorfan“. Næstu árin byggði hann þar upp fullkomið ölgerðarhús, gerjunar- og átöppunaraðstöðu, meðal annars með því að kaupa notaðan tækjabúnað frá Þýskalandi sem var í rjúkandi rúst vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Fullkominn gerkjallari var útbúinn á Ölgerðartorfunni við Njálsgötu og komið upp nýjum gerjunartönkum úr áli, sem þá var nýlunda í bruggheiminum. Þýskur bruggmeistari, Edward Meister, var fenginn til starfa. Með allt þetta að vopni tókst að endurbæta Pilsnerinn með þeim árangri að innan tveggja ára hafði innfluttu dönsku öli verið rutt út af markaðnum. Þegar Tómas Tómasson stofnaði Ölgerðina 1913 lá fyrir að áfengisbann gengi í gildi í ársbyjun 1915. Hann hóf framleiðslu á óáfengu maltöli og hvítöli og hefur maltölið alla tíð síðan verið einna vinsælastur allra drykkja á Íslandi. Ekki síst í bland við Egils Appelsín.

Þáttaskil við aldamót
Afkomendur Tómasar Tómassonar selja Ölgeröina sem verið hafði í eigu fjölskyldunnar í 87 ár. Tómas Tómasson, stofnandi Ölgerðarinnar, lést níræður að aldri. Hann bar hitann og þungann af rekstri fyrirtækisins frá stofnun þess og fram yfir sjöunda áratug síðustu aldar. Synir hans Jóhannes og Tómas tóku við keflinu og varð Jóhannes forstjóri Ölgerðarinnar frá 1975 til ársins 2000. Framkvæmdum við nýtt ölsuðuhús Ölgerðarinnar á Grjóthálsi lauk um áramótin 1999/2000. Við þau tímamót ákváðu erfingjar Tómasar Tómassonar að ljúka afskiptum sínum af fyrirtækinu, sem verið hafði í eigu fjölskyldunnar í tæp níutíu ár. Jóhannes Tómasson lét jafnframt af störfum eftir að hafa gegnt forstjóraembættinu í aldarfjórðung.
Nýr kafli í sögu Ölgerðarinnar hefst svo upp úr aldamótum er heildverslunin Lind kaupir Ölgerðina árið 2002. Lind var í eigu fjölskyldufyrirtækisins Danól sem var stofnað 1938 og var orðin ein öflugasta heildverslun landsins í mat-, sérvöru og áfengi. Eigendur Danól voru Einar F. Kristinsson og Ólöf Októsdóttir og framkvæmdastjóri var Októ Einarsson og tók hann við stjórnarformennsku Ölgerðarinnar. Andri Þór Guðmundsson tók svo við sem forstjóri Ölgerðarinnar sama ár.
Fyrstu árin voru Ölgerðin og Danól rekin í sitthvoru lagi en árið 2009 voru þau sameinuð í nýju lager- og skrifstofuhúsnæði sem var byggt undir starfsemina að Grjóthálsi. Fram að þeim tíma voru fyrirtækin staðsett á átta mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Með þessari sameiningu varð til eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði matvælaframleiðslu og innflutnings á drykkjar-, mat- og sérvöru.
Mikil vinna var lögði í að þróa bjórframleiðslu Ölgerðarinnar á fyrsta áratug aldarinnar. Meðal annars var farið að nota íslenskt bygg í bjóra fyrirtækisins, Bjórskólinn hóf göngu sína 2009 og hafa þegar tugir þúsunda Íslendinga svalað fróðleiksþorsta sínum um töfraheima bjórsins í bjórskólanum. Borg brugghús tók til starfa 2010 en tilgangur með því að setja á laggirnar örbrugghús var að skapa bruggmeisturum Ölgerðarinnar skemmtilegan vettvang til að þróa bruggunarhæfileika sína. Ölgerðin og Borg hafa sankað að sér fjölda verðlauna á alþjóðlegum bjórhátíðum og þar ber hæst er Gull var kosin heimsins besti lagerbjór árið 2011. Öll þessi vinna hefur leitt til þess að markaðsstaða Ölgerðarinnar hefur aldrei verið sterkari.
Ölgerðin hélt veglega upp á 100 ára afmæli fyrirtækins í Iðnó og Þjóðleikhúsinu í apríl 2013. Forstjóri Pepsico Indra Nooyi heiðraði fyrirtækið með heimsókn og fyrirlestri fyrir fullsetnu Þjóðleikhúsinu þar sem starfsmenn, viðskiptavinir og gestir voru viðstaddir. Í tilefni þessa stórafmælis réðst félagið í eitt hundrað samfélagsleg verkefni. Með þessu var hafin vegferð þar sem samfélagsleg ábyrgð var höfð að leiðarljósi til framtíðar. Má nefna að Ölgerðin var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem minnkar kolefnislosun sína um 40% fyrir árið 2030, en það háleita markmið náðist strax 2019.
Árið 2017 var 69% hlutur í Ölgerðinni seldur. Októ Einarsson og Andri Þór Guðmundsson héldu sínum hlut en fjárfestingarsjóðurinn Þorgerður ásamt 4 framkvæmdastjórum Ölgerðarinnar seldu sína hluti. Inn í eigendahópinn komur fjárfestingarsjóðirnir Horn III og Akur, framkvæmdastjórar Ölgerðarinnar ásamt nokkrum öðrum fjárfestum. Á þessum tímapunkti voru einnig byggingar Ölgerðarinnar keyptar til baka en þær höfðu verið seldar í fjárhagslegu uppgjöri félagsins eftir bankahrunið.

Mannauður og framtíðarsýn
Síðasta áratug hefur starfsmannafjöldi Ölgerðarinnar verið breytilegur eða á bilinu 350 til rúmlega 400 manns eftir aðstæðum. Fyrirtækið fylgist vel með ánægju starfsmanna og viðskiptavina með reglulegum mælingum. Þessi sterka liðsheild með framsæknu og skapandi fólki hefur skilað fyrirtækinu frábærum árangri á íslenska markaðnum. Undanfarin ár hefur mikil söluaukning ásamt breyttum neysluvenjum leitt til þess að framleiðslugeta fyrirtækisins var að nálgast þolmörk. Árið 2018 var hafin vinna við að endurskipuleggja framleiðslusali fyrirtækisins ásamt því að meta kosti nýbyggingar. Ákvörðun var tekin 2020 um að ráðast í 1700 fermetra nýbyggingu við Fossháls ásamt því að kaupa fullkomnasta framleiðsluvélbúnað sem kostur er á. Fyrsta skóflustunga að nýju verksmiðjuhúsi var tekin í upphafi árs 2021 og eru áætluð verklok 2022. Samtals er þetta fjárfesting fyrir ríflega 2,5 milljarða og mun framleiðslugetan ríflega tvöfaldast.
Ölgerðin hefur ávallt verið framsækið fyrirtæki. Framtíðarýn fyrirtækisins er skýr, sem er við erum „Fyrsta val viðskiptavina“. Gildin okkar, jákvæðni, áreiðanleiki, hagkvæmni og framsækni, eða JÁ HF eru öllum starfsmönnum ljós.
Markviss sókn á mörkuðum hefur skilað miklu undanfarin ár. Í dag er fyrirtækið leiðandi á gosdrykkja, safa-, áfengis- og bjórmarkaði ásamt því að innflutningsvörurnar njóta sterkrar stöðu á markaði. Enda er það stefna Ölgerðarinnar að „Að setja aðeins þau vörumerki á markað sem eru, eða hafa möguleika að vera fremst í sínum flokki“. Einnig hefur það verið eitt af lykilmarkmiðum fyrirtækisins að að minnsta kosti 5% framlegðar komi frá nýjum vörum á hverju ári.
Í dag er forstjóri Ölgerðarinnar Andri Þór Guðmundsson og stjórnarformaður er Októ Einarsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd