Olís ehf. var stofnað 1927 og er elsta fyrirtækið í samstæðu Haga með yfir 90 ára sögu, en Hagar eignuðust allt hlutafé í Olís síðla árs 2018. Olís sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti auk ýmissa nauðsynjavara fyrir bílaeigendur, vörum til útivistar og ferðalaga ásamt fjölþættri þjónustu við sjávarútvegs-, verktaka- og flutningafyrirtæki um land allt.
Olís á 40% hlut í Olíudreifingu ehf. en Olíudreifing sér m.a. um birgðahald og dreifingu á fljótandi eldsneyti fyrir Olís.
Árið 2020 rak Olís 69 þjónustu- og bensínstöðvar undir merkjum Olís og ÓB. Hjá fyrirtækinu störfuðu um 490 starfsmenn og framkvæmdastjóri var Jón Ólafur Halldórsson.
Samfélagi og umhverfi til góðs
Olís hefur í áratugi lagt ríka áherslu á umhverfisvernd og stuðning við verkefni sem auðga og efla samfélagið. Verkefnin hafa verið fjölbreytt í gegnum árin og má til að mynda nefna stuðning við verkefni til mannúðarstarfs, landræktunar og uppbyggingar menningar og íþrótta. Viðskiptavinir Olís hafa einnig tekið þátt í að styrkja fjölda verkefna með fjáröflunarátakinu Gefum og gleðjum. Meðal verkefna sem hlotið hafa góðs af fjáröfluninni eru Krabbameinsfélagið, Stígamót, Landsbjörg, Samhjálp, Geðhjálp og fjöldi annarra verkefna. Olís hefur einnig verið í samstarfi við Píeta samtökin sem berjast gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Olís er einn aðalstyrktaraðila Landsbjargar og hefur verið samfleytt frá árinu 2012. Fyrir utan beinan styrk Olís er eldsneytisverð til Landsbjargar mun lægra en gengur og gerist. Haldnir eru sérstakir fjáröflunardagar þar sem hluti af sölu eldsneytis rennur til Landsbjargar. Með þessu vill Olís tryggja að björgunarsveitir landsins séu vel búnar til að aðstoða Íslendinga og erlenda ferðamenn á ferð um landið. Olís hefur að auki boðið björgunarsveitum sérstaka neyðaraðstoð. Olís opnar afgreiðslustöðvar sínar að kvöld- og næturlagi ef björgunaraðgerðir eru í gangi svo björgunarsveitir hafi aðgang að eldsneyti og öðrum búnaði á öllum tímum sólarhringsins.
Olís er stoltur styrktaraðili úrvalsdeildar karla og kvenna í handknattleik. Samstarf Olís og HSÍ um deildina hófst árið 2013 og hefur verið farsælt alla tíð síðan. Samkomulagið var síðast endurnýjað í september árið 2020. Eitt af markmiðum samningsins er að efla handboltann á Íslandi og fjölga iðkendum. Allt sem stuðlar að hreysti, heilbrigði og heilnæmari lífsstíl fellur vel að stefnu fyrirtækisins.
Stórt skref var stigið árið 1995 þegar Olís, fyrst olíufélaga á Íslandi, mótaði sér viðamikla umhverfisstefnu. Umhverfisstefna Olís nær til allra starfsmanna Olís og sjálfstæðra aðila sem starfa fyrir félagið. Tekið skal mið af umhverfisvernd við meðferð á söluvörum, förgun úrgangsefna, endurnýtingu umbúða, vöruþróun, byggingu mannvirkja og val á rekstrarvörum. Olís telur nauðsynlegt að standa vörð um náttúru landsins og fyrirtækið leggur sitt á vogarskálarnar til að hver kynslóð skili landinu og auðlindum þess í betra horfi til þeirrar næstu.
Nýjar umhverfisvænni vörur og þjónusta
Síðustu áratugi hefur Olís lagt sérstaka áherslu á umhverfisvænni vörur. Olís var fyrst olíufélaga til að kynna á markað nýja umhverfisvæna díselolíu, VLO. Olían var einstök þar sem hún var vetnismeðhöndluð og allar framleiðsluaðferðir mun umhverfisvænni.
Árið 2010 kynnti Olís stefnu sína í fjölgun hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla. Var það liður í markmiði Olís um bætt aðgengi að umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkugjöfum. Fyrsta hraðhleðslustöð Olís fyrir rafbíla opnaði á þjónustustöð Olís á Selfossi árið 2014. Olís rak þá þegar tvær metan-afgreiðslur í Reykjavík og stöð á Akureyri í samstarfi við Norðurorku. Síðan hefur félagið markvisst unnið að fjölgun hraðhleðslustöðva um allt land.
Árið 2019 undirritaði Olís samning við Landgræðsluna um að kolefnisjafna allan rekstur félagsins. Olís hafði þá um árabil verið stærsti einstaki styrktaraðili landgræðslu á Íslandi þar sem að verkefnið var viðamikið. Áburði og fræjum var dreift úr flugvélum yfir stór svæði örfoka lands og gróðurauðna og þannig hafa þúsundir hektara lands verið græddir upp. Viðskiptavinir Olís hafa val um að kolefnisjafna eldsneytiskaupin með lágmarks tilkostnaði. Olís leggur til helming kostnaðarins á móti og náttúran, land og loftslag, nýtur ávinningsins.
Aukin áhersla á veitingasölu og sjálfsafgreiðslu
Olís hefur síðustu árin lagt aukna áherslu á veitingasölu og þægindi til áningar á þjónustustöðvum Olís um allt land. Á þjónustustöðvunum má finna fjölbreytta flóru veitinga og veitingastaðinn Grill66 sem er fyrir alla fjölskylduna. Á matseðli Grill66 eru girnilegir og safaríkir réttir, alvöru hamborgarar, samlokur, pizzur og fleira gómsætt. Einnig rekur Olís veitingastaðinn ReDi sem er skyndibiti sem vísar til ReDi flatbrauða með margvíslegu góðgæti til fyllingar.
Olís hefur síðustu árin fjölgað sjálfsafgreiðslustöðvum félagsins um allt land. Fyrsta sjálfsafgreiðslustöð ÓB, dótturfyrirtækis Olís, var opnuð við Fjarðarkaup í Hafnarfirði árið 1996. Markmið ÓB stöðvanna er að fjölga valkostum í eldsneytissölu á Íslandi en jafnframt að koma til móts við óskir viðskiptavina sem gjarnan vilja dæla sjálfir gegn lægra verði. Í hverjum mánuði eru nokkrar stöðvar í boði þar sem viðskiptavinir njóta 15 krónu afsláttar á hverjum lítra. Handhafar ÓB-lykils njóta allskyns fríðinda auk afsláttar á bensíni og sértilboða á þjónustu og vörukaupum hjá Olís, Max 1 og Poulsen svo dæmi séu nefnd.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd