Kapp

2022

KAPP á rætur sínar að rekja til ársins 1929 þegar Egill Vilhjálmsson hf. var stofnað fyrsta nóvember það ár. Um miðbik aldarinnar var Egill orðinn mjög áberandi í íslensku atvinnulífi en þá var hafin yfirbygging bíla og samsetning nýrra bíla hjá fyrirtækinu. Árið 1948 varð félagið hlutafélag og umsvifamesta félag landsins í þjónustu við bifreiðaeigendur og upp úr því hófst sala á hinum vinsælu Willys jeppum. Árið 1984 keyptu sjö starfsmenn mótor- og renniverkstæðishlutann og stofnuðu Egil Vélaverkstæði hf. Árið 1999 seldu eldri starfsmenn reksturinn þegar þeir hættu störfum. Nýir eigendur fóru að sækja inn á fleiri svið og deildaskiptingin fjölbreyttari: Framleiðsla og þjónusta við fiskvélar, véla- og mótorverkstæði, kæli- og frystitækjaverkstæði, verkstæði fyrir stærri heimilistæki, almennar viðgerðir. Á sama tíma tekur Freyr Friðriksson við rekstrinum. Árið 2009 var Egill vélaverkstæði sameinað Fiskvélum og tækjum og nafninu breytt í Egill ehf. Öll starfsemin var flutt í glæsilegt húsnæði að Miðhrauni 2 í Garðabæ. Árið 2013 kaupir Freyr og eiginkona hans, Elfa Valdimarsdóttir, Egil ehf. og breytir nafninu í KAPP ehf. Samhliða því er aukinn kraftur settur í sölu- og markaðsmál ásamt innflutningi á ýmsum vörum tengdum vélum og kælingu. Árið 2015 kaupir KAPP Optimar Ísland ehf. og OptimICE®. Með því opnast nýjar dyr inn í sjávarútveginn og í dag er KAPP að selja OptimICE® krapavélar um allan heim. Árið 2017 stofnar KAPP Kælifélagið í Vestmannaeyjum og ári seinna kaupir KAPP Staltech ehf. og með því bætist við ryðfrí stálsmíði, færibandasmíði ásamt ýmsum umboðum tengdum matvælavinnslu. Árið 2020 kaupir KAPP bifreiðaverkstæðið Kistufell sem einnig var með varahlutaverslun. Árið 2021 var lokið við byggingu nýrra höfuðstöðva að Turnahvarfi Kópavogi og árið 2022 opnaði KAPP útibú í eigin húsnæði í Þorlákshöfn.

Starfsemi KAPP
KAPP er fjölbreytt fyrirtæki sem byggir á nokkrum stoðdeildum. OptimICE® krapakerfið, sem er hannað og smíðað í KAPP, leysir flöguís af hólmi og hefur aukið gæði sjávarafurða til muna. Það er selt um allan heim og eru m.a. stærstu úrgerðarfélög Íslands, Bandaríkjanna og Rússlands að nota það bæði í skipum og vinnslu í landi. Söluskrifstofur KAPP eru í fimm löndum; Rússlandi, Bandaríkjunum, Mexico, Noregi og Frakklandi. Verkstæðisþjónustan, elsta deildin, býður bæði upp á renni- og vélaverkstæði. Kæliverkstæðið, stærsta deild KAPP sérhæfir sig í umhverfivænum lausnum. Flutningalausnir sinna viðgerðum og þjónustu á flutningabifreiðum ásamt því að vera með innflutning á Schmitz Cargobull flutningavögnum og kössum, DHollandia vörulyftur og Carrier kælikerfi fyrir allar gerðir bifreiða. Sala á frysti- og kæliklefum hefur stóraukist á síðustu árum enda hafa Incold klefarnir reynst einstaklega vel. Ryðfrí stálsmíði undir vörumerkinu Staltech sér um alla nýsmíði og sérhæfir sig í þjónustu við matvælaiðnaðinn. Gámainnflutningur frá Titan Containers er fjölbreyttur, flutningagámar, hýbílagámar og kæli- og frystigámar.

Eigendur og starfsfólk
KAPP er í eigu hjónanna Freys Friðrikssonar og Elfu Valdimarsdóttur. Starfsmenn eru rúmlega 40 og veltan árið 2020 var um 2 milljarðar. KAPP hefur verið heppið með starfsmenn og hafa sumir þeirra verið samfleytt í yfir fimmtíu ár sem hefur skilað sér í mikilli þekkingu á aðstæðum viðskiptavina og getu til að tryggja þeim ávallt bestu þjónustu. Vélvirkjar, rennismiðir, plötusmiður, vélvirkjar, vélstjórar, vérfræðinar, sölumenn, skrifstofufólk og tæknimenn eru í starfsliði KAPP. KAPP er eitt af 2% best reknu fyrirtækja á Íslandi skv. Credit Info og einnig Keldunni.

Viðfangsefni
Eins og fram hefur komið eru viðfangsefnin mjög fjölbreytt og viðskiptahópurinn stór. Oft taka margar deildir þátt í þeim þar sem áhersla er á að veita heildarlausnir til viðskiptavina.

Nokkur dæmi um viðfangsefni:

  • Sjávarútvegur – Alhliða lausn á allri kælingu bæði á sjó og í landi.
  • Fiskvinnslur – Hönnun, smíði og uppsetning á vinnslulínum, færiböndum, karahvolfurum ásamt kæli- og frystiklefum og gámum.
  • Matvælaiðnaður – Hönnun, smíði og uppsetning á ryðfrírri stálsmíði og færiböndum ásamt alhliða kæliþjónustu.
  • Flutningar – Sala, þjónusta og viðgerðir á vögnum, kössum, kælivélum, vörulyftum og gámagrindum.
  • Orkuver – Uppsetning á ammóníaks- og vélbúnaði fyrir varmdælur.
  • Matvöruverslanir – Sala, uppsetning og sólarhringsvakt á kælikerfum og frysti- og kæliklefum.
  • Vélaþjónusta – Alhliða viðgerðir á öllum vélum hvort sem er til sjávar eða sveita.
  • Íhlutir í vélar – Hönnun og smíði á íhlutum í vélar og tæki hvort sem er úr málmum eða plasti á renniverkstæðinu.
  • Kæliþjónusta erlendis – Hönnun, sala, uppsetning og viðhald um allan heim allt frá Suður Kóreu til Póllands og Grænlands.
  • Heildsölur – Kæli- og frystikerfi, sala, hönnun og þjónusta.

KAPP er árlega með bása á sjávarútvegssýningum í Rússlandi, Barcelona og Íslandi ásamt því að sækja sýningar í öðrum löndum. KAPP er einnig með árlega skötuveilsu fyrir viðskiptavini þar sem um fjögur hundruð manns mæta og njóta úrvals veitinga.

Einkunnarorð okkar
Einkunnarorð KAPP eru „Þú finnur traust í okkar lausn“ jafnt í stóru sem smáu enda trúum við því að góð þjónusta sé lykill að góðri samvinnu við viðskiptavini.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd