Aðdragandi að stofnun Orkubús Vestfjarða
Fyrsta vatnsaflsstöðin á Vestfjörðum var reist á Geirseyri við Patreksfjörð árið 1911 þegar Jóhannes J. Reykdal trésmiður setti þar upp rafstöð fyrir Pétur A. Ólafsson útgerðarmann. Bílddælingar fengu rafstöð 1918 og flest önnur byggðarlög á Vestfjörðum voru komin með eitthvert rafmagn um og eftir 1920. Vestfirðingar áttuðu sig snemma á mikilvægi þess að efla raforkuframleiðslu og fóru fljótlega að ræða samstarf um raforkuöflun í fallvötnum fyrir botni Arnarfjarðar. Á næstu árum var lagt talsvert fjármagn í rannsóknir og undirbúningsvinnu vegna mögulegra virkjanaframkvæmda en það var þó ekki fyrr en 1954 að málið komst á skrið fyrir alvöru þegar þingmenn Vestfjarða lögðu fram frumvarp til Iaga um allt að 7000 hestafla raforkuver í Arnarfirði við Dynjandisá er skyldi þjóna öllum Vestfjörðum. Var frumvarpið samþykkt sem lög 8. apríl 1954 en niðurstaðan varð sú að virkja í Mjólká og var Mjólkárvirkjun gangsett í lok júlí 1958, 2400 kW að stærð.
Tillaga um stofnun Orkubús Vestfjarða var fyrst lögð fram á aukaþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga í júní 1975. Þar var gert ráð fyrir að Orkubú Vestfjarða yrði sjálfseignarstofnun með sérstakan fjárhag, reikningshald og réttarstöðu. Í framhaldinu skipaði iðnaðarráðherra nefnd til að vinna að málinu og skilaði hún tillögum í lok mars 1976. Var þar annars vegar um að ræða tillögu að frumvarpi til laga um Orkubú Vestfjarða og hins vegar tillögur um framkvæmdir í orkumálum ásamt ítarlegri úttekt. Var frumvarpið samþykkt og afgreitt sem lög frá Alþingi 18. maí 1976. Í lögunum var kveðið á um að ríkissjóður og sveitarfélög á Vestfjörðum stofnuðu orkufyrirtæki er nefndist Orkubú Vestfjarða þar sem eignarhlutur ríkisins væri 40% og eignarhlutur sveitarfélaganna 60%. Rafmagnsveitur ríkisins og ríkissjóður, svo og orkuveitur sveitarfélaga á Vestfjörðum skyldu afhenda Orkubúinu til eignar sem stofnframlag öll mannvirki og dreifikerfi sín á Vestfjörðum.
Stofnfundur og fyrsta stjórnin
Stofnfundur Orkubús Vestfjarða haldinn á Ísafirði 26. ágúst 1977. Í fyrstu stjórn fyrirtækisins sátu Guðmundur H. Ingólfsson, formaður, Jóhann T. Bjarnason, varaformaður, Össur Guðbjartsson, ritari, Engilbert Ingvarsson, meðstjórnandi og Ólafur Kristjánsson, vararitari. Fyrirtækið tók formlega til starfa 1. janúar 1978 og fljótlega var Kristján Haraldsson verkfræðingur ráðinn í starf framkvæmdastjóra. Setja þurfti fyrirtækinu reglugerð, vinna skipurit, samræma gjaldskrár, samræma störf og skapa hinu nýstofnaða fyrirtæki starfsaðstöðu. Var það í fyrstu með skrifstofuaðstöðu í Hafnarstræti 7 á Ísafirði en flutti í nýtt húsnæði á Stakkanesi sumarið 1980. Hafist var handa við framkvæmdaáætlun með áherslu á byggingu Vesturlínu til að tengja Vestfirði aðalorkuflutningskerfi landsins, einnig uppbyggingu öflugs dreifikerfis og fjarvarmaveitna. Frá árinu 2002 hefur Orkubú Vestfjarða ohf. verið að fullu í eigu ríkisins.
Núverandi stjórn, stjórnendur
Núverandi stjórn Orkubús Vestfjarða skipa þau Illugi Gunnarsson, formaður, Friðbjörg Matthíasdóttir, varaformaður, Elsa Kristjánsdóttir, ritari, Gísli Jón Kristjánsson og Eiríkur Valdimarsson.
Starfsfólk
Starfsmenn Orkubúsins eru í dag rúmlega 60 talsins. Starfsemin nær til allra Vestfjarða og hefur Orkubúið megin starfsstöðvar á Ísafirði, Hólmavík og á Patreksfirði, en starfsmenn eru einnig staðsettir á fleiri þéttbýlisstöðum innan Vestfjarða. Aðalskrifstofur Orkubúsins eru á Stakkanesi 1 á Ísafirði. Í skipuriti er starfseminni skipt upp í þrjú svið auk eftirlitsdeildar.
Orkubússtjóri er Elías Jónatansson, en aðrir helstu stjórnendur eru Bjarni Sólbergsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Halldór V. Magnússon, framkvæmdastjóri veitusviðs,
Sölvi R. Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs og Ragnar Emilsson, ábyrgðarmaður rafveitu og deildarstjóri eftirlitsdeildar.
Starfsemin
Frá upphafi hefur tilgangur félagsins verið að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, eiga og reka orkuver og raforkustöðvar til raforkuframleiðslu, ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar, jarðvarmavirki og fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi, stunda virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir og tilheyrandi rekstur. Orkubú Vestfjarða hefur sérleyfi til reksturs dreifiveitu á Vestfjörðum. Þar sem fjöldi íbúa á dreifiveitusvæðinu er innan við 10.000 er veitunni jafnframt heimilt að stunda aðra starfsemi, s.s. að byggja og reka orkuver.
Orkuöflun og sala
Orkubú Vestfjarða á og rekur 8 virkjanir sem eru mjög mismunandi að stærð. Ef horft er út frá framleiðslu þá framleiðir minnsta virkjunin einungis 0,5% af framleiðslu þeirrar stærstu. Mjólkárvirkjun sem samanstendur af Mjólká 1, 2 og 3 er með 11,2 MW ástimplað afl og framleiddi 73,5 GWst á árinu 2020, næst kemur Þverárvirkjun með 2,2 MW afl og 7,3 GWst ársframleiðslu, þá koma Fossárvirkjun með 1,2 MW afl og 6 GWst ársframleiðslu og Tungudalsvirkjun með 5 GWst ársframleiðslu. Smærri virkjanirnar, Reiðhjallavirkjun, Nónvirkjun, Blævardalsárvirkjun og Mýrárvirkjun eru samtals með 1,4 MW afl og 5,3 GWst framleiðslu á ári.
Orkuöflun Orkubúsins á árinu 2020 var samtals 275,2 GWst. Þar af 171 GWst vegna raforkusölu. Eigin vinnsla Orkubúsins vegna raforkusölu var 98 GWst eða 57%. Orkuöflun vegna hitaveitusölu var 103 GWst, þar af var eigin framleiðsla 19 GWst í formi jarðvarma á Reykhólum og í Súgandafirði eða 18,7% en stærstur hluti orkunnar, 87 GWst, var keyptur í formi skerðanlegrar raforku frá Landsvirkjun, til hitunar á vatni í rafkötlum sem staðsettir eru í Bolungarvík, á Ísafirði, Súgandafirði, Flateyri og Patreksfirði, eða 81,3%.
Afhendingaröryggið
Gott raforkuöryggi á Vestfjörðum byggist í dag á því að stór hluti dreifikerfisins er kominn í jörðu. Helmingur orkunnar sem notuð er á Vestfjörðum er fluttur þangað um megin flutningskerfi raforku í eigu Landsnets. Þar sem einungis er um eina flutningsleið að ræða þá er varaafl tryggt innan svæðisins með öflugum varaaflsvélum í eigu Landsnets og Orkubúsins. Þannig er uppsett varaafl í dísilvélum meira en 100% af heildaraflþörf vegna afhendingar forgangsorku, en einnig er 100% varaafl fyrir rafkatla fjarvarmaveitnanna í formi olíukatla með sömu afkastagetu. Í áratugi hefur verið mikil umræða um aukningu raforkuöryggis á Vestfjörðum. Með stofnun Orkubúsins ásamt lagningu Vesturlínu og uppbyggingu fjarvarmaveitna sem kyntar voru með raforku voru tekin mikil framfaraskref fyrir rúmum 40 árum. Nú hefur stefnan verið sett á aukið öryggi flutningskerfisins, með tvöfaldri (N-1) tengingu á afhendingarstöðum Landsnets í meginflutningskerfi raforku. Þótt útfærslan á Vestfjörðum liggi ekki fyrir í smáatriðum á þessum tímapunkti, þá er stefnumörkunin afar mikilvæg fyrir Vestfirðinga.
Veitustarfsemin – jarðstrengjavæðing
Sérleyfi Orkubúsins til raforkudreifingar nær til allra Vestfjarða. Við stofnun fyrirtækisins var mikil áskorun fólgin í því að tengja saman fjölda sjálfstæðra rafveitna á Vestfjörðum, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu orðsins auk þess að tryggja næga orkuöflun fyrir atvinnustarfsemi og heimili í þéttbýli og dreifbýli. Mörg tækifæri eru á Vestfjörðum til aukinnar orkuöflunar, en nýting þeirra myndi efla afhendingaröryggið á svæðinu til muna. Stærstu truflanir í raforkukerfinu á Vestfjörðum eru yfirleitt vegna óveðurs. Með aukinni orkuframleiðslu í samræmi við eftirspurnina skapast mikil tækifæri til jarðstrengjavæðingar, sérstaklega á hærri spennustigum, sem annars er miklum takmörkunum háð. Mikil áhersla hefur verið á þrífösun dreifikerfisins í dreifbýli á undanförnum árum. Lagðir hafa verið strengir í jörð allt frá Hrútafjarðarbotni til Hólmavíkur. Ísafjarðardjúp hefur verið jarðstrengjavætt að stærstum hluta auk þess sem búið er jarðstrengjavæða frá Patreksfirði um Barðaströnd, allt í Flókalund. Þá er búið að leggja mikið af jarðstrengjum í Önundarfirði og Dýrafirði og er m.a. búið að tengja jarðstreng um Dýrafjarðargöng frá Mjólkárvirkjun að Þingeyri. Í mörgum tilfellum hefur Orkubúið átt gott samstarf við aðila sem eru að leggja ljósleiðara sem báðir hafa haft hag af. Þar má nefna sveitarfélög á Vestfjörðum, Neyðarlínuna og Mílu sem dæmi auk þess sem stjórnvöld hafa komið með sérstök fjárframlög í það verkefni. Enn er mikið verk fyrir höndum við þrífösun dreifikerfisins, en þar má nefna þrífösun í Árneshrepp og í Vestur-Barðastrandarsýslu, sunnan Patreksfjarðar auk Gufudalssveitar.
Orkuskiptin rafbílavæðing og nýsköpun
Orkubúið hefur komið upp hraðhleðslustöðvum víða á Vestfjörðum og mun fjölga þeim á árinu 2022. Þá hefur einnig verið komið minni hleðslustöðvum og ljóst er að því verkefni verður haldið áfram. Orkubúið lítur á það sem hlutverk sitt að taka þátt í orkuskiptum á Vestfjörðum með þessum hætti í samræmi við stefnu stjórnvalda. Kolefnisspor fyrirtækisins hefur verið reiknað og núna er unnið að markmiðssetningu varðandi kolefnisjöfnun starfseminnar og tímasettri áætlun um áfanga.
Orkubúið er stofnaðili að Bláma, ásamt Landsvirkjun og Vestfjarðastofu. Blámi er nýtt samstarfsverkefni á Vestfjörðum sem snýr að nýsköpun og þróun tækifæra í vetni, orkuskiptum og grænni verðmætasköpun tengdri starfsemi á Vestfjörðum. Verkefninu er ætlað að styðja við orkuskipti, t.d. í skipum og bátum og flutningum, skapa vettvang fyrir alþjóðleg tilrauna- og þróunarverkefni á sviði orkuskipta og starfa með fyrirtækjum og frumkvöðlum á svæðinu auk þess að eiga samstarf við háskóla, rannsóknastofnarnir og atvinnulíf.
Orkuöflun
Stöðugt er unnið að könnun á nýjum kostum til orkuöflunar. Orkubúið hefur kannað orkukosti víða á Vestfjörðum sem eru frá því að vera innan við 1 MW og upp í það að vera um og yfir 20 MW. Sýnt hefur verið fram á að efling orkuvinnslu innan Vestfjarða er einn mikilvægasti þátturinn í að auka afhendingaröryggið auk þess sem aukin orkuöflun skapar mörg ný tækifæri til atvinnusköpunar. Stöðugt er unnið að orkurannsóknum vegna nýrra virkjunarkosta á Vestfjörðum ásamt rekstri orkuvera. Fyrirtækið hefur aflað rannsóknarleyfa og unnið að athugunum á ýmsum virkjunarkostum, sem ávallt eru bornir saman við kaup raforku á markaði. Líkur eru á að virkjanakostir á Vestfjörðum séu nú að verða samkeppnisfærari við aðra kosti sem bjóðast á Íslandi.
Jarðvarmi
Orkubúið hefur verið virkt í jarðhitaleit á Vestfjörðum. Á allra síðustu árum hefur verið unnin ný áætlun um jarðhitaleit við alla helstu þéttbýlisstaði á Vestfjörðum. Þegar hefur verið leitað að jarðhita í Bolungarvík og á Flateyri, en leitin var án árangurs. Í Súgandafirði gegnir öðru máli. Þar var ákveðið að bora viðbótar vinnsluholu í jarðhitasvæðið að Laugum að afloknum rannsóknum. Borunin heppnaðist vel og reikna má með að nýja holan skili nægu heitu vatni fyrir íbúa í Súgandafirði auk þess sem nægt vatn verður til fyrir sundlaug og núverandi iðnaðarstarfsemi. Þá er borð fyrir báru fyrir talsverða fjölgun íbúa og/eða talsverða aukningu í iðnaðarstarfsemi sem nýtir sér heitt vatn. Á þeim stöðum þar sem jarðhitinn er þegar nýttur er stefnt að fjölnýtingu hans í meira mæli en nú er. Fullheitt vatn er þá notað til húshitunar og iðnaðar, en affallsvatnið notað í starfsemi sem nýtt getur vatn á lægra hitastigi.
Framtíðarsýn
Einstakt tækifæri er fyrir Ísland að verða sjálfbært í orkuöflun með því að verða virkur þátttakandi í orkuskiptum. Nýting innlendra auðlinda til framleiðslu á grænni orku í góðri sátt við náttúruna er eitt mikilvægasta verkefni orkufyrirtækjanna í landinu um leið og landsmönnum er tryggt aðgengi að orku á hagstæðu verði. Orkubú Vestfjarða vill gjarnan taka þátt í þeirri vegferð og leggja sitt af mörkum til að Vestfirðir verði sjálfum sér nógir hvað orkuöflun varðar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd