Uppruni fyrirtækisins nær aftur til sjöunda áratugarins er flutningssvið Landsvirkjunar sá um sérhæfða fjarskiptaþjónustu vegna orkustjórnkerfa fyrirtækisins. Það var svo árið 2000 í kjölfar afnáms einkaleyfis almennra fjarskipta að Fjarski ehf. var stofnaður um fjarskiptahluta Landsvirkjunar. Flutningssvið Landsvirkjunar bar ábyrgð á rekstri fjarskiptakerfisins á þessum tíma, en með tilkomu nýrra raforkulaga árið 2005 var flutningshlutinn gerður að sér fyrirtæki, sem í dag er Landsnet. Árið 2010 var tekin ákvörðun um að taka Fjarska af almennum markaði og í framhaldi af því voru markaðstengdar eignir félagsins seldar og var nafni félagsins breytt og hefur fyrirtækið verið rekið undir nafninu Orkufjarskipti hf. frá 1. janúar 2012.
Tilgangur
Tilgangur Orkufjarskipta er að eiga og reka öryggisfjarskiptakerfi sem hluthöfum er nauðsynlegt vegna reksturs raforkukerfa þeirra á landsvísu og leigja aðgang að því eftir því sem tök eru á og lög heimila.
Þjónusta
Félagið byggir tilvist sína á þörfum eigendanna með því að byggja upp og reka öryggismiðað fjarskiptakerfi byggt á ljósleiðaratækni, þar sem yfirsýn kerfisins er á einni hendi sem styttir boðleiðir, sem stuðlar að auknu öryggi og stuttum viðbragðstíma.
Mikil áhersla er lögð á öryggi kerfis Orkufjarskipta og í því augnamiði er kerfið byggt upp á þann hátt að raunverulegur aðskilnaður sé á milli almenna kerfisins og kerfis Orkufjarskipta, sem þýðir að kerfin fara ekki um sama ljósþráð, sem dregur úr hættu á innbrotum inn á kerfið. Þjónustutengdur fjarskiptabúnaður tekur og mið af þörfum viðskiptavina og viðhaldsvinna við kerfin er á þeirra forsendum. Kerfin fyrir orkustýringu og varnir eru að sama skapi aðskilin frá skrifstofukerfum fyrirtækjanna. Leiðarval lagna tekur fyrst og fremst mið af þörfum viðskiptavina og burðarlag kerfisins er óháð tækni sem notuð er í almennu kerfunum, sem dregur úr hættu á þjónusturofi vegna örra tæknibreytinga í þeim kerfum.
Verkefni
Stærsta verkefni Orkufjarskipta undanfarin ár hefur verið uppbygging ljósleiðarakerfis sem tengir saman öll helstu orkuvirki og stórnotendur hringinn í kringum Ísland og er ljósleiðarakerfi Orkufjarskipta orðið um 1.800 km að lengd. Áætlað er að uppbygginu ljósleiðarakerfis sem mun mynda einskonar áttu um Ísland ljúki árið 2022. Við þau tímamót verður mögulegt að tengja notendur úr tveimur aðskildum áttum á ljósleiðurum sem mun auka rekstraröryggi til muna.
Eigendur og stjórnendur
Núverandi eigendur félagsins eru Landsvirkjun og Landsnet að jöfnum hlutum. Sá síðarnefndi gerðist aðili að félaginu eftir endurskipulagningu þess og breytingar á raforkulögum á árinu 2011 um heimild til þátttöku í slíku félagi. Núverandi stjórnarmenn eru Guðlaug Sigurðardóttir og Sverrir Jan Norðfjörð, fulltrúar Landsnets og Jóna Soffía Baldursdóttir og Einar Mathiesen, fulltrúar Landsvirkjunar. Orkufjarskipti eru með aðsetur að Krókhálsi 5c í Reykjavík og starfsmenn félagsins eru 9. Skipulagið er svokallað „lífrænt“ skipulag þar sem allir starfsmenn eru í beinni tengingu við framkvæmdastjóra. Slíkt skipulag býður uppá stystu mögulegar boðleiðir en krefst um leið mikils verkefnaþroska starfsmanna. Skipulagið hefur gefist vel enda allir starfsmenn reynslumiklir. Þriðjungur starfsmanna er með háskólamenntun og aðrir með iðnmenntun. Mikil fjölbreytni er í verkefnum og eru starfsmenn sérhæfðir í ákveðnum þáttum en ganga engu að síður í þau verk sem þörf er á hverju sinni.
Framkvæmdastjóri félagsins er Bjarni M. Jónsson og tók hann við rekstri félagsins í janúar 2011 er félagið var endurskipulagt.
Vinnulag og framleiðsluferli
Í upphafi var mikið notast við háspennusíma og örbylgjusambönd til samskipta við orkuvirki sem oft voru mönnuð svo bregðast mætti skjótt við bilunum. Þessi tækni hefur nú verið aflögð í okkar kerfum með tilkomu ljóstækninnar sem gefur mikla möguleika á fjarvöktun og fjarstýringu. Vegna eðlis starfseminnar þarf vinnuumhverfi að vera agað og innleidd var gæðastefna til að tryggja að gæði vöru og þjónustu væru í samræmi við væntingar viðskiptavina, samstarfsaðila og starfsmanna. Til að ná þeim markmiðum fór fyrirtækið í vottunarferli og hefur nú hlotið vottun ISO 9001, 14001, 27001 og 18001 staðla. Til að halda utan um upplýsingar varðandi ljóslagnir fyrirtækisins er notað fullkomið skráningarkerfi svokallað línubókhald. Fullkomið eftirlits- og stjórnkerfi fylgist með tæknibúnaði sem notaður er vegna starfseminnar og er hann vaktaður 24 tíma á sólarhring.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd