Orkusalan ehf. hóf formlega starfsemi sína 1. febrúar 2007. Orkusalan er dótturfyrirtæki RARIK og er tilgangur fyrirtækisins fyrst og fremst að framleiða, kaupa og selja rafmagn til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana um land allt. Orkusalan býður rafmagn á samkeppnishæfu verði og hefur verið leiðandi þar í mörg ár. Fyrirtækið leggur ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð í öllu sínu starfi og vill með því hafa jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið í heild.
Hjá fyrirtækinu starfa 25 manns og eru höfuðstöðvar í Reykjavík en einnig eru skrifstofur á Akureyri og Egilsstöðum.
Virkjanir
Virkjanir í eigu Orkusölunnar eru 6 talsins og er uppsett afl þeirra 37 MW.
Búðarárvirkjun er staðstett í Reyðarfirði og var gangsett árið 1930.
Grímsárvirkjun er í Grímsá á Völlum ofan við Grímsárfoss. Virkjunin hefur verið í rekstri síðan í júní 1958 og er uppsett afl hennar 2,8 MW.
Lagarfossvirkjun er í Lagarfljóti á Fljótsdalshéraði. Fyrri hluti Lagarfossvirkjunar var vígður í september 1975 en seinni hluti virkjunarinnar haustið 2007. Uppsett afl virkjunarinnar er 27,2 MW og er hún stærsta virkjunin í eigu Orkusölunnar.
Rjúkandavirkjun er staðsett skammt ofan fossins Rjúkanda í Fossá ofan Ólafsvíkur. Virkjunin tók til starfa 1954 og er uppsett afl hennar 1,8 MW.
Skeiðsfossvirkjun er í Austur-Fljótum í Skagafirði. Fyrri hluti virkjunarinnar var tekinn í notkun vorið 1945 en seinni hluti hennar haustið 1976. Upsett afl virkjunarinnar er 5,1 MW.
Smyrlabjargaárvirkjun stendur nálægt bænum Smyrlabjörgum í Suðursveit. Virkjunin var tekin í notkun haustið 1969 og er uppsett afl hennar 1,0 MW.
Grænt ljós
Viðskiptavinir Orkusölunnar geta fengið Grænt ljós til staðfestingar á því að allt rafmagn sem þeir nota sé 100% endurnýjanleg raforka, með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli. Krafan um upprunavottorð er mikil og því er Græna ljósið skemmtileg leið til að hjálpa viðskiptavinum að ná sínum umhverfismarkmiðum. Frá því að Orkusalan gaf fyrsta Græna ljósið árið 2016 hafa fjölmörg fyrirtæki fengið afhent Græna ljósið. Grænt ljós felur í sér tækifæri til aðgreiningar á markaði þar sem græn vottun gegnir lykilhlutverki.
Kolefnisjöfnun
Orkusalan er fyrsta og eina orkufyrirtækið á almennum markaði sem kolefnisjafnar eigin framleiðslu raforku og því er kolefnisspor raforkunnar með tilliti til bindingar ekkert.
Orkusalan hefur í samstarfi við Eflu verkfræðistofu haldið utan um þá losun sem við kemur starfsemi fyrirtækisins. Allur rekstur Orkusölunnar hefur frá upphafi verið kolefnisjafnaður með eigin skógrækt, en þar má telja akstur og flugferðir starfmanna innan- og utanlands ásamt daglegum rekstri virkjana og skrifstofa.
Frá því að Orkusalan var stofnuð hefur fyrirtækið ræktað skóg við Skeiðsfossvirkjun. Stærð skógræktarsvæðisins er 65 hektarar og þekur skógur Orkusölunnar 19 hektara og bindur 122 tonn CO2 á ári. Skógurinn bindur því um þrefalt magn þeirra losunar gróðurhúsalofttegunda sem fylgir rekstri fyrirtækisins. Orkusalan mun halda áfram að rækta skóginn á næstu árum og auka nýtingu skógræktarsvæðisins.
Vinnsla á raforku
Þrátt fyrir að Orkusalan geti kolefnisjafnað rekstur fyrirtækisins með eigin skógrækt þá var einnig ákveðið að kolefnisjafna alla framleiðslu frá eigin virkjunum. Vinnsla á rafmagni veldur mismikilli losun en öll okkar framleiðsla kemur frá vatnsaflsvirkjunum sem eru með losun í lágmarki miðað við aðrar vinnsluaðferðir. Losun frá eigin vinnslu árið 2019 var 504 tonn CO2. Þar sem skógurinn okkar bindur alla losun sem hlýst af rekstri Orkusölunnar og umfram það, þá nýtum við þá umfram bindingu til að jafna hluta af eigin vinnslu. Sú losun sem eftir stóð árið 2019 var jöfnuð í samstarfi við Kolvið. Orkusalan fylgir lögum og reglugerðum í umhverfismálum og gengur lengra þegar það á við. Orkusalan hefur innleitt umhverfisstjórnun og skuldbundið sig til að vinna að stöðugum umbótum í umhverfismálum.
Framtíðin er rafmögnuð
Orkusalan hefur alla tíð lagt mikinn metnað í markaðsstarf fyrirtækisins og hafa auglýsingar Orkusölunnar oft vakið verðskulda athygli. Þá fékk fyrirtækið íslensku auglýsingaverðlaunin í flokknum umhverfisauglýsing fyrir „Stoppustuð Orkusölunnar upphituð ljósasýning“. Biðskýlið Stoppustuð fór ekki framhjá þeim sem óku Hringbrautina en blikkandi ljós blöstu við ökumönnum.
Einnig var heimasíða Orkusölunnar valinn besti íslenski vefurinn á íslensku vefverðlaununum. Vefurinn fékk einnig verðlaun fyrir útlit og viðmót og sem besti sölu- og kynningarvefur fyrirtækis með færri en 50 starfsmenn en Orkusalan hefur lagt mikla áherslu á markaðssetningu og þjónustu við viðskiptavini í gegnum netið.
Orkuskipti
Orkusalan hefur styrkt ýmis samfélagsleg málefni á landinu öllu. Fyrirtækið gaf til að mynda öllum sveitarfélögum landsins Stoppustuð hleðslustöðvar árið 2016 til að styðja við uppbyggingu innviða í orkuskiptum hér á landi. Ísland er í lykilstöðu til að leiða rafbílavæðingu heimsins og vill Orkusalan leggja sitt af mörkum með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
Nánari upplýsingar um fyrirtækið má finna á vefsíðunni orkusalan.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd