Orkustofnun

2022

Raforkumálaskrifstofan og Orkustofnun
Árið 2017 voru 70 ár liðin frá stofnun Raforkumálaskrifstofu og 50 ár frá því Orkustofnun tók til starfa 1967. Af því tilefni flutti Sveinbjörn Björnsson, fyrrum starfsmaður þessara stofnana, yfirlit yfir upphafsár starfseminnar á ársfundi Orkustofnunar 2017. Stuðst er við hans erindi um söguna fram til 2020. Lýsing á starfseminni 2020 er byggð á ársskýrslu það ár, sem flestir starfsmenn stóðu að. Samantekt og ritstjórn annaðist Baldur Pétursson og yfirlestur og ráðgjöf Þórunn Erla Sighvats og Kristinn Einarsson hjá Orkustofnun.

Lykilhlutverk á sviði orkumála
Raforkumálaskrifstofan og Orkustofnun gegndu lykilhlutverki á sviði orkumála og hagþróunar á meðan Ísland var að mörgu leyti sem þróunarland. Með þeim var lagður grunnur að virkjun vatnsfalla landsins og byggð upp frá grunni ein fremsta vísindastofnun heims í jarðhitarannsóknum. Orkustofnun var hagnýt jarðfræðistofnun en ekki síður miðstöð rannsókna í jarðvísindum þar til kennsla efldist hjá HÍ á þessu sviði.
Þessar stofnanir skiluðu gríðarlegu framlagi til þjóðfélagsins á sviði orkumála, s.s:
• Rafmagni inn á öll heimili landsins.
• Jarðhita til húshitunar 90% landsmanna.
• Grundvelli virkjana fyrir stóriðju.
• Grundvelli um verndun náttúru og nýtingu orkulinda.
• Jarðhitaskóla og alþjóðlegri ráðgjöf um nýtingu jarðhita.
• Grunngögnum fyrir rétt Íslendinga á hafsbotni.
• Grundvelli fyrir þróun orkumála og hagþróun á Íslandi.

Gas frekar en rafmagn
Upp úr aldamótunum 1900 var frekar notað gas en rafmagn í Reykjavik til eldunar. Tímabilið 1904 til 1933 mætti nefna frumbýlingsár í raforkubúskap þjóðarinnar. Á þeim tíma voru aðeins byggðar smáar rafstöðvar. Elliðaárvirkjun var tekin í notkun 1921 og í fyrstu mest nýtt til raflýsingar á götum, en eldað var með gasi og hitað með koksi. Raforkumálaskrifstofan og Orkustofnun áttu mikinn þátt í að leggja grundvöll að rafvæðingu alls landsins, stærri vatnsaflsvirkjunum, stóriðju, eflingu iðnaðar, hagþróunar og bættra lífskjara á Íslandi.

Gasstöðin við Hlemm, starfrækt 1910-1956.

Sigurður Thoroddsen, sjálfsmynd

Frumkvöðull um vatnsafl
Sigurður Thoroddsen lauk verkfræðiprófi árið 1927 og stofnaði eigin verkfræðistofu 1932. Sigurður vann fyrstu yfirlitsáætlun um vatnsafl á Íslandi 1952 og lagði þar með grunninn að flestum virkjunarhugmyndum í vatnsafli. Í áætlun 1962 taldi hann að virkjanleg vatnsorka í meðal vatnsári næmi 35 þúsund GWh á ári.

 

Raforkulög 1947
Með raforkulögum 1947, var komið á heildarskipan raforkumála í stað fjölda smárra rafstöðva án samtengingar. Samkvæmt lögunum var ríkinu einu heimilt að reisa og reka raforkuver sem voru stærri en 75 kW. Raforkumálastjóri hafði yfirumsjón með rafmagnsveitum ríkisins og héraðsrafmagnsveitum, var ráðunautur ríkisstjórnarinnar í raforkumálum og lét meta hvernig heppilegast væri að fullnægja raforkuþörf héraðs eða landshluta og sendir tillögur til ráðherra.

Skipurit Raforkumálaskrifstofu 1947

Raforkumálastjóri
Jakob Gíslason var forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins frá 1933, varð raforkumálastjóri 1947 og síðar orkumálastjóri 1967-1972. Jakob var farsæll stjórnandi, frumkvöðull um rafvæðingu og orkurannsóknir. Hann var ætíð vel undirbúinn fyrir breytingar í stjórnmálum.

Jakob Gíslason, raforkumálastjóri.

Vatnamælingar
Sigurjón Rist var forstöðumaður Vatnamælinga frá 1947 og í áratugi. Hann kom á kerfisbundnum rennslismælingum í vatnsföllum landsins, kortlagningu stöðuvatna og sá um útgáfu árlegra rennslismæligagna. Hann lagði grunninn að þekkingu á vatnsafli og vatnafari landsins.

Jarðfræðikortlagning
Elsa G. Vilmundardóttir varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka háskólanámi í jarðfræði. Hún kom til starfa hjá Raforkumálaskrifstofunni þegar rannsóknir vegna virkjunar Þjórsár við Búrfell byrjuðu upp úr 1960. Ritgerð Elsu um Tungnaárhraun var mikið tímamótaverk og er enn hin merkasta heimild.

Mannvirkjajarðfræði
Haukur S. Tómasson var sérfræðingur í mannvirkjajarðfræði hjá Raforkumálastjóra frá 1959 til 1966, deildarstjóri á Orkustofnun frá 1966 til 1980, og síðan forstjóri Vatnsorkudeildar Orkustofnunar 1980 til 1997. Haukur kom að undirbúningi og frumhönnun allra helstu vatnsaflsvirkjana.

Haukur S. Tómasson.

Landmælingar og borholuskrá
Landmælingar á vegum Raforkumálaskrifstofunnar hófust skömmu fyrir 1950 og héldu áfram allt til ársins 2003 þar til gögn voru afhent Landmælingum Íslands. Þorgils Jónasson, sagnfræðingur, hóf árið 1970 störf hjá Jarðborunum ríkisins en færðist á Orkubúskapardeild Orkustofnunar 1991. Hann safnaði heimildum um boranir og borholur frá upphafi.

Teiknistofan
Teiknistofan var mikilvæg á Raforkumálaskrifstofunni og síðar Orkustofnun. Petrína K. Jakobsson stjórnaði teiknistofunni allt til ársins 1977, þá tók Helga B. Sveinbjörnsdóttir við stjórn til æviloka árið 2000.

Petrína K. Jakobsson, Helga B. Sveinbjörnsdóttir starfsmenn 1958-2000

Bókasafn

Guðrún Gísladóttir, starfsmaður bókasafns Raforkumálaskrifstofunnar og síðar Orkustofnunar.Stjórnendur lögðu mikla áherslu á að afla tímarita og fræðibóka vegna rannsókna stofnananna og undir stjórn Guðrúnar Gísladóttur varð bókasafn Raforkumálaskrifstofunnar og síðar Orkustofnunar lykilsafn þjóðarinnar í þessum fræðum.

Rafvæðing strjálbýlis
Árið 1953 lagði Jakob Gíslason raforkumálastjóri fram 10 ára áætlun um rafvæðingu strjálbýlisins með rafveitum, sem kosta átti um 50 milljónir króna á ári, jafngildir nú tveimur milljörðum. Verkefnið var sett í framkvæmd og til ársins 1970 náðist að rafvæða 95% býla í landinu. Helstu rafveitur landsins voru þó ekki samtengdar. Byggðalínan var lögð 1974-84 en hún tengdi saman raforkukerfi landsins til að auka öryggi og hagkvæmni.

Landsvirkjun
Fram að árinu 1965 hafði rafvæðing á Íslandi verið rekin af ríki og sveitarfélögum en rekstur veitufyrirtækja stóð ekki undir nýframkvæmdum í orkumálum. Með stofnun Landsvirkjunar 1. júlí 1965 höfðu stjórnvöld hug á að nýta orkulindir landsins betur með því að draga að erlenda fjárfesta í orkufrekan iðnað innanlands og ná þannig fram hagkvæmni stórrekstrar í virkjunum, sem gætu selt raforku til stóriðju og séð almennum markaði fyrir raforku á hagkvæmu verði. Nokkrir starfsmenn Raforkumálaskrifstofunnar fóru yfir til Landsvirkjunar, m.a. Eiríkur Briem, rafmagnsveitustjóri, sem varð forstjóri.

Jarðboranir ríkisins og Jarðhitadeild
Jarðboranir ríkisins fóru undir hatt raforkumálastjóra 1947. Gunnar Böðvarsson var forstöðumaður Jarðborana fyrstu árin og síðar Jarðhitadeildar þegar hún var skilin frá Jarðborunum árið 1956. Hann varð þekktur sem fræðimaður og ráðgjafi um jarðhita á erlendum vettvangi. Árið 1964 fluttist hann til Bandaríkjanna. Þá tók Guðmundur Pálmason við forstöðu og gegndi henni til ársins 1996 að skipulag breyttist. Undir stjórn Guðmundar óx deildin og lyfti Grettistaki í jarðhitaleit sem leiddi til stóraukinnar nýtingar jarðhita í húshitun og framleiðslu raforku.

Guðmundur Pálmason og Gunnar Böðvarsson

Orkulög 1967
Árið 1967 voru raforkulögin endurskoðuð og kölluð Orkulög. Umsjá jarðvarmans og annarra orkugjafa svo sem olíu var sett undir ákvæði laganna. Þá voru veitur ríkisins lagðar beint undir Rafmagnsveitur ríkisins, sem urðu sjálfstæð ríkisstofnun. Raforkusjóður frá 1947 og Jarðhitasjóður frá 1961 voru sameinaðir í Orkusjóði. Ný stofnun, Orkustofnun, tók við rannsóknarhlutverki Raforkumálaskrifstofunnar á virkjunarskilyrðum vatnsorku og jarðvarma. Hún var rannsóknar- og ráðgjafarstofnun fremur en stjórnsýslustofnun. Kjarni Orkustofnunar var í Raforkudeild, Skrifstofu- og hagdeild og Jarðhitadeild. Rafmagnseftirlitið og Jarðboranir voru áfram undir Orkustofnun og einnig Jarðvarmaveitur ríkisins sem ráku m.a. gufuveitu í Bjarnarflagi fyrir Kísiliðjuna og gufurafstöð.

Ný og krefjandi verkefni – húshitun með jarðvarma
Á árabilinu 1970 – 1980 komu mörg ný verkefni til Orkustofnunar. Þar má nefna Laxárdeiluna, undirbúning að Byggðalínu, byggingu Sigölduvirkjunar, gosið á Heimaey, gufuöflun fyrir Kröfluvirkjun og vöktun eldsumbrota í Kröflu og hækkun á húshitun með olíu vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði olíu um 1970. Öll þessi atriði höfðu mikil áhrif hér á landi. Húshitun með olíu var enn mikil árið 1973 og alls fóru þá 160 þús. tonn af olíuinnkaupunum í þá hitun. Olíuhækkunin hafði þau áhrif að sett var opinber stefna að allir stærri þéttbýlisstaðir nytu jarðhita til húshitunar þar sem hægt væri. Verkefni Jarðhitadeildar og Jarðborana ríkisins urðu fleiri og meiri en áður og hitun húsa með jarðhita jókst mikið 1970-1980 sem gerði hitun með olíu að mestu óþarfa. Þjóðhagslegur sparnaður af hitun húsa með jarðhita í stað olíu síðan 1968, er metinn að meðaltali um 65 milljarða á ári eða um 2,6% af landsframleiðslu. Jarðkönnunardeild var stofnuð 1971 og var henni ætlað að stunda rannsóknir vegna öflunar neysluvatns og hagnýtra jarðefna. Ársverk Orkustofnunar voru 150 árið 1982.

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Jarðhitaskóli Háskóla Sameinu þjóðanna, hefur frá stofnun árið 1979 og til 2021 heyrt undir Orkustofnun. Ingvar Birgir Friðleifsson var forstöðumaður frá upphafi til starfsloka 2013 en þá tók Lúðvík S. Georgsson við. Skólinn hefur útskrifað 670 nemendur frá 60 löndum. Síðan árið 2000 hafa 56 þeirra lokið meistaranámi og tveir doktorsnámi í jarðhitafræðum. Auk þess heldur skólinn árleg námskeið í Afríku og Mið-Ameríku. Þessir nemendur eru nú leiðandi í málefnum jarðhita í heimalöndum sínum. Starfsemi skólans er eitt mikilvægasta framlag okkar til þróunarlanda. Það hefur einnig skilað sér í tækifærum fyrir íslenska ráðgjafa og fyrirtæki í nýtingu jarðhita um heim allan. Frá 2021 er Jarðhitaskólinn vistaður hjá ISOR. Forstöðumaður Jarðhitaskólans frá 2019 er Guðni Axelsson.

Lúðvík S. Georgsson, Ingvar Birgir Friðleifsson, Árni Snorrason og Ólafur G. Flóvenz.

Guðni Axelsson, forstöðumaður Jarðhitaskólans frá 2019.

Breytt verksvið
1. jan. 1997 urðu skipulagsbreytingar þannig að rannsóknirnar voru reknar sem fjárhagslega sjálfstæð starfsemi en orkumálahluta fengið aukið hlutverk í stjórnsýslu. Stofnunin skiptist nú auk Jarðhitaskólans í skrifstofu orkumálastjóra, Orkumálasvið með orkubúskapardeild og auðlindadeild og Orkurannsóknir með deildirnar vatnamælingar og rannsóknasvið. Jakob Björnsson lét af störfum orkumálastjóra fyrir aldurs sakir 1996 og við starfi hans tók Þorkell Helgason. Árni Snorrason varð forstöðumaður Vatnamælinga og Ólafur G. Flóvenz forstöðumaður Rannsóknasviðs.

Skipurit Orkustofnunar 1997

Lög um Orkustofnun og ný raforkulög 2003
Með lögum 2003 voru gerðar viðamiklar breytingar á stofnuninni. Rannsóknasviðið var gert að nýrri stofnun, Íslenskar orkurannsóknir (ISOR) og starfsemi Vatnamælinga var gerð að sjálfstæðri einingu. Báðum stofnunum var ætlað að standa undir rekstri sínum með sölu þjónustu án fjárveitinga. Stjórn Orkustofnunar var felld niður en stjórnsýsluhlutverk aukið með nýjum verkefnum. Vatnamælingar voru svo sameinaðar Veðurstofu Íslands 2008. Við það einfaldaðist skipurit Orkustofnunar í það sem nú gildir og sinnir stofnunin einkum stjórnsýslu.

Skipurit Orkustofnunar 2003

Afsprengi Raforkumálaskrifstofunnar
Með lögum um Landsvirkjun nr. 59/1965 og Orkulögum nr. 56/1967 færðist bygging virkjana fyrir stóriðju og rekstur stærri háspennulína til Landsvirkjunar og rekstur smærri virkjana og héraðsveitna til Rafmagnsveitna ríkisins. Þessi starfsemi er nú í höndum Landsvirkjunar, Landsvirkjunar Power, Landsnets, Rarik og Orkusölunnar. Segja má að Landsvirkjun sé einnig afsprengi Raforkumálaskrifstofunnar.

Afsprengi Raforkumálaskrifstofu og Orkustofnunar, að hluta eða í heild.

Afsprengi Orkustofnunar
Rafmagnseftirlit ríkisins fylgdi Orkustofnun 1967 en varð að sjálfstæðri stofnun 1979, rann í Löggildingarstofu 1996 og varð hluti Neytendastofu árið 2005. Jarðboranir voru undir Orkustofnun til ársbyrjunar 1986 að þær voru gerðar að hlutafélagi. Jarðvarmaveitur voru undir Orkustofnun til ársins 1986 að þær runnu inn í Landsvirkjun. Orkustofnun átti frumkvæði að virkjun jarðhita í Svartsengi með tilraunastöð árin 1974-1976 sem leiddi til Hitaveitu Suðurnesja, sem nú heita HS Veitur og HS Orka. Orkustofnun var einnig með töluverða ráðgjafarstarfsemi erlendis. Hún var um tíma rekin sem hlutafélagið Orkustofnun erlendis hf. (Orkint). Það hlutafélag sameinaðist Virki hf. 1988, sem síðar varð Virkir Orkint hf. Árið 1996 voru gerð skil á milli rannsóknastarfsemi Orkustofnunar og stjórnsýslu hennar í orkumálum. 2003 voru jarðfræði- og jarðhitarannsóknir Orkustofnunar gerðar að sjálfstæðri rannsóknarstofnun ÍSOR.

Raforkusjóður, Jarðhitasjóður og Orkusjóður
Raforkusjóður var settur á stofn 1942 til að styðja við rafvæðingu landsins. Hann var felldur undir raforkumálastjóra 1947. Jarðhitasjóður sem stofnaður var með lögum nr. 55/1961 starfaði einnig undir hatti raforkumálastjóra. Hann sameinaðist Raforkusjóði í Orkusjóði með lögum nr. 58/1967. Sá sjóður er enn í daglegri umsýslu Orkustofnunar í útibúi hennar á Akureyri sem stofnað var árið 1999. Þar er einnig rekið Orkusetur á vegum Orkustofnunar.

Orkumálastjórar
Jakob Gíslason varð fyrsti orkumálastjóri, eins og áður sagði og Jakob Björnsson þar á eftir.
Á eftir Þorkeli Helgasyni tók Guðni A. Jóhannesson við starfi orkumálstjóra frá ársbyrjun 2008 til ársins 2021. Ráðinn hefur verið nýr orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, sem er fyrsta konan til að gegna þessu embætti frá og með 19. júní 2021.

Núverandi hlutverk Orkustofnunar er fjölbreytt
Orkustofnun heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Sem fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála gegnir Orkustofnun víðtæku stjórnsýsluhlutverki og skyldum.
Stefnumarkandi hlutverk er m.a:
• vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orku- og auðlindamál.
• standa fyrir rannsóknum á orkubúskap, orkulindum hafsbotnsins og öðrum jarðrænum auðlindum landsins, til að unnt sé að veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra.
• safna og miðla gögnum um orkulindir, jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna.
• vinna að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda.
• stuðla að samvinnu þeirra sem sinna orkurannsóknum og samræmingu slíkra verkefna.
• að fylgjast í umboði ráðherra með framkvæmd opinberra leyfa sem gefin eru út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja.
• að annast umsýslu Orkusjóð.
• að annast önnur verkefni er stofnuninni eru falin.

Leyfisveitingar
Orkustofnun veitir opinber leyfi til:
• rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum.
• breytinga á vatnsfarvegum og söfnunar vatns í miðlunarlón.
• reksturs orkuvera og flutningsvirkja raforku og fylgist með framkvæmd þessara leyfa.

Raforkueftirlit
Raforkueftirlitið hefur eftirlit með fyrirtækjum á raforkumarkaði, en þar fjölgar verkefnum og umfang eykst, í samræmi við aukið hlutverk. Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun eftirlit með raforkumarkaði og er sjálfstæð í sínum ákvörðunum.
Eftirlitið skiptist í í aðalatriðum í eftirtalda þætti:
· Almennt eftirlit með framkvæmd raforkulaga.
· Eftirlit með Kerfisáætlun flutningsfyrirtækis.
· Eftirlit með aðskilnaði rekstrarþátta í bókhaldi flutningsfyrirtækis og dreifiveitna.
· Setning tekjumarka.
· Eftirlit með gjaldskrám fyrir flutning og dreifingu raforku.
· Eftirlit með afhendingaröryggi og gæðum raforku.
· Eftirlit með neytendavernd á raforkumarkaði.
· Sinna ábendingum notenda sem telja að raforkufyrirtækin hafi brotið á sér.

Kerfisáætlun. Frá árinu 2015 hefur Orkustofnun haft það hlutverk að staðfesta hvort kerfisáætlun Landsnets um framtíðaruppbyggingu flutningskerfisins samræmist ákvæðum raforkulaga.
Tekjumörk. Raforkueftirlitið hefur m.a. það hlutverk að ákvarða tekjumörk sérleyfisfyrirtækja á raforkumarkaði, sérleyfisfyrirtækin ákvarða breytingar á gjaldskrá í samræmi við uppgjör tekjumarka ársins.
Upprunaábyrgðir. Samkvæmt lögum nr. 30/2008 um upprunaábyrgðir vegna raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum og reglugerð nr. 757/2012 um birtingu upplýsinga sem eru tengdar upprunaábyrgðum raforku, er Orkustofnun falið ákveðið eftirlitshlutverk varðandi útgáfu á upprunaábyrgðum.
Orkuspá. Eitt af reglubundnum verkefnum raforkueftirlits er þátttaka í Orkuspárnefnd.
Árlega er gefinn út endurreikningur á spá um raforkunotkun.
Raforkuöryggi, afhendingaröryggi og gæði raforku. Raforkueftirlitið hefur eftirlit með raforkuöryggi landsins og afhendingaröryggi og einnig gæðum raforku.
Nordber. Raforkueftirlit tekur þátt í norrænu samstarfi, um neyðarstjórnun raforkukerfa Norðurlandanna
NordREG. Raforkueftirlitið tekur þátt í samstarfi norrænna eftirlitsaðila sem heitir NordREG
ACER. Ísland gerist aðili 2019 að svokölluðum þriðja orkupakka innan EES, en með honum tók Orkustofnun að sér umfangsmeira starf og eftirlit á raforkumarkaði, sem miðar að aukinni markaðsvirkni, gæðum, öryggi, neytendavernd og sjálfstæði raforkueftirlitsins í ákvörðunum.

Hagskýrslur um orkumál
Orkustofnun gegnir hlutverki sem hagtöluframleiðandi ásamt Hagstofunni, Seðlabanka Íslands, Umhverfisstofnun, Samgöngustofu og embætti ríkislögreglustjóra. Verkefnið er fólgið í umfangsmikilli söfnun talnagagna um orkuframleiðslu, orkunotkun og orkuverð.

Annað eftirlit
Orkustofnun fer einnig með leyfisveitingarvald samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990 svo og laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.

Niðurgreiðslur
Samkvæmt lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar nr. 78/2002 og reglugerð um framkvæmd laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar nr. 660/2009 þurfa allir notendur sem vilja njóta niðurgreiðslu að sækja um það sérstaklega til Orkustofnunar sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Eigandi/leigjandi íbúðarhúsnæðis sem ekki hefur kost á fullri hitun með jarðvarma getur sótt um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar til Orkustofnunar sem metur á grundvelli umsóknar hvort skilyrði þessara laga fyrir niðurgreiðslum sbr. 4. grein séu uppfyllt. Mest fer til að niðurgreiða beina rafhitun og hitun frá kyntum hitaveitum sem hita vatn með skerðanlegri orku, olíu og afgangsorku t.d. frá fiskimjölsverksmiðjum.

Skipurit Orkustofnunar 2009

Helstu áherslur eru:

  • Niðurgreiðslur á hitun íbúðarhúsnæðis
  • Eingreiðslur til hitaveitna og einstaklinga
  • Orkusparnaður
  • Hitaveituframkvæmdir
  • Jöfnun kostnaðar við dreifingu orku í dreifbýli
  • Notendur utan samveitna

 

Upplýsingamiðlun – bókasafnOrkustofnun sinnir þess utan leiðbeiningarskyldu sinni og upplýsingagjöf gagnvart almenningi og innlendum og erlendum aðilum. Fjöldi skráðra titla Bókasafns Orkustofnunar í Gegni – samskrá íslenskra bókasafna er nú 20.027. Um 50% þessara titla eru nú rafræn skjöl.
Með skráningu í Gegni opnast möguleikinn á aðgengi að efninu fyrir almenning og á heimsvísu. Leitarmöguleikar eru þar margvíslegir, sem fást ekki með vistun efnis eingöngu á vef stofnunar. Þannig er mætt upplýsingaskyldu stjórnvalda og því markmiði að veita aðgang að opinberum gögnum. Útgefið efni Orkustofnar og nýtt efni er skráð og tengt jafnóðum og það kemur út, og rafrænu eintaki skilað í Rafhlöðuna – rafrænt varðveislusafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Gagnamál

Gagnamál.Orkustofnun hefur aflað gagna um orkurannsóknir og orkunýtingu landsins á löngum tíma. Stór hluti þeirra gagna sem hafa orðið til í starfsemi Orkustofnunar er stafrænn og vistaður í gagnagrunnum og/eða landupplýsingakerfum. Gögn sem eru staðtengjanleg falla undir málaflokkinn landupplýsingar. Gagnasett Orkustofnunar á því sviði eru byggð á efni nokkurra ólíkra gagnagrunna. Birting landfræðilegu gagnasettanna var um árabil í Gagnavefsjá, Náttúruvefsjá, Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá, en þær kortasjár byggðu á eldri hugbúnaði sem hefur verið lokað. Núverandi kortasjár stofnunarinnar eru Kortasjá OS, Landgrunnssjá og Kortasafn OS. Gagnasöfn sem hafa verið afrituð og gerð aðgengileg á vef stofnunarinnar eru kortasöfn Orkustofnunar, Teikningasafn og Borskýslusafn, ásamt Borholuskrá, sem er tengd kortasjá og sýnir hnit borhola ásamt tengingum við ýmsar heimildir um borholur.

Auðlindanýting
Árið 2008 tók Orkustofnun við því hlutverki að gefa út virkjunarleyfi en fyrir þann tíma sá iðnaðarráðuneytið um útgáfu leyfanna og framan af síðustu öld grundvölluðust leyfin á sérlögum. Fyrir sumar virkjanir finnast leyfisbréf ráðherra með vísan til laganna en ekki finnast leyfi fyrir allar virkjanir. Stofnunin fer með stjórnsýslu- og leyfisveitingarvald, eins og fyrr greinir. Til að sinna þessu umfangsmikla hlutverki Orkustofnunar leggur stofnunin áherslu á þverfaglega vinnu sérfræðinga stofnunarinnar áður en endanleg ákvörðun er tekin í hverju máli fyrir sig. Á árinu 2017 var lögð mikil vinna í það að afla gagna um allar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi sem skila raforku inn á flutnings- og dreifikerfi raforku. Markmiðið með þessari gagnaöflun er að ná heildaryfirsýn yfir vatnsaflsvirkjanir á Íslandi og draga saman þau ákvæði sem kalla á eftirlit af hendi Orkustofnunar. Í desember 2016 kynnti Orkustofnun fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hugmynd að smávirkjanaverkefni sem hafði það að markmiði að stuðla að aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni. Mikið starf hefur verið unnið á þessu svið á umliðnum árum til 2020. Orkustofnun tekur við og setur fram hugmyndir um virkjunarkosti í vatnsorku og jarðhita yfir 10 MW að afli og gætir þess að þeir séu nægilega vel skilgreindir, þannig að hægt sé að fjalla um þá á vettvangi Rammaáætlunar sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Virkjunarkostir eru áfram til umfjöllunar innan rammaáætlunar á grundvelli nýjustu upplýsinga þar til þeir annað tveggja koma til framkvæmda eða viðkomandi svæði er friðlýst gagnvart orkunýtingu. Lagaleg óvissa ríkir enn um meðhöndlun vindorku í rammaáætlun þegar þetta er ritað 2021.

Smávirkjanir

Olíuleit
Í upphafi árs 2018 óskaði Ithaca Petroleum ehf. ásamt samstarfsaðilunum Kolvetni ehf. og Petoro Iceland ehf. eftir eftirgjöf á sérleyfi þeirra, nr. 2013/02, sem gefið var út 4. janúar 2013. Leyfishafarnir söfnuðu 1.000 km af endurkastsgögnum á leyfissvæðinu sumarið 2016, í samræmi við ákvæði leyfisins. Túlkun gagnanna leiddi til þeirrar ályktunar rekstraraðilans að ekki væri ástæða til að halda áfram rannsóknum og skuldbinda sig til að takast á við rannsóknaráætlun samkvæmt öðrum áfanga þess leyfis. Líkur á að finna olíu og/eða gas á afmörkuðu svæði sérleyfissvæðis sem rannsakað var, gæfi, að mati túlkunar Ithaca Petroleum á gögnunum, ekki tilefni til að takast á við næsta áfanga rannsóknaráætlunar sérleyfisins. Af áðurnefndum ástæðum var leyfi fyrirtækisins til olíuleitar afturkallað í ársbyrjun 2018 og því er ekki lengur stunduð olíuleit við Ísland.

Orkuskipti
Orkunotkun í heiminum byggir að mestu á eldsneyti hvort sem um ræðir samgöngur, húshitun, iðnað eða raforkuframleiðslu. Á Íslandi er raunin önnur enda er heildarhlutdeild endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins með því hæsta sem gerist í heiminum.
Á Íslandi er eldsneyti að langstærstum hluta notað til samgangna á láði, legi og í lofti. Samkvæmt þingsályktun um aðgerðaráætlun um orkuskipti, sem samþykkt var 31. maí 2020 er stefnt að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Í orkuskiptaáætluninni er stefnt að því að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi frá 6% árið 2016 í 10% fyrir árið 2020 og 40% árið 2030. Einnig er stefnt að því að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í haftengdri starfsemi í 10% árið 2030, en hlutfallið fyrir innlend fiskiskip var 0,1% árið 2016

Alþjóðlegt samstarf
Stofnunin sinnir auknu alþjóðlegu samstafi svo sem á grunni EES samningsins vegna Uppbyggingarsjóðs EES, Geothermica og öðru alþjóðlegu samstarfi. Þar er veigamikill þáttur aukinn alþjóðlegur áhugi á að nýta reynslu frá Íslandi af rannsóknum og nýtingu á jarðhita.

Uppbyggingarsjóður EES
Frá árinu 2010 hefur Orkustofnun, að beiðni utanríkisráðuneytisins, haft aðkomu að og tekið þátt í verkefnum Uppbyggingarsjóðs EES í nokkrum löndum Austur- og Suður-Evrópu og er starfið kostað af sjóðnum, sem er hluti af EES samningnum. Vinna Orkustofnunar hefur verið í formi aðstoðar við mótun, framkvæmd, útboð og eftirlit áætlana á sviði endurnýjanlegrar orku í viðkomandi löndum.

Önnur orkuverkefni innan EES, Set Plan, ERA-NET, Geothermica
Orkustofnun hefur einnig stýrt Geothemal ERA-NET verkefninu sem náði til 11 landa í Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB, en það var rannsóknarverkefni á tímabilinu 2012 – 2016. Markmið Geothermal ERA-NET var að efla hlut jarðvarma í Evrópu og var það gert með auknu samstarfi rannsóknaraðila, einkaaðila og stjórnsýslustofnana í þessum löndum og var það fjármagnað af rannsóknaráætlunum ESB / EES. Í framhaldi af ERA-NET verkefninu byggðu sömu samstarfslönd upp stærra rannsóknarverkefni sem kallast GEOTHERMICA árið 2017, en það er samstarfsverkefni Evrópusambandsins og 16 stjórnsýslu- og rannsóknarmiðstöðva í 13 löndum Evrópu.

Íslandsdeild Alþjóða orkuráðsins
Íslandsdeild Alþjóða orkuráðsins hefur verið starfrækt á umliðnum árum, vegna aðildar að Alþjóða orkuráðinu (WEC). Orkustofnun hefur annast umsjón starfseminnar, en einstök fyrirtæki á orkumarkaði hafa verið aðilar að starfinu. Starfsemin er m.a. fólgin í miðlun upplýsinga frá WEC til aðildarfyrirtækja, þátttöku í alþjóðlegum greiningum og skýrslum er varða Ísland og orkumarkaðinn, fundum o.fl. Ísland er m.a. aðili að World Energy Issue Monitor þar sem greind er samkeppnisstaða greinarinnar í viðkomandi löndum. Einnig tekur Ísland þátt í World Energy Trilemma Index skýrslunni sem greinir stöðu einstakra landa hvað varðar orkuöryggi, orkugæði og sjálfbært umhverfi.

Sjálfbær þróun orkumála.

Orkusjóður
Sjóðurinn er í eigu ríkisins og er hlutverk hans að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Sér stjórn er yfir Orkusjóði.
Helstu verkefni:

  • Jarðhitaleitarlán
  • Jarðhitaleitarstyrkir
  • Sérstakir styrkir Orkusjóðs
  • Tímabundið verkerfi í umsýslu Orkusjóðs – styrkir til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla
  • Aukin verkefni Orkusjóðs og þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti
  • Kolvetnisrannsóknasjóður

Kolvetnisrannsóknasjóður er mennta- og rannsóknasjóður í tengslum við kolvetnisstarfsemi á Íslandi í samræmi við lög nr. 13/2001 og reglugerð nr. 39/2009. Einnig hafa verið settar verklagsreglur um starfsemi sjóðsins. Stjórn sjóðsins er skipuð einum fulltrúa hvers rannsókna- og vinnsluleyfis auk fulltrúa íslenska ríkisins sem fer með formennsku í sjóðnum. Orkustofnun annast daglega umsýslu sjóðsins en hann er ekki virkur eins og er.

Orkusetur
Orkusetur staðsett á Akureyri, er óháð og sjálfstæð eining sem vinnur að markmiðum sínum sem eins konar tengiliður milli stjórnvalda, almennings, fyrirtækja og stofnana. Orkustofnun annast daglega umsýslu Orkuseturs. Sér stjórn er yfir Orkusetri. Orkuskipti í samgöngum er eitt af viðfangsefnum Orkuseturs. Rafvæðing samgangna hefur að mestu verið í sviðsljósinu enda margt að gerast á því sviði og bjart framundan. En orkuskipti snúast um fleira en rafbíla og innlend eldsneytisframleiðsla er hluti af möguleikum Íslands til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum.

Mannauður
Markmið Orkustofnunar er að hjá stofnuninni starfi fólk sem hefur hæfileika sem nýtast stofnuninni, er áhugasamt og tilbúið að miðla þekkingu sinni. Orkustofnun leggur áherslu á traust og heiðarleika og vill að starfsmenn séu sjálfstæðir, tilbúnir til að sýna frumkvæði og taka ábyrgð. Fjöldi starfsmanna á árinu 2017 var 39 og fækkaði um þrjá frá fyrra ári, þrátt fyrir aukið umfang stofnunarinnar. Árið 2021 eru starfsmenn 30 talsins.

Skipurit Orkustofnunar 2021

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd