Orkuveita Húsavíkur ehf.

2022

Tilgangur Orkuveitu Húsavíkur ohf. er að auka búsetugæði á svæðinu með starfsemi sinni.
Orkuveita Húsavíkur (OH) er opinbert hlutafélag í eigu sveitarfélagsins Norðurþings. Fyrirtækið er veitufyrirtæki og er markmið þess að hámarka afrakstur þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir með skynsamlegri nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni fyrir eigendur og notendur að leiðarljósi.

Rafveita Húsavíkur
Umræður um möguleika á raforkuframleiðslu til raflýsingar á Húsavík hófust að líkindum í febrúar árið 1899. Framkvæmdir í tengslum við verkefnið hófust þó ekki fyrr en mörgum árum síðar, eða á vormánuðum 1916 þegar hafist var handa við að virkja Búðará og reisa 50 kW rafstöð sem valinn var staður undir Stangarbakka, rétt sunnan Árgils. Áætlað var að stöðin yrði tekin í notkun haustið 2017, en fjárfest hafði verið í vélbúnaði frá Danmörku og Noregi, til uppsetningar í stöðinni. Í september 1917 var hafist handa við gangsetningu og álagsprófanir eins og gert hafði verið ráð fyrir, en við prófanir kom í ljós bilun í rafala og var því brugðið á það ráð að senda hann til Kaupmannahafnar til viðgerðar. Viðgerðin átti ekki að taka langan tíma, en gerðu menn þó ráð fyrir að rafmagnslaust yrði á Húsavík fyrstu vikur vetrar vegna þessarar uppákomu. Engan grunaði hins vegar að veturinn yrði einn sá harðasti í manna minnum, enda oft kallaður frostaveturinn mikli og reyndist ómögulegt að koma rafalanum norður til Húsavíkur þann veturinn. Sumarið 1918 skilaði rafallinn sér loks til Húsavíkur eftir viðgerð, en reyndist þá vera svo mettaður af raka að nauðsynlegt var að rífa hann og þurrka áður en hægt var að taka hann í notkun. Ekki eru til öruggar heimildir um það hvenær rafstöðin á Húsavík var tekin í notkun, en líkur eru taldar á að það hafi verið í september 1918. Rafveitunefnd var formlega kosin í ágúst 1919, en með tilkomu hennar verður til Rafveita Húsavíkur, sjálfstætt starfandi fyrirtæki í eigu Húsavíkurhrepps.

Vatnsveita Húsavíkur
Lengi framan af voru þeir fjölmörgu lækir sem runnu í gegnum þorpið, nýttir til vatnstöku en síðar voru grafnir brunnar á völdum stöðum í bænum í sama tilgangi. Fyrstu umræður um vatnsveitu á Húsavík munu hafa farið fram árið 1923 eftir að taugaveikifaraldur hafði ítrekað komið upp í þorpinu sem talið var að rekja mætti til neysluvatns, og valdið langvinnum sjúkdómslegum og dauðsföllum. Árið 1925 var svo samþykkt að ráðast í gerð vatnsveitu á Húsavík. Vatn til veitunnar var tekið úr Sprænugili ofan við Skógargerði og tók hún til starfa síðsumars 1926, en stofnkostnaður veitunnar var rétt um 50.000 krónur. Árið 1947 var ráðist í stækkun vatnsveitunnar með virkjun vatnsbóls í Uppsprettugili sem tengt var eldra kerfi, en neysluvatnskerfið hefur svo verið stækkað og útfært samhliða stækkun bæjarins.

Hitaveita Húsavíkur
Hugmyndir um virkjun jarðhita til húshitunar á Húsavík fóru á flug fyrir alvöru í kringum 1930. Tilraunaboranir í nágrenni Traðargerðis árið 1943 skiluðu litlum sem engum árangri og svipaða sögu má segja um boranir á fimm holum á Húsavíkurhöfða á árunum 1961-66. Talsvert vatnsmagn fékkst að vísu úr þeim holum sem boraðar voru á Höfða, en í þeim holum þar sem hitastig var ásættanlegt, var það svo salt- og klórmengað að ekki var mögulegt að nýta það til hitaveitu án varmaskipta. Vatnið þótti þrátt fyrir það mjög merkilegt fyrir þær sakir að aldursgreining leiddi í ljós að um 10.000 ár voru síðan það féll til jarðar sem regn.
Hitaveitufélag Húsavíkur var stofnað 1958, en tilgangur þess var að vinna að framgangi hitaveitu frá Hveravöllum til Húsavíkur og var Verkfræðistofan Fjarhitun hf. fengin til þess að vera Húsvíkingum innan handar í hitaveitumálum. Verkefnið við virkjun jarðhita á Hveravöllum hófst svo veturinn 1969-70 með undirbúningi vegna lagningar rúmlega 18 km asbestlagnar, 250 mm að þvermáli frá Hveravöllum til Húsavíkur.

Orkuveita Húsavíkur
Hitaveita Húsavíkur var sameinuð Vatnsveitu Húsavíkur árið 1982. Rafveita Húsavíkur rann svo þar undir árið 1983, en samhliða þeirri sameiningu var sett var á laggirnar embætti veitustjóra til þess að sinna rekstri þessara þriggja veitna á Húsavík. Það er svo ekki fyrr en árið 1996 að sameiningarskref veiturekstrar á Húsavík er stigið til fulls þegar Orkuveita Húsavíkur hf. verður til og rekstur þessara þriggja veitna færist undir eina kennitölu og með sameiginlegan ársreikning. Orkustöð Orkuveitu Húsavíkur að Hrísmóum 1 var tekin í notkun árið 2000, en þar var með svokallaðri Kalina-tækni framleidd raforka úr 120°C heitu vatni frá Hveravöllum. Uppsett afl stöðvarinnar var um 1,7 MW og annaði stöðin um 70% af raforkuþörf Húsavíkur. Raforkuframleiðslu í stöðinni var hins vegar hætt árið 2008 vegna tæknilegra örðuleika. Nú er í gangi verkefni á vegum félagsins, þar sem verið er að kanna möguleikann á því að endurvekja framleiðslu raforku úr lágvarma í stöðinni.
Árið 2005 er rekstrarformi Orkuveitu Húsavíkur hf. breytt í einkahlutafélag (ehf.), en árið 2012 er félagið gert að opinberu hlutafélagi (ohf.) ásamt því að fráveitur sveitarfélagsins eru færðar undir rekstur OH. Orkuveita Húsavíkur ohf. hefur frá upphafi haft að leiðarljósi nýtingu jarðhita og annarra auðlinda til hagsbóta fyrir íbúa á starfssvæði sínu. Í samstarfi við Norðurorku hf. var árið 1998 ráðist í rannsóknir jarðhita á Þeistareykjum með nýtingu svæðisins til orkuöflunar að markmiði. Í dag fer þar fram 90 MW raforkuframleiðsla sem að hluta er nýtt til iðnaðarsvæðis á Bakka við Húsavík, en Landsvirkjun keypti hlut OH í Þeistareykjum ehf. áður en ráðist var í virkjun svæðisins. Orkuveita Húsavíkur ohf. er hluthafi í Hrafnabjargavirkjun hf, sem er samstarfsverkefni um nýtingu vatnsafls í Skjálfandafljóti. Einnig er félagið hluthafi í Íslenskri Orku ehf. þar sem markmiðin eru orkuöflun og orkunýting í Öxarfirði og stofnaðili EIMS, verkefnis um sjálfbæra og skynsamlega nýtingu orkuauðlinda á NA-landi. OH á einnig og rekur borholur og veitukerfi sem nýtt eru til reksturs sjóbaða á Höfða á Húsavík ásamt því að vera hluthafi í Sjóböðum ehf.
Starfsmannafjöldi OH telur í dag fimm starfsmenn, tveir á skrifstofum félagsins sem sinna framkvæmdastjórn og bókhaldi, en þrír sem sinna viðhaldi og nýframkvæmdum.

Ketilsbraut 7-9
640 Húsavík
4646100
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd