Orkuveita Reykjavíkur

2022

Orkuveita Reykjavíkur er í raun ungt fyrirtæki sem var stofnað árið 1999 þegar Hitaveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Reykjavíkur voru sameinaðar. Sagan spannar þó rúma heila öld ef allt er tekið með í reikninginn. Vatnsveitan var stofnuð árið 1909 þegar Gvendarbrunnar voru teknir í notkun en hún sameinaðist OR árið 2000. Í dag er Reykjavíkurborg með langstærstan eignarhlut eða 94%, Akraneskaupstaður 5% og Borgarbyggð 1%. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur er Bjarni Bjarnason.  

Sagan
Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun árið 1921 en hún markaði upphaf Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Stofnun Hitaveitunnar er mörkuð af þeim tímamótum haustið 1930 þegar heitu vatni úr Þvottalaugunum í Laugardal var veitt í Austurbæjarskólann og nokkur hús þar í kring. 
Árið 1933 var farið að kanna með að nýta heitavatnsuppsprettur við Reyki í Mosfellsdal með góðum árangri og árið 1937 var búið að leggja heitt vatn í tæplega sextíu hús. Jafnt og þétt byggðist upp rafmagns- og hitaveita fyrir Reykjavík og nágrenni og hefur sú þróun haldið áfram til dagsins í dag. 
Undir lok áttunda áratugar síðustu aldar var komin hitaveita í nánast öll hús. Jarðhitasvæðin á Reykjum og í Reykjadal voru aðal heitavatnslind Hitaveitunnar allt fram til ársins 1990 þegar Nesjavallavirkjun tók til starfa.  
Ekki verður komist hjá því að nefna Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar til sögunnar en upphaf hennar má rekja aftur til ársins 1977 þegar farið var að rannsaka hitasvæði í Borgarfirði. Sú rannsókn leiddi til þess að það þótti vænlegt að nýta hitann frá Deildartunguhver í Reykholtsdal sem er sá vatnsmesti á Íslandi og í allri Evrópu. Fljótlega var hafist handa við að hitaveituvæða Akranes og Borgarbyggð. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar var stofnuð á Hvanneyri árið 1979 en er nú hluti af OR eins og áður hefur komið fram. 
Ýmsar hreyfingar urðu um aldamótin 2000 en um það leyti tók OR við rekstri hitaveitu Þorlákshafnar og 2001-2002 bættust hitaveita Akraness og Borgarfjarðar við auk hitaveitunnari á Bifröst. 2004 sameinuðust hitaveita Hveragerðis og Ölfusveita OR og svo 2006 tók Orkuveita Reykjavíkur við uppbyggingu og rekstri fráveitnanna í Reykjavík, á Akranesi, í Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit. 
En það var ekki bara rafmagnið og heita vatnið sem OR var að miðla heldur tók fyrirtækið  við að dreifa kalda vatninu sífellt víðar og rekur nú vatnsveitur víða um landið sunnan- og vestanvert og sömuleiðis fráveitustöðvar í sex byggðalögum. Miklar umbætur hafa orðið í fráveitumálum á umliðnum árum sem svarar kröfum nýrra tíma í umhverfismálum; ekki bara í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum heldur á landinu öllu. Árið 2005 er svo Gagnaveita Reykjavíkur stofnuð með það verkefni að reka ljósleiðara en henni var breytt í sjálfstætt hlutafélag árið 2007 og fékk árið 2021 heitið Ljósleiðarinn.
Dótturfélög
Fyrsti áfangi hitaveitu frá Hellisheiðarvirkjun við Hengilinn var tekinn í notkun í lok árs 2010. 
Samkvæmt lagaboði árið 2012 var OR skipt upp og urðu þá til ný dótturfélög, sem tóku til starfa í ársbyrjun 2014. Þau eru Veitur ohf sem sér um uppbyggingu og rekstur veitukerfanna fyrir rafmagn, heitt vatn, kalt vatn og skólp, Orka náttúrunnar ohf. sem hefur á sinni hendi jarðvarmavirkjanir á Hellisheiði og Nesjavöllum ásamt vatnsaflsvirkjun við Andakílsá og hefur verið í forystu orkuskipta í samgöngum í landinu og Ljósleiðarinn ehf. sem byggir upp og  rekur háhraða-gagnaflutningakerfi fyrir heimili, fyrirtæki, stofnanir og fjarskiptafyrirtæki. Nýjasta dótturfélag OR, Carbfix ohf. tók til starfa í ársbyrjun 2020 en markmið þess er að fást við kolefnisföngun og förgun til að stemma stigu við þeirri loftslagsvá sem steðjar að mannkyninu.

Aðsetur
Höfuðstöðvar OR eru að Bæjarhálsi 1 en þangað flutti fyrirtækið árið 2003 í nýtt hús sem var byggt samkvæmt verðlaunateikningu í samkeppni um hönnun sem OR stóð fyrir á sínum tíma. Það voru Hornsteinar og Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar sem hlutu þar fyrstu verðlaun. Húsið þótti einkar óvenjulegt og glæsilegt en framkvæmdin þótti nokkuð dýr. Endurbyggja þurfti hluta húsnæðisins eftir að rakaskemmdir uppgötvuðust í því árið 2015.

Umhverfismál 
OR vill leggja sitt af mörkum þegar kemur að sjálfbærum rekstri og styður heilshugar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sérstök áhersla hefur verið lögð á markmiðið um aðgerðir í loftslagsmálum og fjölda nýsköpunar- og þróunarverkefna verið ýtt úr vör í þeim efnum. Má þar nefna samstarf um förgun koldíoxíðs sem fangaður er í andrúmslofti, uppbyggingu innviða fyrir rafbíla um allt land, þróun á sporlausri orkuvinnslu úr jarðhita, vetnisframleiðslu fyrir samgöngur og djúpborun þar sem stefnt er að því að afla aukinnar orku úr jarðhita með minni umhverfisáhrifum 

Mannauður
Hjá OR starfar fjöldi manns á mörgum sviðum og hefur fyrirtækið verið leiðandi í jafnréttismálum síðasta áratuginn. Með átaki tókst að jafna hlut kynja í stjórnunarstöðum og að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun. Vinnustaðurinn er lifandi og þar ríkir góður félagsandi. Starfsmannafélagið er öflugt og stendur fyrir ýmsum viðburðum á hverju ári. Vel er hugað að heilsu og velferð starfsfólks. Má þar nefna sveigjanleika í vinnu þar sem þess er kostur, og mikið er lagt upp úr því að skapa gæðastundir jafnt í vinnu sem og fjölskyldu- og einkalífi. OR telur mannauðinn mikilvægan og leggur áherslu á að það sé fjölskylduvænt fyrirtæki. Fjölbreytt verkefni bíða á hverjum degi hjá OR sem þjónustar 70% landsmanna og mikilvægt er að sú þjónusta sé góð. Starfsmenn eru með mjög mismunandi menntun og bakgrunn enda starfsemin öll mjög víðfeðm. Starfsemi fer fram á mörgum sviðum í mörgum deildum og hjá sumum deildum er mikið um að vera og margt gert til að lyfta andanum til að gera daginn í vinnunni skemmtilegan og eftirminnilegan.  

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd