Starfsemi Orkuvirkis hefur alltaf verið tengd raforku og rafkerfum. Í fyrirtækinu er stundum gantast með það að á Íslandi sé mjög líklegt að einhvers staðar á leiðinni frá orkuframleiðanda til endanlegs notanda raforku hafi orkan farið um búnað frá fyrirtækinu. Heimasíða www.orkuvirki.is
Upphaf og saga
Orkuvirki var stofnað árið 1975 af nokkrum rafverktökum og tæknimönnum á höfuðborgar-svæðinu. Megintilgangur fyrirtækisins var að takast í sameiningu á við verkefni sem voru of stór fyrir einstaka verktaka í eigendahópnum. Starfsemi fyrirtækisins var ekki samfelld, heldur voru gerð tilboð í stór verk sem voru talin henta fyrirtækinu frekar en einstökum hluthöfum og unnið við þá verksamninga sem fengust. Árið 1984 varð sú breyting á fyrirtækinu að nokkrir eigendur seldu hluti sína og fóru út úr fyrirtækinu. Þetta var vegna mögulegra hagsmunaárekstra sem þessir aðilar töldu sig geta lent í. Stjórnarformaður Orkuvirkis frá upphafi var Tryggvi Þórhallsson rafvirkjameistari og rafverktaki.
Árið 1994 varð Orkuvirki að fullu eign Tryggva Þórhallssonar og fjölskyldu hans. Síðan þá hefur starfsemi fyrirtækisins verið samfelld, enda felldi Tryggvi alla sína fyrri starfsemi undir fyrirtækið. Helstu eigendur Orkuvirkis í dag eru afkomendur Tryggva og nokkrir starfsmenn, Þórhallur og Magnús Tryggvasynir, Kristján Guðmundsson, Stefnir Þór Kristinsson og Guðmundur G. Sigvaldason, framkvæmdastjóri. Tryggvi Þórhallson lést í upphafi ársins 2015.
Orkuvirki er í hópi reyndustu rafverktaka á Íslandi og hefur einnig umtalsverða reynslu á vélasviði. Fyrirtækið hefur frá árinu 2000 breyst frá því að vera á síðustu öld verktakafyrirtæki, yfir í að vera öflugt tæknifyrirtæki á sviði raftækni.
Styrkur fyrirtækisins hefur löngum falist í að fá rétta aðila til samstarfs hverju sinni um verkefnin sem liggja fyrir.
Starfsemi
Tryggvi Þórhallson var frumkvöðull, alltaf að reyna að gera betur í því sem hann tók sér fyrir hendur og finna nýjar lausnir. Hann starfaði framan af sem „hefðbundinn“ rafverktaki, meðal annars við húsbyggingar í Breiðholtshverfum, og síðar við veitukerfi í Reykjavík og víðar. Hann hafði alltaf áhuga á framleiðslu og þróaði eftir 1980 eigin lágspennu- og háspennurofaskápa fyrir dreifistöðvar og síðar einnig fyrir aðveitustöðvar. Árið 1992 náði Tryggvi þeim áfanga að láta gerðarprófa 12 kV aflrofaskápa fyrir aðveitustöðvar, sem ekkert annað raftæknifyrirtæki á Íslandi hafði lokið fyrr.
Frá árinu 2000 hefur verið framleidd önnur kynslóð af gerðarprófuðum aflrofaskápum, sem það ár voru hannaðir frá grunni, byggt á nýjustu tækni eins og þá var. Þessi búnaður hefur fengið að dafna og þróast og framleiddir hafa verið yfir 600 rofaskápar af annari kynslóð. Þessir rofaskápar hafa lengst af verið eina eigin framleiðsluvara íslenskra fyrirtækja í raforkugeiranum.
Þróun verka og verkefna frá stofnun Orkuvirkis hefur verið frá því að vinna stærri verk þar sem þurfti margar hendur, yfir í að vinna flóknari verk, þar sem krafist er mikillar tæknikunnáttu og stýringar verkefna. Á þessari öld endurspeglast þetta í samsetningu mannafla fyrirtækisins; þar sem áður voru almennir starfsmenn og iðnaðarmenn hefur sérhæfingin aukist, höndum fjölgar lítið þrátt fyrir aukið umfang verkefna og krafan er að iðnaðarmenn séu sérhæfðari en áður. Í samræmi við þetta hefur tæknimenntuðu starfsfólki fjölgað í fyrirtækinu.
Vegna eigin framleiðslu hefur hönnunarvinna verið innan Orkuvirkis, og síðar hefur bæst við hönnun í flóknari verkefnum.
Starfsemi Orkuvirkis nú stendur á fimm stoðum:
– Framleiðslu á lágspennurofaskápum fyrir veitukerfi og byggingar.
– Eigin framleiðslu og innflutningi á háspennurofaskápum og búnaði fyrir veitukerfi.
– Sérhæfðri verktöku fyrir veitur og í veitukerfum orkugeirans og í iðnaði.
– Hönnun á stjórn- og varnarbúnaði ásamt samskiptagáttum fyrir tengivirki og aðveitustöðvar.
– Þjónustu við búnað sem fyrirtækið hefur afhent viðskiptamönnum.
Öll vinna í fyrirtækinu er tengd verkefnum og ekkert er framleitt nema fyrir hendi sé kaupandi afurðar eða verkefnis.
Við framkvæmd ýmissa verkefna hefur Orkuvirki átt í samstarfi við aðra, bæði íslensk og alþjóðleg erlend fyrirtæki. Erlendu samstarfsaðilarnir hafa verið:
– Svissneska fyrirtækið ABB í álverum, spennistöðvum og tengivirkjum.
– Japönsku fyrirtækin Fuji, Mitsubishi og Toshiba um uppsetningarvinnu í orkuverum.
– Þýska fyrirtækið Siemens um uppsetningu á GIS rofabúnaði fyrir tengivirki og spennustöðvar.
– Suður-Kóreska fyrirtækið Hyosung um uppsetningu á GIS rofabúnaði fyrir tengivirki og spennustöðvar
Verkefnin
Helstu viðskiptamenn Orkuvirkis eru:
– Raforkuframleiðendur á Íslandi.
– Flutnings- og dreifiveitur á Íslandi.
– Stóriðjufyrirtæki og annar iðnaður.
Á tímabilinu 1975 til 1994 standa tvö verkefni upp úr í verkefnasögu Orkuvirkis:
– Uppsetning rafbúnaðar hjá Íslenska Járnblendifélaginu (1978-1980).
– Uppsetning vél- og rafbúnaðar í Blöndustöð Landsvirkjunar (1990-1991).
Frá 1994 og þar til nú er verkefnalistinn langur og fjölbreyttur:
– Lágspennudreifingar fyrir fjölda bygginga og í mörg orkuver Landsvirkjunar, auk annarra.
– Rofaskápar fyrir margar aðveitustöðvar Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Rarik og Orkubú Vestfjarða svo nokkrar dreifiveitur séu nefndar, og fyrir stóriðjufyrirtækin og önnur iðnfyrirtæki.
– Háspennutengivirki fyrir Landsnet og stóriðjuna, ásamt afriðlastöðvum í álverunum.
– Samsetning og olíumeðhöndlun stórra spenna hjá veitum og í iðnaðinum.
– Tengingar háspennustrengja fyrir spennu frá 1 kV og allt að 245 kV.
– Hönnun og vinna við stjórnkerfi tengivirkja og í aðveitustöðvum.
Skipulag og sérstaða
Orkuvirki er einkahlutafélag, eins og áður sagði, í eigu afkomenda Tryggva Þórhallssonar og fleiri, sem allir eru starfsmenn fyrirtækisins.
Fyrirtækið er verkefnadrifið og með vottuð stjórnkerfi í samræmi við gæðastaðlana
ISO 9001, 14001 og 45001.
Orkuvirki hefur aflað sér sérþekkingar á öllum sviðum raftækni fyrir þau verkefni sem fyrirtækið hefur unnið og er nú í stakk búið til þess að vinna verkefni frá lægstu notendaspennu og upp í hæstu spennu sem notuð er í flutnings- og dreifikerfum raforku á Íslandi. Í samræmi við það er fyrirtækið vel búið tækjum og kunnáttumönnum sem þarf til þessarar vinnu, frá hönnun og innkaupum, uppsetningu og til gangsetningarprófana virkja.
Ársvelta Orkuvirkis hefur verið breytileg milli ára. Á undanförnum 10 árum hefur veltan verið á bilinu 800 – 1.500 Mkr. Fjöldi starfsmanna hefur verið breytilegur, kjarni þeirra er 35-40 manns og flestir hafa starfsmenn Orkuvirkis orðið nálægt 80 manns eitt starfsárið; að jafnaði 40 starfsmenn síðustu ár.
Vinnuvernd og umhverfi
Orkuvirki hefur á undanförnum áratug unnið að verkefnum og á verkstöðum þar sem gerðar eru miklar kröfur til öryggismála, og tileinkað sér þaðan allt sem hefur reynst vel. Þá hefur fyrirtækið unnið og útbúið vinnuverndargögn fyrir flesta þætti starfseminnar og er þeim fylgt í störfum starfsmanna.
Við alla vinnu í háspennuvirkjum hefur alltaf þurft að huga að vinnuumhverfi og vinnuvernd. Orkuvirki hefur alltaf gætt þess að þessi vinna sé unnin af fagmönnum og fyllsta öryggis gætt við öll störf.
Aðsetur og starfsemi
Aðsetur Orkuvirkis er við Tunguháls 3 í Reykjavík. Húsnæðið sem fyrirtækið starfar í er um 1250 fm á lóð sem er 6000 fm. Auk þeirrar framleiðslu sem er unnin í höfuðstöðvum Orkuvirkis er starfsemi fyrirtækisins oft tímabundið í verkefnum um allt land. Starfsmenn Orkuvirkis eru nú 45. Á skrifstofu við tilboðsgerð, verkefnastjórnun, hönnun og aðra umsýslu eru 15 manns. Aðrir starfsmenn skiptast í raf- og véliðnaðarmenn ásamt aðstoðarmönnum.
Starfsmannafélag
Í Orkuvirki er virkt starfsmannafélag, sem á hverju ári stendur fyrir viðburðum fyrir starfsmenn og maka. Dæmi um viðburði undanfarin ár eru golfmót fyrir starfsmenn, starfsmanna- og árshátíðaferðir, jólahlaðborð ásamt öðru tilfallandi. Þátttaka starfsmanna er að jafnaði mjög góð í því sem starfsmannafélagið tekur sér fyrir hendur.
Framtíðarsýn
Orkuvirki vill hér eftir sem hingað til vera leiðandi í lausnum fyrir raforkuiðnaðinn.
Tryggvi Þórhallsson
Tryggvi fæddist 8. Janúar 1936 og lést 1. janúar 2015. Hann var fæddur Skagfirðingur, missti báða foreldra frekar ungur og lærði að bjarga sé sjálfur og standa á eigin fótum.
Menntun Tryggva var nám í rafmagnsdeild Vélskóla Íslands.
Hann starfaði sem ungur maður á Keflavíkurfluvelli, gerðist síðan rafveitustjóri Rafveitu Reyðarfjarðar, vann um tíma hjá Landsvirkjun og eftir það sem sjálfstæður rafverktaki í Reykjavík. Hann var rafvirkjameistari við margar byggingar framkvæmdanefndar byggingaráætlunar um Breiðholtshverfi. Tryggvi var yfirverkstjóri Orkuvirkis við framkvæmdir Íslenska Járnblendifélagsins á Grundartanga. Mörg verkefni vann hann fyrir Hitaveitu Reykjavíkur á árum uppbyggingar á dælustöðvum og iðntölvuvæðingar hennar eftir 1980. Á sama tíma byrjaði Tryggvi að framleiða háspennurofaskápa fyrir veitukerfi, mest fyrir Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Rarik og aðrar dreifiveitur. Hann var framkvæmdastjóri Orkuvirkis eftir að hann eignaðist það að fullu á árinu 1994 og til 2005, þegar Þórhallur sonur hanns tók við keflinu.
Þótt Tryggvi hætti sem framkvæmdastjóri Orkuvirkis settist hann ekki í helgan stein 69 ára gamall, heldur fór af fullum krafti í að hanna ljós og lampa fyrir ljósgjafa framtíðarinnar, ljóstvista, og vann að því til æviloka.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd