Ormsson

2022

Frumkvöðlarnir
Bræðurnir Ormsson, eða Ormsson eins og það heitir í dag, er með rótgrónustu fyrirtækjum landsins. Saga þess hefst árið 1922 þegar Eiríkur Ormsson rafvirkjameistari opnaði lítið rafvélaverkstæði í herbergi á jarðhæð í húsinu við Óðinsgötu 25. Elliðaárvirkjun hafði verið gangsett og rafvæðing hafin í bæjum og þorpum landsins. Tildrög þess að að Eiríkur hóf þessa starfsemi á sér nokkra sögu sem of langt mál yrði að rekja hér, en athygli vekur þó að þeir bræður Jón og Eiríkur Ormssynir voru með nýtt sveinspróf upp á vasann í skósmíði og trésmíði áður en þeir fóru að vinna við rafmagn. Það mun hafa atvikast þannig að Halldór Guðmundsson raffræðingur tók að sér að rafvæða Vík í Mýrdal þegar búið var að virkja Víkurá og þeir bræður Jón og Eiríkur unnu hjá honum sem aðstoðarmenn. Eftir það varð ekki aftur snúið og þeir sneru þeir bræður sér að rafmagninu sem var mesta tæknibylting þessa tíma. Jón gerðist meðeigandi Eiríks í verkstæðinu og næstu árin unnu þeir mikið saman. Samstarf bræðranna var með þeim hætti að Jón sá um nýlagnir í hús og skip á meðan Eiríkur hafði umsjón með verkstæðinu. En þegar mikið lá við þá gengu þeir saman í verkin þegar um var að ræða stærri verkefni við virkjanir út um land og fleira þess háttar. Árið 1932 skildi leiðir með þeim bræðrum og Jón fór út í eigin rekstur. Eiríkur hélt hins vegar áfram rekstrinum undir nafninu Bræðurnir Ormsson.

Hugvit og áræðni
Eftir því sem umsvif fyrirtækisins urðu meiri var orðin þörf fyrir betra húsnæði undir starfsemina. 1. október 1936 voru fest kaup á hentugu húsnæði við Vesturgötu 3 sem þá var í alfaraleið. Eftirspurn eftir rafmagnsvinnu var talsverð auk þess sem þarna voru smíðaðar ljósavélar sem gátu gengið fyrir vind og vatnsorku. Ormsson þjónustar enn í dag þennan markað og hefur um árabil verið umboðsaðili fyrir Fuji Electric sem framleiða risa túrbínur í háhitavirkjanir hjá Landsvirkjun og HS Orku.
Á árunum fyrir heimsstyrjöldina var fyrirtækið komið á góðan rekspöl og innflutningur orðinn drjúgur hluti af rekstrinum. Það var einkum varningur frá Þýskalandi. En þegar stríðið braust út lokuðust flutningsleiðir og erfitt var að fá nauðsynlega hluti til viðhalds og viðgerða að utan. Þá reyndi á hugvitið og tekið var til við að smíða stærri vélar og nýta til þess það sem til féll hverju sinni. En að stríðinu loknu fór allt að glæðast á ný og fyrirtækið hóf að vaxa hratt. Á Íslandi fóru nú að rísa stór verslunarhús og fyrirtæki byrjuð að færa út kvíarnar. Þýska stórfyrirtækið Bosch sem Bræðurnir Ormsson voru umboðsaðilar fyrir ýtti undir það að fyrirtækið myndi stækka. Árið 1959 var gert samkomulag um að sonur Eiríks, Karl Eiríksson yrði framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann varð síðar forstjóri. Hann starfaði hjá fyrirtækinu í 44 ár.

Stórhugur og metnaður
Árið 1963 var hafist handa við byggingu á horni Háaleitisbrautar og Lágmúla. Starfsemi fyrirtækisins var nú orðin mun fjölbreyttari og margar deildir innan þess. Á þessum 100 árum hefur félagið alltaf verið með höfuðstöðvar í Reykjavík og samtals verið með fjögur lögheimili innan borgarmarkanna.
Eins og áður sagði voru Bræðurnir Ormsson umboðsaðilar fyrir Bosch og við bættist AEG sem er þekktur raftækjaframleiðandi en áður hafði félagið flutt inn AEG túrbínur þannig að samtals hafa AEG og Ormsson starfað saman í 99 ár.  Vörur þessara fyrirtækja eru þekktar fyrir gæði og endingu og njóta gríðarlegra vinsælda í dag.
Flutt var inn í nýja húsnæðið í Lágmúla 9 árið 1966. Árið 1967 var boðið út allt rafmagnsverk fyrir Álverið í Straumsvík. Bræðurnir Ormsson í samvinnu við danskt fyrirtæki landaði samningi um að leggja allt rafmagn í verksmiðjuna og það verk öðrum þræði varð til þess að hægt var að standa straum af kostnaði við byggingu hússins við Lágmúla.  Allar götur síðan hefur fyrirtækið vaxið, bætt við vörumerkjum og farið í gegnum alls kyns þróun og breytingar.  Fyrirtækið var dreifingaraðili fyrir Becks þegar bjórinn var leyfður á Íslandi árið 1989, Ormsson seldi Polaris vélsleða, KONE lyftur og rúllustiga m.a. í Kringlunni þegar hún var byggð.

Straumhvörf
Í dag stendur Ormsson á tímamótum og fagnar 100 ára afmæli á þessu ári. Þetta rótgróna fjölskyldufyrirtæki sem Reykvíkingar og landsmenn allir þekkja svo vel hefur sérhæft sig á undanförnum árum í sölu raftækja og smávöru til heimila og fyrirtækja jafnt í smásölu sem heildsölu. Ormsson eru umboðsaðilar heimsþekktra vörumerkja eins og Samsung, Bang og Olufsen, Pioneer, Sharp, Nintendo fyrir utan þau sem þegar hafa verið nefnd hér að ofan. Annar stór þáttur í starfsemi fyrirtækisins er hönnun innréttinga fyrir eldhús, baðherbergi og þvottahús fyrir HTH sem er danskur innréttingaframleiðandi, en Ormsson eru umboðsaðili fyrir HTH. HTH innréttingar hafa verið seldar hér á landi síðan 1979 er annað stærsta vörumerki í eldhúsinnréttingum á markaðnum í dag. Sala á innréttingum og tækjum til verktaka er stór hluti af rekstrinum í dag.
Árið 2021 varð sú breyting á rekstrinum að vörumiðlunarfyrirtækið SRX keypti upp allt hlutafé í Ormsson ehf. og var samanlögð velta þessara félaga um 6 milljarðar á því ári.  Félagið rekur í dag verslun í Reykjavík, á Akureyri, vefverslun auk verslunar með HTH innréttingar. Ormsson rekur einnig öfluga heildverslun og er með samstarfsaðila víða um landið. Ormsson á í harðri samkeppni á markaðnum en hefur sterka stöðu, ekki síst í ljósi langrar sögu og fyrir þær gæðavörur og þjónustu sem þeir bjóða viðskiptavinum sínum. Ormsson stendur fyrir fagmennsku, þjónustu, upplifun og gæði. Ormsson vill bjóða einstaklingum og fyrirtækjum hágæða lausnir í raftækjum, tæknibúnaði og innréttingum á verði sem er samkeppnishæft; veita persónulega þjónustu þar sem fagmennska situr í fyrirrúmi og sérfræðingar gefa góð ráð.

Forstjóri Ormsson í dag er Kjartan Örn Sigurðsson sem segir framtíðarsýn Ormsson eigi að birtast í því að aðstoða fólk við að skapa draumarýmið með hágæða innréttingum og raftækjum fyrir fólk til að njóta góðrar upplifunar og þæginda. Þannig tekst að fjölga gæðastundum hins daglega lífs. Nýtt slagorð fyrirtækisins er Sköpum drauma heima.

Hann segir breytinguna á yfirbragði fyrirtækisins hafa tekist vel. Ormsson sker sig úr og heldur sinni sérstöðu með áherslu á þjónustu og upplifun. Viðbrögð viðskiptavina benda öll til þess að þau áform sem lagt var af stað með hafi heppnast.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd